Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2005 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 16/2004

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 16/2004:

A

gegn

Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 1. nóvember 2005 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með upphaflegri kæru, dags. 16. desember 2004, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort mismunandi launakjör sérfræðinga í Blóðbankanum, Landspítala – háskólasjúkrahúsi (hér eftir LSH) bryti gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Í bréfi kæranda vísar kærandi til erindis til samstarfsnefndar LSH, dags. 8. nóvember 2004, þar sem fram komi kröfur hennar um leiðréttingu á meintum launamun. Kærunni fylgdu ýmis fylgigögn.

Kæran, ásamt fylgigögnum, var kynnt LSH með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 18. janúar 2005. Svar LSH barst kærunefnd með bréfi, dags. 18. febrúar 2005. Í tilefni af athugasemdum LSH var kæranda gefinn kostur á því, með bréfi dags. 25. febrúar 2005, að tjá sig um umsögn LSH. Kærandi sendi kærunefnd jafnréttismála viðbótarathugasemdir með bréfi, dags. 7. mars 2005, sem mótteknar voru hjá nefndinni 17. mars 2005, en í tilvitnuðu erindi kæranda voru gerðar frekari kröfur umfram það sem lýst var í erindi til nefndarinnar þann 16. desember 2004. Af þessu tilefni var LSH á ný gefinn kostur á að tjá sig um kröfur kæranda og er sú umsögn LSH dagsett 19. maí 2005 en móttekin hjá kærunefnd jafnréttismála þann 23. maí 2005. Með vísan til þeirrar umsagnar ákvað kærunefnd jafnréttismála að gefa kæranda enn kost á að gera frekari athugasemdir við afstöðu LSH og komu þær fram í bréfi kæranda, ásamt fylgiskjölum, dags. 29. maí 2005, sem barst kærunefnd jafnréttismála 13. júní 2005. Af hálfu kærunefndar jafnréttismála var talið nauðsynlegt að gefa LSH enn kost á því að koma að athugasemdum, nú við bréf kæranda dagsett 29. maí 2005 en sú umsögn LSH er dagsett 19. júlí 2005. Sú umsögn var kynnt kæranda og er lokaumsögn kæranda vegna þessa dagsett 30. ágúst 2005.

Sjónarmið aðila þykja nægilega fram komin í skriflegum athugasemdum og var ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Kærandi starfar sem meinatæknir í Blóðbankanum, LSH. Kærandi er aðili að Meinatæknafélagi Íslands (MTÍ), nú Félag lífeindafræðinga og voru laun hennar ákvörðuð samkvæmt kjarasamningi Meinatæknafélags Íslands annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs hins vegar. Til viðbótar við gildandi kjarasamning milli aðila höfðu Meinatæknafélag Íslands (MTÍ) og Landspítali – háskólasjúkrahús (LSH) gert stofnanasamning sín á milli þar sem kveðið var á um röðunarreglur og launasetningu starfaflokka sem til staðar eru á stofnuninni. Í Blóðbankanum eru jafnframt starfandi náttúrufræðingar sem ráðnir hafa verið til starfa sem slíkir og fer um kjör þeirra samkvæmt kjara- og stofnanasamningi Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN).

Kærandi telur að karlkyns náttúrufræðingar, sem starfi við hlið hennar, fái hærri laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Um kynjabundinn launamun sé að ræða sem ekki verði réttlættur út frá mismunandi kjarasamningum. Af hálfu kæranda er gerð krafa um tiltekna leiðréttingu launa af þessum ástæðum, sbr. bréf kæranda til samstarfsnefndar, dags. 8. nóvember 2004. Í því bréfi er m.a. gerð krafa um leiðréttingu vegna röðunar í launaflokka og að kærandi eigi rétt á leiðréttingu launa frá því kjarasamningur MTÍ tók gildi 1. maí 2001. Í kærubréfi til kærunefndar, dags. 16. desember 2004, tiltók kærandi fleiri kröfur en komið höfðu fram í áðurgreindu bréfi til samstarfsnefndar, þ.e. varðandi mismun á launatöflu FÍN annars vegar og MTÍ hins vegar (0,8% munur), að hún fengi einn launaflokk til viðbótar fyrir að umgangast eiturefni, sem hún krafðist að fá afturvirkt frá 1. júlí 2001, auk þess sem hún gerði kröfu um að fá greiðslu fyrir útkall í samræmi við kjarasamning FÍN, afturvirkt frá 1. maí 2001. Með bréfi, dags. 7. mars 2005, gerði kærandi að auki kröfu um að fá til viðbótar greidd laun, miðað við einn launaflokk til viðbótar, vegna viðbótarmenntunar. Af hálfu LSH hefur kröfum kæranda verið hafnað, einkum m.t.t. þess að ekki sé fallist á almennan samanburð milli kjara- og stofnanasamninga MTÍ annars vegar og FÍN hins vegar, enda sé bakgrunnur þessara tveggja fagstétta ólíkur, að því er varðar menntun, vinnutíma og verkefni og þ.a.l. séu samningslegir hagsmunir og áhersluatriði við gerð stofnanasamninga með mismunandi hætti. Þegar starfsmenn í sömu eða sambærilegum störfum tilheyri mismunandi stéttarfélögum verði ekki fallist á að bera skuli saman hvern einstaka kjaraþátt í viðkomandi kjarasamningum og velja úr það besta í hverju tilviki. Þó er bent á varðandi framangreindan samanburð milli kjarasamninga MTÍ annars vegar og FÍN hins vegar, að það séu líklega aðeins störf meinatækna í Blóðbanka, að hluta til í ónæmisfræðideild og veirufræðideild, þar sem um hreina skörun sé að ræða.

Á meðan mál þetta var til umfjöllunar í kærunefnd voru gerðir nýir kjarasamningar Meinatæknafélags Íslands og fjármálaráðherra, sem tóku gildi frá og með 1. febrúar 2005, og kjarasamningar Félags íslenskra náttúrufræðinga og fjármálaráðherra, sem tóku gildi 1. mars 2005.

 

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er í máli þessu gerð krafa um að tiltekinn munur á launakjörum fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf verði jafnaður þannig að kærandi njóti sömu launa og karlkyns starfsmenn sem fái laun samkvæmt kjarasamningi FÍN. Í bréfi kæranda til samstarfsnefndar LSH og MTÍ segir svo: „Ég starfa sem meinatæknir í Blóðbankanum og er umsjónarmaður gæðaeftirlits [...] sem flokkast sem umsjónarmaður 2, skv. kjarasamningi FÍN. Ég er í MTÍ og þigg laun skv. kjara- og stofnanasamningi MTÍ við LSH. Við hlið mér starfa karlkyns náttúrufræðingar sem þiggja laun skv. kjara- og stofnanasamningi FÍN. Þeir eru bæði hærra raðaðir og launaðir fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf og vísa ég til 14. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, stöðulista Blóðbankans og staðfestingu þess að grunnröðun umsjónarmanns blóðflokka- og blóðflokkamótefnaskims og umsjónarmaður gæðaeftirlits flokkist sem umsjónarmaður 2, skv. kjarasamningi FÍN. Samanber stofnanasamning FÍN grunnraðast umsjónarmaður 2 í [X] og fær auk þess 4 flokka gegn því að afsala sér 12 tímum. Ég er grunnröðuð í [Y] og hefur mér verið synjað um að selja mína 12 tíma. Þá vísa ég í Hæstaréttardóm 255/1996 en þar segir að kynjabundinn launamun sé ekki hægt að réttlæta út frá kjarasamningum. [...] Ég fer fram á að þessi launamunur fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf hverfi og leiðrétting á launum mínum eigi sér sem fyrst stað. Einnig tel ég mig eiga rétt á leiðréttingu launa minna frá því að kjarasamningur MTÍ tók gildi 1.5.01 [...] Þá tel ég mig eiga fullan rétt á vöxtum frá 1.5.01.  [...]“.

Í kæru kæranda til kærunefndar jafnréttismála, dags. 16. desember 2004, segir m.a.: „Frekari rökstuðningur minn gagnvart sölu á mínum 12 tímum (óunnin yfirvinna); Ég vísa í stofnanasamning MTÍ sem tók gildi 1.6.01 en í 6. lið segir orðrétt: “Forsenda fyrir breytingum þessum gagnvart starfsmönnum með yfirvinnu á föstum forsendum er að einstaklingsbundin ráðningarkjör þeirra verði endurskoðuð samhliða breytingum þessum.” MTÍ hefur ítrekað reynt að selja tímana en hefur ekki ennþá tekist það.“

Síðan segir í kæru kæranda: „Fleiri kröfur en komu fram í bréfi til samstarfsnefndar LSH, dags. 8.11.04 og þær eru:

1)      Í bréfi mínu dags. 8.11.04 fer ég m.a. fram á að þessi launamunur fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf hverfi. Ég vil benda á að B-rammi í launatöflu hjá FÍN er 0,8% hærri en B-rammi í launatöflu MTÍ og fer ég fram á að fá þessa leiðréttingu afturvirkt frá 1.5.01.

2)      Jafnframt fengu karlkynslíffræðingarnir 1 flokk fyrir eiturefni, þ.e. að umgangast blóð. Ég vinn á sömu stofnun og þeir og vinn sambærileg og jafnverðmæt störf og þeir og er í sömu áhættu og þeir. Ég fer fram á að fá 1 flokk afturvirkt frá 1.7.01 en þá tók stofnanasamningur FÍN gildi.

3)      Fer fram á að fá 4 klst. og 3 klst. fyrir hvert útkall, sjá kjarasamning FÍN 2.3.3.2. og 2.3.3.1. og greiðslur fyrir bakvaktir sjá 1.6.2. afturvirkt til 1.5.01. Ég gegni sömu vöktum og karlkynslíffræðingarnir og fæ aðeins 2 klst. fyrir hvert útkall sjá 2.5.3. í kjarasamningi MTÍ og greiðslur 2.5.2.“

Í viðbótarathugasemdum sínum til kærunefndar, dags. 7. mars 2005, kemur fram að kærandi telji sig hafa sýnt fram á að hún vinni sem umsjónarmaður gæðaeftirlits, og karlkyns líffræðingurinn sem hún vitni til sé umsjónarmaður blóðflokka- og blóðflokkamótefnaskims, en þessi umsjónarsvið flokkist bæði sem umsjónarmaður 2 samkvæmt stofnanasamningi FÍN og LSH frá 2001. Kærandi heldur því fram að störf þeirra séu sambærileg og jafnverðmæt; þau taki sömu vaktir, vinni við það sama en gegni sitthvoru umsjónarmannsstarfinu. Bendir kærandi á að sá sem taki laun samkvæmt kjarasamningi FÍN fái grunnröðunina [X] en kærandi hafi á því tímabili sem um ræðir verið grunnröðuð í launaflokk [Y]. Sama gildi ef þau hefðu víxlað umsjónarmannsstörfunum, sá sem miðað var við hefði þá fengið [X] en kærandi [Y].  

Kærandi segir enn fremur í erindi sínu til kærunefndar, dags. 7. mars 2005: „Það hefur verið sýnt fram á að kvenstéttarfélög innan BHM standa mun verr að vígi eins og MTÍ. Í MTÍ eru 5 karlmenn af ca. 300 félagsmönnum og er kynjahlutfallið 98,3% konur sem félagsmenn [...], á móti 45% konum og 55% körlum hjá FÍN [...]. Hér er því hæglega hægt að tala um karla- og kvenstéttarfélög því kynjahlutföllin eru mjög ólík, sem virðist vera skýringin á þessum ótrúlega mismunun [svo] starfsmanna.“ Kærandi bendir á að kynjabundinn launamun sé ekki hægt að réttlæta út frá kjarasamningum þegar um jafnverðmæt og sambærileg störf sé að ræða.

 

IV

Sjónarmið Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH)

Landspítali – háskólasjúkrahús telur að ekki hafi verið sýnt fram á að brotið hafi verið gegn ákvæðum jafnréttislaga gagnvart kæranda í máli þessu.

Í athugasemdum LSH, dags. 18. febrúar 2005, kemur fram að kærandi sé meinatæknir og hafi verið ráðin sem slík í starf sitt í Blóðbankanum. Um ráðningarkjör fari samkvæmt kjarasamningi Meinatæknafélags Íslands en að auki hafi LSH og MTÍ gert með sér stofnanasamning, þar sem fjallað sé um röðunarreglur og launasetningu starfaflokka sem til staðar séu á stofnuninni. Í Blóðbankanum starfi einnig náttúrufræðingar en um ráðningarkjör þeirra fari eftir kjara- og stofnanasamningum Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN). Í Blóðbankanum hátti þannig til að meinatæknar og náttúrufræðingar vinni náið saman og geti gengið í störf hvors annars að uppfylltum skilyrðum um þekkingu og reynslu í starfinu án tillits til menntunarinnar sem slíkrar. Sambærileiki umræddra starfa í Blóðbankanum sé því óumdeildur í málinu. Starfsmat hafi hins vegar ekki verið framkvæmt á LSH til að meta hvort störfin séu jafnverðmæt í skilningi 14. gr. laga nr. 96/2000.

Að því er varðar tilvísun kæranda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 255/1996, telur LSH rétt að benda á að kjarasamningum opinberra starfsmanna hafi verið breytt eftir það. Kjarasamningar hafi áður verið á milli stéttarfélags og fjármálaráðherra og stofnanir framkvæmt þá eins og best var talið með tilliti til starfseminnar á hverjum stað. Nú geri hins vegar stéttarfélögin hvert um sig stofnanasamninga við ríkisstofnanir, svo sem LSH, þar sem kveðið sé á um flokkun og röðunarkerfi starfa. Dómurinn geti því ekki talist fordæmi í því máli sem hér sé til umfjöllunar.

Kærandi sé því „rétt launasett“ miðað við ráðningarsamning sinn og launasetning hennar í fullu samræmi við kjara- og stofnanasamning MTÍ og LSH; 229.791 kr. á mánuði. Af 21 náttúrufræðingi í Blóðbankanum séu sex karlar. Konur séu því í miklum meirihluta náttúrufræðinga í Blóðbankanum og launakjör þeirra í samræmi við gildandi stofnanasamninga án kynjamismununar. Meðallaun náttúrufræðinga á vinnustaðnum, annarra en forstöðumanna, séu 221.863 kr. á mánuði.

Í kærunni komi ekki fram hverja kærandi vilji bera sig saman við af körlum í hópi náttúrufræðinga. Séu laun hennar borin saman við þann karlkyns náttúrufræðing, sem einna helst komi til greina í þeim samanburði sem kærandi vilji láta framkvæma, komi í ljós að launamunur milli þeirra sé 2.139 kr. á mánuði í 100% starfi, náttúrufræðingnum í vil.

Sú fullyrðing kæranda, að meinatæknar fái ekki að selja fasta yfirvinnutíma gegn hærri röðun eins og aðrir, eigi við rök að styðjast; stofnanasamningi MTÍ og LSH hafi ekki enn verið breytt með sambærilegum hætti og samningum ýmissa annarra stéttarfélaga á stofnuninni, m.a. FÍN. Stéttarfélögin hafi hvert og eitt viljað semja um sín kjaramál, þ.á m. MTÍ og FÍN.

Þá segir í athugasemdum LSH: „Það er fráleit túlkun á jafnréttisákvæðum laga að LSH beri skylda til að láta starfsmenn í hverju tilviki njóta allra hagstæðustu þátta, t.d. orlofs-, veikinda-, frítökuréttar, vaktaákvæða o.s.frv., sem unnt er að finna í þeim 20-30 kjarasamningum sem gilda á stofnuninni, jafnvel þótt stéttarfélag viðkomandi starfsmanns hafi samið á allt annan hátt um það atriði í sínum kjarasamningi. Með slíkri túlkun væru allir kjarasamningar og ráðningarsamningar meira og minna í uppnámi.“ Þá segir einnig: „Kjarasamningar eru í gildi og leikreglur vinnumarkaðarins verður að hafa í heiðri lögum samkvæmt. Eðli máls samkvæmt þróast hin ýmsu ákvæði kjarasamninga með mismunandi hætti, sumt verður betra hjá einu félagi á meðan annað er látið mæta afgangi á meðan önnur stéttarfélög hafa e.t.v. allt aðrar áherslur.“ Því telur LSH að kærandi geti ekki krafist launakjara samkvæmt kjarasamningi FÍN þar sem hann gildi ekki um kjör kæranda.

Varðandi kröfu kæranda um leiðréttingu launa bendir LSH á að mismunur launataflna MTÍ og FÍN sé óvenjulítill í samanburði við mun milli flestallra annarra launataflna starfsmanna ríkisins. Þá sé launatafla MTÍ 2,25% hærri en launtafla FÍN í A-ramma en 0,75% lægri í B-ramma sem er rammi sá er kærandi er í. Krafa kæranda um eiturefnaflokk eigi ekki við rök að styðjast þar sem ekki skuli greiða sérstakan eiturefnaflokk til viðbótar grunnröðun starfa samkvæmt stofnanasamningi FÍN. Kröfu kæranda um að farið verði með lágmarksútköll eins og í kjarasamningi FÍN beri að hafna alfarið enda kveði kjarasamningur MTÍ á um annað. MTÍ hafi staðið til boða sama breyting á kjarasamningi sínum sem mörg önnur stéttarfélög háskólamanna hafi samþykkt árið 2001 varðandi vinnutíma, þar á meðal álag á vöktum og lágmarksútköll. Því hafi félagið hins vegar hafnað, „væntanlega til að halda öðrum samningsákvæðum sem það hafi líklega talið verðmætari fyrir félagsmenn sína“.

Þá bendir LSH á ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 96/2000 um fresti, en kærandi haldi því fram að LSH hafi brotið á sér allt frá ráðningu 1997. Í því sambandi segir í athugasemdum LSH: „Munur milli kjarasamninga/stofnanasamninga mismunandi stéttarfélaga hefur verið til staðar í einni eða annarri mynd allan ráðningartímann. Kæranda var þessi munur að fullu ljós þegar við ráðningu. Með vísan til ákvæðis 2. mgr. 5. gr. er erindið því of seint fram komið.“ Er þetta ítrekað í síðari bréfum LSH til nefndarinnar.

Í bréfi LSH til kærunefndar, dags. 19. maí 2005, er áréttað að sambærileiki umræddra starfa sé óumdeildur í málinu. Þá segir að það sé rétt hjá kæranda að grunnlaunasetning samkvæmt tilvitnuðum stofnanasamningum, annars vegar í starfi kæranda og hins vegar í starfi náttúrufræðingsins sem hún beri sig saman við, sé með mismunandi hætti. Stafi mismunurinn beinlínis af mismunandi áherslum stéttarfélaga og fulltrúa viðkomandi starfsmanna í samstarfsnefndum sem séu sá vettvangur þar sem stofnanasamningar séu gerðir og samið sé um röðunarreglur starfa.

Enn fremur er bent á af hálfu Landspítala – háskólasjúkrahúss að laun í launaflokki [Z], 5. þrepi, samkvæmt nýjum kjarasamningi MTÍ sem kærandi mun nú taka laun samkvæmt, séu nú [S] kr. hærri en laun í launaflokki [Z], 5. þrepi, samkvæmt nýjum kjarasamningi FÍN sem samanburðurinn nái til. Launamunur nú sé því rúmlega 2,8%, meinatæknum í hag.

Kröfum kæranda um afturvirka leiðréttingu launa, er fram komu í bréfi, dags. 7. mars sl., sé hafnað af hálfu LSH þar sem LSH telji ekki hallað á kæranda í þeim efnum. Kröfum kæranda um 0,8% launahækkun er einnig hafnað af hálfu LSH með vísan til þess að engar forsendur séu fyrir slíkri leiðréttingu á meðan „[...] önnur atriði kjara- og stofnanasamninga viðkomandi stéttarfélaga eru ekki eins“ svo og með vísan til „sjálfstæðs samningsréttar stéttarfélaga“ og þess að „meinatæknar annars vegar og náttúrufræðingar hins vegar, eru að meginstefnu til að sinna ólíkum störfum á LSH“. Þá bendir LSH einnig á það að með breytingu á kjarasamningi MTÍ á árinu sé launatafla MTÍ nú hærri en launatafla FÍN og kærandi sé nú með hærri laun en sá aðili sem taki laun sín samkvæmt kjarasamningi FÍN og er í sama launaflokki. Öðrum kröfum kæranda um lágmarksútköll, eiturefnaálag og viðbótarnám er einnig hafnað af hálfu LSH með vísun til stofnanasamnings MTÍ og LSH.

Þá segir í athugasemdum LSH að sú viðleitni kæranda, að skilgreina FÍN sem karlastéttarfélag, verði að teljast langsótt þar sem á LSH séu 72 náttúrufræðingar, þar af 55 konur. Er þetta ítrekað í bréfi til nefndarinnar, dags. 19. júlí 2005.

Í lokaathugasemdum LSH til nefndarinnar, dags. 19. júlí 2005, eru ýmis atriði áréttuð. Þannig er bent á að almennt séu störf meinatækna og náttúrufræðinga á LSH ólík, og líklega sé það aðeins í umræddu tilviki sem störfin skarist með þessum hætti. Þá segir: „Bakgrunnur fagstéttanna tveggja er ólíkur, menntun, vinnutími og verkefni. Þar af leiðandi eru jafnframt samningslegir hagsmunir og áhersluatriði við gerð stofnanasamninga með mismunandi hætti. Þegar svo háttar til segir það sig sjálft að kjarasamningar og stofnanasamningar þróast með ólíkum hætti. Á sama hátt og gert er í bréfum kæranda má velta fyrir sér hvort taka skuli til skoðunar alla þá 25-30 stofnanasamninga sem gerðir hafa verið við stéttarfélög á stofnuninni og greina þá með tilliti til samanburðar á einstökum þáttum, meta kosti og galla og hvar hallar á hvern og einn starfsmann. Slíkt er einfaldlega ekki mögulegt.“ Einnig er bent á af hálfu LSH: „Þegar starfsmenn í sömu eða alveg sambærilegum störfum tilheyra mismunandi stéttarfélögum verður ekki með nokkru móti unnt að fallast á það sjónarmið kæranda að vinnuveitandi skuli bera saman hvern einstakan kjaraþátt viðkomandi kjarasamninga og velja það besta í hverju tilviki gagnvart viðkomandi starfsmanni.“ Þá segir að LSH hafi eftir því sem unnt væri, markvisst stefnt að sambærilegum kjörum í sambærilegum störfum, þrátt fyrir mismunandi stéttarfélagsaðild.

Einnig telur LSH að samanburð kæranda á stofnanasamningum MTÍ og FÍN verði að skoða í ljósi mismunandi áherslna félaganna og að samningum þeirra sé að meginstefnu til ætlað að ná til ólíkra starfa. Sem dæmi er tekið að meinatæknar vinni meira utan hefðbundins dagvinnutíma en náttúrufræðingar og því séu heildartekjur þeirra 20% hærri en náttúrufræðinga. Þetta gefur til kynna, að mati LSH, mismunandi kjaralega hagsmuni sem forsvarsmenn starfsmanna horfi til við gerð kjara- og stofnanasamninga.

Staðhæfingu kæranda um launamisrétti er þannig alfarið vísað á bug af hálfu LSH, með vísan til fyrrgreindra röksemda varðandi þróun stofnanasamninga þessara tveggja stéttarfélaga, sem ekki er fallist á að séu skilgreind sem karlastéttarfélag annars vegar og kvennastéttarfélag hins vegar.

Til áréttingar er rakið hvernig launatöflur MTÍ og FÍN í B-ramma koma út, annars vegar fyrir kjarasamninga 2005 og hins vegar eftir kjarasamninga 2005. Kemur þar fram að launamunur hafi áður verið 0,8% FÍN í vil en nú sé munurinn 2,8%, meinatæknum í vil. Þá segir í bréfi LSH, dags. 19. júlí sl.: „Jafnframt skal enn og aftur á það bent að þrátt fyrir að kjarasamningar og stofnanasamningar þessara tveggja kjarahópa, þ.e. meinatækna annars vegar og náttúrufræðinga hins vegar, séu í aðalatriðum gerðir fyrir ólík störf, hefur þeim tiltölulega fáu störfum innan LSH, sem eru samskonar eða alveg sambærileg milli þessara félaga, verið raðað með eins líkum hætti og frekast hafi verið kostur.“

 

V

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 14. gr. laganna skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og skulu þau viðmið sem liggja til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Í athugasemdum Landspítala – háskólasjúkrahúss til nefndarinnar er til þess vísað, að erindi kæranda sé of seint fram komið hjá kærunefnd jafnréttismála, sbr. ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 96/2000.

Í gögnum málsins kemur fram að árið 2002 hafi kærandi fyrst farið þess almennt á leit við kærða að hún fengi leiðréttingu á röðun í launaflokka, auk þess sem hún fór þá fram á að fá að afsala sér föstum yfirvinnutímum gegn því að hækka um launaflokka. Það var hins vegar ekki fyrr en í nóvember 2004 sem kærandi gerði athugasemdir við launaflokkaröðun náttúrufræðinga í sambærilegum störfum og að um kynjabundinn launamun væri að ræða. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 96/2000 skulu erindi berast nefndinni skriflega innan eins árs frá því að ætlað brot á lögum þessum lá fyrir eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Lítur kærunefndin því svo á, eins og mál þetta er vaxið, að erindi kæranda hafi ekki borist of seint til nefndarinnar.

Kærandi starfar sem meinatæknir (lífeindafræðingur) í Blóðbankanum og telur að sér hafi verið mismunað með óheimilum hætti á grundvelli kynferðis síns, þar sem karlkyns líffræðingar sem stundað hafi sambærileg og jafnverðmæt störf og kærandi hafi verið raðað í hærri launaflokk en hún og hafi í öðru tilliti haft betri kjör. Kærandi telur að um hafi verið að ræða mismunun, sem farið hafi í bága við lög nr. 96/2000, og sem verði ekki réttlætt með þeim kjara- og stofnanasamningum sem gerðir hafi verið milli Landspítala – háskólasjúkrahúss og Meinatæknafélags Íslands annars vegar og Félags íslenskra náttúrufræðinga hins vegar.  

Í máli þessu er deilt um fjölmörg atriði er varða ofangreinda kjara- og stofnanasamninga. Af gögnum málsins má ráða að kæranda hafi verið grunnraðað einum launaflokki lægra en karlkyns líffræðingi, sem nefndur hefur verið til samanburðar, en endanleg röðun þeirra í launaflokka hafi verið sú sama. Launamunur hafi verið 0,8% fyrir kjarasamninga árið 2005, náttúrufræðingum í vil.

Af hálfu Landspítala – háskólasjúkrahúss hefur sjónarmiðum kæranda verið mótmælt. Af gögnum málsins má þó ráða að af hálfu Landspítala – háskólasjúkrahúss sé fallist á að um sambærileg störf sé að ræða. Þá hefur einnig verið fallist á af hálfu kærða, að grunnlaunasetning kæranda og þess náttúrufræðings sem hún miðar sig við, á þeim tíma sem kæra þessi tekur til, hafi verið með mismunandi hætti en það hafi einungis verið að rekja til mismunandi kjara- og stofnanasamninga sem viðeigandi stéttarfélög hafa gert við kærða.

Um sambærileika starfanna segir í bréfi Landspítala – háskólasjúkrahúss, dags. 18. febrúar sl.: „[...] að náttúrufræðingar og meinatæknar vinna náið saman og geta gengið í störf hvors annars að uppfylltum skilyrðum um þekkingu og reynslu í starfinu án tillits til menntunarinnar sem slíkrar [...].“ Þá segir einnig í bréfi Landspítala – háskólasjúkrahúss dags. 19. maí sl.: „[...] skal það áréttað að sambærileiki starfanna er óumdeildur í málinu.“

Um þann launamun, sem er á fyrrgreindum störfum kæranda og þess náttúrufræðings sem hún ber sig saman við, segir Landspítali – háskólasjúkrahús í bréfi sínu til nefndarinnar, dags. 19. júlí sl.: „Þegar starfsmenn í sömu eða alveg sambærilegum störfum tilheyra mismunandi stéttarfélögum verður ekki með nokkru móti unnt að fallast á það sjónarmið kæranda að vinnuveitandi skuli bera saman hvern einstakan kjaraþátt viðkomandi kjarasamninga og velja það besta í hverju tilviki gagnvart viðkomandi starfsmanni.“

Kærði hefur þannig vísað til þess að ástæða fyrrgreinds launamunar sé mismunandi kjara- og stofnanasamningar stéttarfélaga kæranda og þess náttúrufræðings sem hún ber sig saman við.

Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 skulu konur og karlar njóta jafns réttar í hvívetna. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 96/2000 skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Um þetta má einnig vísa til 69. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 og 1. gr. tilskipunar nr. 75/117/EBE.

Eins og staðfest hefur verið í dómum Hæstaréttar í málum nr. 255/1996, 11/2000 og síðar 258/2004 geta mismunandi kjarasamningar ekki einir og sér réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla í skilningi jafnréttislaga.

Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 11/2000 sagði m.a.: „Þegar allt er virt verður að telja, að [R] hafi leitt verulegar líkur að því, að störf jafnréttis- og fræðslufulltrúa annars vegar og atvinnumálafulltrúa hins vegar hafi verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði, að [R] hafi verið mismunað í kjörum hjá áfrýjanda. [...] Eins og mál þetta liggur fyrir dómstólum verður ekki talið, að [A] hafi tekist að sanna, að hlutlægar og málefnalegar ástæður hafi í hvívetna ráðið kjaramuninum, en mismunandi kjarasamningar geta ekki einir sér réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla.“  

Telur kærunefnd jafnréttismála að engu skipti í þessu sambandi hvort um er að ræða almenna kjarasamninga á vinnumarkaði eða stofnanasamninga stéttarfélaga við einstakar stofnanir, slíkir samningar verða ekki taldir geta réttlætt mismun á kjörum kvenna og karla fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf.  

Með vísan til framkominna athugasemda Landspítala – háskólasjúkrahúss verður ekki séð, að aðrar skýringar sem fram hafa komið í málinu varðandi umræddan kjaramun, réttlæti eða teljist sanna að hlutlægar og málefnalegar ástæður hafi ráðið þeim mun sem var á kjörum kæranda og karlkyns náttúrufræðinga sem sinntu sömu störfum, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að mismunur á launum kæranda og karlkyns náttúrufræðinga í sambærilegum störfum hjá Blóðbanka, Landspítala – háskólasjúkrahúsi hafi ekki verið réttlættur og teljist því fela í sér mismunun í skilningi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 96/2000. Sá munur, sem var á launum og öðrum starfskjörum kæranda og karlmanna sem störfuðu hjá Blóðbanka, Landspítala – háskólasjúkrahúsi og ráðnir voru á grundvelli kjarasamnings FÍN frá 1. maí 2001 og fram að gildistöku nýrra kjarasamninga árið 2005, braut gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til Landspítala – háskólasjúkrahúss að fundin verði viðunandi lausn á málinu, í samræmi við framangreint álit.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum