Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2004 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 8/2004

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 8/2004:

A

gegn

kvennasviði Landspítala háskólasjúkrahúss

 

--------------------------------------------------------------

           

Á fundi kærunefndar jafnréttismála 10. ágúst 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru A sem barst 16. mars 2004, óskaði kærandi eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort kvennasvið Landspítala háskólasjúkrahúss hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með ráðningum sérhæfðra aðstoðarmanna ljósmóður á kvennadeildina. 

Kæran var kynnt kvennasviði Landspítala háskólasjúkrahúss með bréfi dags. 22. mars 2004. Var þar, með vísan til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000, óskað eftir upplýsingum um fjölda og kyn umsækjenda um störf sérhæfðra aðstoðarmanna ljósmóður, hverjir hafi verið ráðnir í störfin og hvaða hlutverki sérhæfðum aðstoðarmönnum ljósmóður væri ætlað á deildinni. Loks var óskað eftir afstöðu kvennasviðs Landspítala háskólasjúkrahúss til erindis kæranda og kvennasviðinu gefinn kostur á að koma því á framfæri sem það teldi til upplýsinga í tilefni af kvörtun kæranda. 

Bréf kvennasviðsins, dags. 30. mars 2004, var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 31. mars 2004, og kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Nefndinni bárust athugasemdir kæranda með bréfi B hrl., dags. 14. apríl 2004. Bréfið var sent kvennasviðinu með bréfi kærunefndar, dags. 3. maí 2004. Svar kvennasviðsins barst með bréfi, dags. 21. maí 2004. Það bréf var sent kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. maí 2004. 

Fulltrúum málsaðila var gefinn kostur á að koma á fund kærunefndar í dag, 10. ágúst 2004.

  

II

Málavextir

Kærandi starfaði við ræstingar og í býtibúri á deild 23-A, fæðingargangi kvennasviðs Landspítala háskólasjúkrahúss, þar til starfið var lagt niður vegna skipulagsbreytinga, hinn 1. mars 2004. Alls störfuðu fimm manns við slík störf, kærandi og fjórar konur. Við breytingarnar urðu til fimm nýjar stöður, þar sem starfssviði, ábyrgðarsviði, verkaskiptingu og verkefnum var breytt frá því sem áður var. Meðal gagna málsins er starfslýsing sérhæfðra aðstoðarmanna ljósmóður. Þar kemur m.a. fram að starfsmönnunum sé ætlað að vera ljósmæðrum á fæðingargangi til aðstoðar um þætti er lúti að umönnun og umgengni við skjólstæðinga deildarinnar og að fullnægja hreinlætis- og hollustukröfum Landspítalans, minnka viðhaldskostnað og vernda húsnæði, tæki og verkfæri. Varðandi hlutverk aðstoðarmannanna í sjálfri fæðingunni er gert ráð fyrir að þeir séu til taks til að aðstoða ljósmæður á ýmsan hátt eftir því sem þörf er á í og eftir fæðingar. Þannig sé það m.a. hlutverk þeirra að setja á fæðingarrúm stoðir, aðstoða konur að fara upp í kvenskoðunarstellingu í og eftir fæðingu, vera ljósmæðrum innan handar með aðföng við deyfingu og saumaskap eftir fæðingu og hagræða barni við brjóst móður. Auk þess er hlutverk aðstoðarmanna að sjá um birgðir, tæki og tól deildar og að umhverfi deildarinnar sé hreint og snyrtilegt.

Í bréfi Landspítala til kæranda, dags. 24. nóvember 2003, var honum tilkynnt að starf hans yrði lagt niður vegna skipulagsbreytinga. Ný störf myndu skapast við það og yrðu þau auglýst á venjulegan hátt. Nýju stöðurnar fimm voru ekki auglýstar en kærandi hafði áhuga á starfinu og var tekinn í viðtal vegna þess 15. janúar 2004. Kæranda og kvennasviði greinir á um tilgang viðtalsins. Kærandi lítur svo á að um hafi verið að ræða formlegt atvinnuviðtal en forsvarsmenn kvennasviðs telja að viðtalið hafi m.a. haft þann tilgang að upplýsa starfsmenn um hinar áformuðu breytingar og á hvern hátt fyrirhugað væri að breyta viðkomandi störfum á deildinni þannig að annars vegar yrðu til hin nýju störf og hins vegar störf við ræstingu.

Kærandi fékk bréf frá kvennasviði Landspítala háskólasjúkrahúss, dags. 10. febrúar 2004, þar sem honum var tilkynnt að hann fengi ekki starf sem sérhæfður aðstoðarmaður ljósmæðra, á þeim grundvelli að hann væri karlmaður, en ástæða þess var tilgreind sú m.a. að sýnt væri að konur og aðstandendur þeirra frábiðji sér oft að hafa karlmenn viðstadda fæðingu, en með þessu væri verið að koma til móts við vilja skjólstæðinga deildarinnar.

   

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að kvennasvið Landspítala háskólasjúkrahúss hafi brotið gegn IV. kafla laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar honum var neitað um starf vegna kynferðis síns.

Kærandi var einn umsækjenda um störf sérhæfðra aðstoðarmanna ljósmæðra. Sex hafi sótt um umrædd störf, hann og fimm konur, þar af fjórar sem hafi verið samstarfskonur kæranda á fæðingargangi og hafi sinnt sömu störfum og hann. Þar hafi hann starfað í sex ár. Kærandi kveðst hafa farið í starfsviðtal 15. janúar 2004. Hinn 5. febrúar 2004 hafi D, sviðsstjóri kvennasviðsins, tilkynnt sér símleiðis að hann væri að öllu leyti hæfur til að sinna starfinu nema að því leyti að hann væri karlmaður, sbr. einnig bréf, dags. 10. febrúar 2004. Honum hafi jafnframt, í símtalinu, verið boðið starf við dagræstingar á göngum fæðingargangs og enn fremur að sitja námskeið sem ætlað væri þeim sem voru ráðnir í nýju störfin. Þetta hafi kærandi afþakkað, þar sem laun fyrir dagvinnu hafi ekki verið sambærileg við það sem hann hafði fengið fyrir fyrra starf sitt og hann hafi ekki séð tilgang með því að sitja námskeið, sem ekki myndi nýtast honum í starfi.

Af hálfu kæranda er bent á að í starfslýsingu umrædds starfs sé ekki tekið fram að starfið henti eingöngu konum. Kærandi telur það ámælisvert af hálfu kvennasviðs Landspítala háskólasjúkrahúss að hafa ekki þegar í upphafi látið þess getið að ekki ætti að ráða karlmenn í umrædd störf, en þess í stað látið að því liggja að allir ættu jafna möguleika. Hann gerir einnig athugasemd við að hafa verið kallaður í starfsviðtal vegna starfs þessa þegar svo stóð á sem að framan greinir.

Kærandi telur kynferði sitt hafa ráðið úrslitum í máli þessu. Hann telur að hvorki 3. ml. 2. mgr. 22. gr. né 3. ml. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 eigi við í máli þessu. Kvennasviðið sé hluti af sjúkrastofnun og geti sjúklingur ekki valið af hvaða kyni þeir starfsmenn eru sem sinni honum. Sem dæmi megi nefna að karlmaður, sem þurfi þvaglegg, sé ekki spurður hvort hann vilji umönnun karls eða konu.

    

IV

Sjónarmið kvennasviðs Landspítala háskólasjúkrahúss

Fram kemur af hálfu kvennasviðs Landspítala háskólasjúkrahúss að fimm starfsmenn sinni hinum nýju störfum sérhæfðra aðstoðarmanna ljósmæðra og séu það allt konur. Umræddir starfsmenn hafi áður verið við almenn störf á kvennasviði. Kvennasviðið telur að sú fullyrðing kæranda að hann hafi verið „einn af umsækjendum“ og að hann hafi verið boðaður til „starfsviðtals“ sé á vissan hátt villandi. Störfin hafi ekki verið auglýst sérstaklega, heldur hafi verið um að ræða breytingu á störfum sem voru til staðar, á grundvelli 19. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.

Fram kemur af hálfu kvennasviðs Landspítalans að ákveðið hafi verið að ráða aðeins konur í hin nýju störf sérhæfðra aðstoðarmanna ljósmæðra. Eftir viðtöl við ljósmæður og stjórnendur deildarinnar hafi verið sýnt að konur frábiðji sér gjarnan að hafa karlmenn viðstadda fæðingu og sé þannig nokkuð algengt að karlkyns læknanemum sé vísað frá. Það sé ljóst að þetta nýja starf krefjist þess oft að starfsmaðurinn sé viðstaddur og/eða aðstoði rétt eftir fæðingu. Að öðru leyti vísar kvennasviðið til almennra aðstæðna við barnsfæðingar og mats á hagsmunum skjólstæðinga sinna.

Varðandi hlutverk sérhæfðra aðstoðarmanna ljósmæðra í fæðingum vísar kvennasvið Landspítala háskólasjúkrahúss til starfslýsingar þar sem fram kemur að gert sé ráð fyrir að viðkomandi starfsmenn séu til taks til að aðstoða ljósmæður á ýmsan hátt eftir því sem þörf sé á í og eftir fæðingar. Meðal annars sé það hlutverk þeirra að setja stoðir á fæðingarrúm, aðstoða konur að fara upp í kvenskoðunarstellingu í og eftir fæðingu, vera ljósmæðrum innan handar með aðföng við deyfingu og saumaskap eftir fæðingu, hagræða barni við brjóst móður og gefa skjólstæðingum að borða fyrir, í og eftir fæðingu. Enn fremur að sjá um birgðir, tæki og tól deildarinnar og að umhverfi hennar sé hreint og snyrtilegt. Óhjákvæmilega verði starfsmennirnir því sýnilegir fyrir skjólstæðinga deildarinnar og aðstandendur þeirra í tengslum við fæðingu.

Vísað er til 3. ml. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem fram komi að það teljist ekki ganga gegn lögunum ef nauðsynlegt þyki að ráða annað kynið vegna hlutlægra þátta er tengjast starfinu. Sams konar fyrirvari sé settur í 3. ml. 2. mgr. 24. gr. laganna varðandi auglýsingar. Þegar um sé að ræða starf af því tagi sem hér um ræðir, þ.e. í nánum tengslum við fæðingu barna og návígi við sængurkonur við þær viðkvæmu aðstæður sem fæðing barns er, sé það eindregin afstaða viðkomandi stjórnenda á Landspítala háskólasjúkrahúsi að tilvitnuð lagaákvæði heimili mismunun með tilliti til kynferðis þannig að aðeins séu ráðnar konur í þau störf sem um sé að ræða.

   

V

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort það, að hann fékk ekki starf sérhæfðs aðstoðarmanns ljósmæðra á kvennasviði Landspítala háskólasjúkrahúsi vegna kynferðis síns, hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Fallast má á það með kæranda að ekki hafi komið skýrt fram við undirbúning umræddra breytinga á kvennasviði Landspítalans að hinar nýju stöður myndu eingöngu henta kvenkyns starfsmönnum. Þannig kemur ekki fram í starfslýsingu sérhæfðs aðstoðarmanns, sem útbúin var í tilefni af framangreindri breytingu, að karlmenn gætu ekki sinnt umræddu starfi. Engu að síður verður að telja að málefnaleg rök kunni að vera fyrir því að ráða ekki karlmenn til umræddra starfa, sbr. hér á eftir.

Þá er og rétt að taka fram að af hálfu kærunefndar jafnréttismála verður í máli þessu ekki tekin afstaða til þess hvort fyrirkomulag á þeirri breytingu sem gerð var á störfum aðstoðarmanna á kvennasviði Landspítalans hafi fallið að þeirri heimild sem kveðið er á um í 19. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.

Af hálfu kvennasviðs Landspítala hefur verið á því byggt að sérhæfður aðstoðarmaður ljósmæðra hafi það hlutverk m.a. að aðstoða við umönnun kvenna fyrir, í og eftir fæðingu. Sérhæfður aðstoðarmaður ljósmæðra starfi undir stjórn ljósmæðra á deildinni, sem í öllum tilfellum eru kvenkyns. Viðkomandi aðstoði ljósmæður þannig við viðkvæmar aðstæður í sjálfri fæðingunni. Þá hefur verið á því byggt af hálfu kvennasviðs að iðulega komi það fyrir að fæðandi konur og eftir atvikum aðstandendur þeirra óski ekki eftir nærveru starfsmanna af hinu kyninu. Telur kvennasviðið rétt að verða við slíkum óskum komi þær fram. Með vísan til þessa og eindreginna tilmæla ljósmæðra sem starfa á kvennasviði Landspítalans hafi því verið ákveðið að ráða kæranda ekki til umrædds starfs og jafnframt að eingöngu konur yrðu ráðnar í tilvísað starf sérhæfðs aðstoðarmanns ljósmæðra.

Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 in fine telst það ekki fela í sér mismunun á grundvelli kynferðis að eingöngu annað kynið sé ráðið til tiltekins starfs vegna hlutlægra þátta er tengjast starfinu. Að áliti kærunefndar jafnréttismála þykja hafa komið fram fullnægjandi rök fyrir því af hálfu kvennasviðs Landspítalans að vegna tillits til sængurkvenna og skipulags á starfsemi deildarinnar sem af því leiðir sé nauðsynlegt að manna umræddar stöður með þeim hætti að þeim gegni konur en ekki karlar. Kærunefnd jafnréttismála telur rétt að taka fram að á nokkrum sviðum þjóðfélagsins þykir réttlætanlegt að viðurkenna kynbundnar stöður og eru dæmi þess nefnd í greinargerð með frumvarpi til jafnréttislaga. Telur kærunefnd, að með vísan til sérstöðu sængurkvenna innan sjúkrahúsa og aðstæðna mæðra fyrir, í og eftir fæðingu, þyki mega fella umrædd störf undir tilvísað undanþáguákvæði, eins og hér stendur á.

 Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að kvennasvið Landspítala háskólasjúkrahúss hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í störf sérhæfðra aðstoðarmanna ljósmæðra í umræddu tilviki.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum