Hoppa yfir valmynd
28. október 2011 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 9/2011

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

VR, Hagkaupum, IKEA, Iceland Express, A4 verslununum, Tékk Kristal, Fasteignasalanum, Efnalauginni Björg, Spássíunni, Árbæjarapóteki, Pfaff, Saints, Útilífi, Karen Millen, Warehouse, Top Shop o.fl.

Mismunun.

Samkvæmt launakönnun VR 2011 er launamunur kynjanna á Íslandi um 10%. VR hratt af stað átaki í september 2011 að sögn með það að augnamiði að útrýma slíkum kynbundnum launamun. VR hvatti fyrirtæki til að lýsa stuðningi við átakið og veita konum sérstakan 10% afslátt af vöru og þjónustu á tímabilinu 20.–26. september 2011. Nokkur fyrirtæki brugðust við hvatningunni og veittu konum 10% afslátt í einn eða fleiri daga. Kærandi taldi að þau fyrirtæki sem byðu slíkan afslátt brytu með því gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Kærandi var ekki talinn hafa einstaklingsbundna hagsmuni af úrlausn um ágreiningsefnið. Var því málinu vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 28. október 2011 er tekið fyrir mál nr. 9/2011 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 21. september 2011, kærði kærandi, A, VR fyrir að hvetja fyrirtæki til að veita konum 10% afslátt af vörum og þjónustu á tímabilinu 20.–26. september 2011. Kærandi kærði einnig Hagkaup, IKEA, Iceland Express, A4 verslanirnar, Tékk Kristal, Fasteignasalann, Efnalaugina Björg, Spássíuna, Árbæjarapótek, Pfaff, Saints, Útilíf, Karen Millen, Warehouse, Top Shop o.fl. fyrir að verða við þessari áskorun. Taldi kærandi að með hvatningu VR og afsláttarkjörum til kvenna hefði verið farið gegn 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

    MÁLAVEXTIR
  3. Í niðurstöðum launakönnunar er VR framkvæmdi á árinu 2011 kemur fram launamunur kynjanna á Íslandi sé um 10% þegar tekið hafi verið tillit til áhrifaþátta á laun. VR mun hafa farið af stað með átak í september 2011 með það að augnamiði að kynbundnum launamun yrði útrýmt. VR hvatti fyrirtæki til að lýsa stuðningi við átakið og til þess að veita konum sérstakan 10% afslátt af vöru og þjónustu á tímabilinu 20.–26. september 2011. Nokkur fyrirtæki brugðust við hvatningu VR og veittu konum 10% afslátt í einn eða fleiri daga.
  4. Kærandi mun starfa í verslun Hagkaupa við afgreiðslustörf. Hann mun hafa orðið þess áskynja þegar verð vöru var slegið inn í afgreiðslukassa var boðið upp á 10% afslátt ef viðskiptavinurinn var kona. Kærandi kveðst ekki geta fellt sig við þá mismunun er í þessu hafi falist.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA
  5. Kærandi í máli þessu telur að þau fyrirtæki sem buðu konum 10% afslátt af vörum og þjónustu í samræmi við hvatningu VR hafi mismunað landsmönnum eftir kyni þeirra. Kærandi bendir á að í 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, segi að hvers kyns mismunum á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, sé óheimil.
  6. Kærandi kveðst ekki með nokkru móti geta fellt sig við slíka mismunun á grundvelli kynferðis enda sé hann mikill jafnréttissinni. Að mati kæranda hafi þetta verið jafn fjarstæðukennt og rangt og að veita viðskiptavinum afslátt á grundvelli litarháttar, kynhneigðar, trúarskoðana o.s.frv.
  7. Kærandi telur að efast megi um að raunverulegur launamunur kynjanna sé fyrir hendi þegar tekið sé tillit til allra þátta. Sé raunverulegur launamunur fyrir hendi sé rétt að takast á við hann í stað þess að stuðla að mismunun. Hann getur þess að margir hafi talið átakið niðurlægjandi fyrir konur.

    NIÐURSTAÐA
  8. Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
  9. Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna, sem telja að ákvæði laganna hafi verið brotin á sér, geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt þessu er skilyrði kæru til nefndarinnar að kærandi hafi einstaklingsbundinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn ágreiningsefnisins. Slíku er ekki borið við af hálfu kæranda heldur á því byggt að hann geti ekki fellt sig við framgöngu kærðu, þar sem hann sé jafnréttissinni auk þess sem hann dregur í efa að raunverulegum kynbundum launamun sé til að dreifa. Þannig hefur ekki verið á því byggt af hálfu kæranda að hann hafi persónulega hagsmuni umfram aðra einstaklinga af úrlausn þess erindis sem hér er borið undir kærunefndina. Þar sem á það hugtaksskilyrði skortir verður því að vísa máli þessu frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum