Hoppa yfir valmynd
13. júní 2003 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 10/2002

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 10/2002:

 

A

gegn

D

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 13. júní 2003 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur 

Með kæru, dags. 11. desember 2002 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort meint kynferðisleg áreitni og óréttlæti í starfi í framhaldi af því, sem kærandi lýsir í framangreindu bréfi sínu, hafi falið í sér brot gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt D með bréfi dags. 23. desember 2002. Óskað var eftir afstöðu fyrirtækisins til framangreinds kæruefnis og barst kærunefnd af því tilefni bréf B hrl. f.h. D, dags. 23. janúar 2003.

Með bréfi, dags. 4. febrúar 2003, var kæranda kynnt umsögn D og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Sú umsögn var veitt með bréfi dags. 25. febrúar 2003, sem barst kærunefnd jafnréttismála.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2003 var óskað eftir athugasemdum frá D. Þær athugasemdir bárust með bréfi dags. 13. mars 2003. Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir því með bréfi dags. 14. apríl 2003 að D gerði nánari grein fyrir því hvers vegna kærandi hefði ekki fengið launahækkun eins og aðrir starfsmenn í sambærilegum störfum hjá fyrirtækinu. Svör við því bréfi bárust með bréfi dags. 25. apríl 2003.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina. 

 

II

Málavextir

Kærandi hóf störf hjá D hinn 27. september 2000. Hún kveðst hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi af hálfu starfsmanns hjá fyrirtækinu, sem hafi hafist ári eftir að hún hóf þar störf. Hún greindi framkvæmdastjóra D frá þessum atvikum þann 4. október 2001. Í framhaldi af því sá framkvæmdastjóri fyrirtækisins ástæðu til að kalla tiltekinn starfsmann á sinn fund vegna málsins. Á meðan kærandi var í sumarfríi frá 28. júní 2002 fékk annar starfsmaður X króna launahækkun, en kærandi taldi sig eiga rétt á sambærilegri hækkun. Kærandi óskaði eftir launahækkun þegar hún kom til baka úr fríi en var synjað. Kærandi sagði upp störfum miðað við 1. ágúst 2002 og hætti störfum hjá D hinn 17. september 2002. Hún óskaði á því tímabili eftir því að fá að afturkalla uppsögn sína en var synjað um það af hálfu atvinnurekanda.

 

III

Sjónarmið kæranda

Í bréfi kæranda, dags. 9. desember 2002 kemur fram að hún telji að lög nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi verið brotin þar sem hún hafi orðið fyrir grófu kynferðislegu áreiti á vinnustað og að ekki hafi verið gripið til réttra aðgerða vegna þess. Í fyrirtækinu sé ekki sérstök áætlun eða sérstaklega kveðið á um hvernig taka skuli á kynferðislegri áreitni. Hún telur sig einnig hafa orðið fyrir óréttlæti í starfi eftir að hafa komið athugasemdum á framfæri vegna áreitisins.

Kærandi greinir frá því að hún hafi hafið störf hjá D 27. september 2000 og hafi verið í fullu starfi. Ári síðar hafi starfsmaður farið að leita á hana kynferðislega. Hún kveðst hafa greint framkvæmdastjóra D frá atvikunum þann 4. október 2001. Í framhaldi af því hafi framkvæmdastjórinn greint starfsmanninum frá málinu. Kærandi kveðst hafa þurft að taka sér frí eftir páska 2002 vegna vanlíðanar sem hafi verið afleiðing af framangreindum atburðum. Jafnframt greinir hún frá því að hún hafi byrjað að vinna aftur 13. maí 2002. Hafi hún þá verið flutt í aðra deild en á þeim tíma hafi verið búið að ráða umræddan starfmann til sömu deild. 

Kærandi kveðst hafa farið í sumarfrí 28. júní 2002. Meðan á því stóð hafi annar starfsmaður sem kærandi ber sig saman við, fengið X króna launahækkun. Þegar hún hafi komið til starfa aftur hafi hún óskað eftir sambærilegri launahækkun en verið synjað. Sú skýring hafi verið gefin að umræddur starfsmaður hafi haft á herðum sínum meiri ábyrgð en kærandi, og hafi það hafi ráðið launahækkuninni. Síðan greinir kærandi frá því að viðkomandi starfsmaður hafi sagt sér að hún hafi verið búin að fá launahækkunina áður en henni hafi verið falið hin aukna ábyrgð.

Kærandi sagði upp starfi sínu og tók uppsögnin gildi 1. ágúst 2002. Hún kveðst hafa óskað eftir því síðar að fá að afturkalla uppsögnina en verið synjað um það af hálfu atvinnurekanda.

Kærandi telur að ákvæði 2. mgr. 13. gr., 17. gr., svo og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 96/2000, hafi verið brotin.

 

IV

Sjónarmið kærða

Í bréfi lögmanns D, dags. 23. janúar 2003, var vísað til þess að vandséð sé hvers vegna kæran sé send til D til umsagnar þar sem starfsmaðurinn sem vændur hafi verið um kynferðislega áreitni hafi ekki verið starfsmaður fyrirtækisins, heldur verið starfsmaður Hörpu Sjafnar hf. Greint er frá því að framkvæmdastjóri D hafi jafnframt stjórnarformaður Hörpu Sjafnar hf. Jafnframt var greint frá því að kærandi hafi ekki tilkynnt um að starfsmaðurinn hafi áreitt hana fyrir en 4. október 2001 og því sé frestur til að kæra liðinn sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 96/2000.

Í framangreindu bréfi er tekið fram að starfsmanninum hafi verið sagt upp störfum hjá Hörpu Sjöfn hf. frá og með 1. janúar 2002 vegna skipulagsbreytinga. Í framhaldi af því hafi honum verið var boðið starf hjá D.

Fram kemur í tilvísuðu bréfi að kærandi hafi ekki tjáð yfirmönnum sínum frá því að vanlíðan hennar og veikindi hafi stafað af því að hún hefði sætt kynferðislegri áreitni. Skýringar sem gefnar hafi verið á veikindum kæranda á árinu 2002 hafi verið þær, að hún hafi ekki að fullu náð sér eftir fæðingarþunglyndi.

Í bréfi lögmanns D dags. 13. mars 2003 kom fram að deila mætti um það hvenær ráðstafanir vegna kynferðislegs áreitis teljist fullnægjandi, en að framkvæmdastjóri fyrirtækisins hafi rætt við starfmanninn um atvikið og gert honum grein fyrir því að ef þetta endurtæki sig myndi honum vera sagt upp störfum. Einnig hafi verið lögð áhersla á það að starfmaðurinn kæmi ekki nálægt kæranda. Greint var frá því að eftir að starfsmaðurinn hafi tekið við öðru starfi D hafi engar athugasemdir borist frá kæranda. 

Í bréfi lögmanns D dags. 25. apríl 2003 kemur fram að kærandi hafi ekki fengið umrædda launahækkun þar sem hún hafi verið mikið fjarverandi vegna veikinda, auk þess hafi ábyrgð starfsmanns þess sem launahækkun fékk verið meiri en kæranda og sá starfsmaður jafnframt metinn mun betri starfsmaður en kærandi. Einnig var greint frá því að laun þeirra sem unnu í sömu deild og kærandi hafi verið hækkuð í byrjun september 2002. Ástæða þess að kærandi hafi ekki fengið þá launahækkun sé sú að hún hafi verið á uppsagnarfresti og því ekki talin ástæða til að hækka við hana launin.

 

V

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. 

Samkvæmt 17. gr. laganna skulu atvinnurekendur gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað. Með kynferðislegri áreitni er m.a. átt við kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður. Eitt atvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt. 

Í 25. gr. laganna er kveðið á um að atvinnurekandi skuli gæta þess að starfsmaður verði ekki beittur óréttlæti í starfi, svo sem með tilliti til starfsöryggis og starfskjara, eða mats á árangri, á grundvelli þess að hafa kært kynferðislega áreitni. Í 3. mgr. 25. gr. laganna er tekið fram að ef leiddar eru líkur að því að gengið hafi verið gegn 25. gr. skuli atvinnurekandi sýna fram á að meint óréttlæti grundvallist ekki á leiðréttingarkröfu starfsmanns eða kæru um kynferðislega áreitni. Í niðurlagi ákvæðisins segir að sönnunarregla þessi gildi ekki ef ráðstafanir atvinnurekanda eigi sér stað meira en ári eftir að starfsmaður hefur sett fram leiðréttingarkröfu sína.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 96/2000 skulu fyrirtæki, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn, setja sér jafnréttisáætlun. Þar skal m.a. kveðið á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í 14.-17. gr. laganna, þar með talið vegna kynferðislegrar áreitni. D hefur upplýst að ekki hafi legið fyrir jafnréttisáætlun hjá fyrirtækinu en bendir á að þar hafi starfað færri starfsmenn en kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt þessu var D ekki skylt að setja sér slíka áætlun.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 96/2000 skulu erindi berast kærunefnd jafnréttismála innan árs frá því að ætlað brot á lögum þessum lá fyrir eða frá því að kærandi fékk vitneskju um ætlað brot. Af hálfu kæranda er m.a. kvartað undan meintu óréttlæti við ákvörðun launahækkana sumarið 2002. Telst kæran því hafa borist nefndinni innan lögskyldra tímamarka.

Upphaf máls þessa er að rekja til meintrar kynferðislegrar áreitni á vinnustað m.a. vegna tiltekins atviks hinn 4. október 2001. Fyrir liggur í máli þessu að í kjölfar kvörtunar kæranda til yfirmanns var umræddur starfsmaður, sem sakaður hafði verið um kynferðislega áreitni gagnvart kæranda, áminntur. Fullyrt er af hálfu forsvarsmanns D að athygli starfsmannsins hafi verið vakin á því að ítrekun á slíkri háttsemi myndi varða brottrekstri úr starfi. Upplýst er að vegna skipulagsbreytinga lét umræddur starfsmaður fljótlega af starfi því sem hann áður gegndi. Það er álit nefndarinnar að forsvarsmaður D hafi eftir atvikum brugðist við kvörtun kæranda vegna kynferðislegrar áreitni með þeim hætti sem lög nr. 96/2000 áskilja.

Fyrir liggur að á árinu 2002 hafi umræddur starfsmaður á ný hafið störf á sama vinnustað og kærandi og munu þau hafa haft nokkur samskipti. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi þá orðið fyrir áreitni á ný sem teljist falla undir kynferðislega áreitni í skilningi laga nr. 96/2000.

Upplýst er að kærandi og annar tiltekinn starfsmaður fengu báðar launahækkun í mars 2002. Jafnframt er upplýst að síðarnefndur starfsmaður, sem þá starfaði í annarri deild, fékk X króna launahækkun á mánuði í júlí 2002, en þá var kærandi í orlofi. Af hálfu kæranda var gerð athugasemd við það að hún hefði ekki hlotið sömu launahækkun. Eins og atvikum máls þessa er háttað og með vísan til þess að sú sem launahækkun fékk starfaði í annarri deild, telur nefndin ekki fullsýnt að umrædd launahækkun til annars starfsmanns hafi falið í sér mismunun sem rekja mætti til kvörtunar kæranda vegna kynferðislegrar áreitni, enda var þá nokkuð um liðið frá því að kvörtunin var sett fram, auk þess sem kærandi hafði í marsmánuði hlotið nokkra launahækkun.

Kærandi sagði upp störfum miðað við 1. ágúst 2002. Eftir að kærandi sagði upp störfum munu tilteknir starfsmenn þeirrar deildar sem kærandi starfaði hjá hafa samið við atvinnurekanda um launahækkun. Óskaði kærandi þá eftir sambærilegri launahækkun og óskaði jafnframt eftir því að fá að draga uppsögn sína til baka, en var synjað. Af hálfu atvinnurekanda var umrædd synjun á launahækkun m.a. rökstudd með því að kærandi hefði sagt upp störfum og að ekki hefði komið til álita að hækka laun kæranda á uppsagnarfrestinum. 

Að framansögðu verður ráðið að kærandi sagði sjálf upp störfum hjá D. Var uppsögnina að hennar sögn að rekja til synjunar á launahækkun, eftir launahækkun annars starfsmanns, sem hún bar sig saman við. Svo sem áður er rakið er það mat nefndarinnar að í því tilviki sé ekki sýnt að um mismunun hafi verið að ræða vegna kvörtunar kæranda um meinta kynferðislega áreitni. Jafnframt liggur fyrir að launahækkun annarra starfmanna kom til eftir að kærandi hafði sjálf sagt upp störfum. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki talið að synjun atvinnurekanda á launahækkunum til kæranda hafi verið að rekja til þess að kærandi kvartaði yfir meintri kynferðislegri áreitni haustið 2001 eða annarra atvika því tengdu.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að D hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

 

Andri Árnason

Erla S. Árnadóttir

Stefán Ólafsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum