Hoppa yfir valmynd
20. desember 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 43/2001

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 43/2001

 

Sameiginlegur kostnaður.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 6. september 2001, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 21. september 2001. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Greinargerð gagnaðila, dags. 29. september 2001, var lögð fram á fundi nefndarinnar 4. október 2001. Á fundi nefndarinnar 10. desember 2001 var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 29. Húsið skiptist í þrjá eignarhluta, þ.e. kjallara, 1. hæð og 2. hæð. Kjallari og 1. hæð er í eigu gagnaðila og 2. hæð er í eigu álitsbeiðanda. Ágreiningur er um kröfu gagnaðila á hendur álitsbeiðendum.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðilar eigi ekki kröfu á álitsbeiðanda vegna framkvæmda sem fram fóru á sameign hússins árið 1998 í tíð fyrri eiganda 2. hæðar.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi keypt íbúðina með kaupsamningi, dags. 4. október 2000. Álitsbeiðandi hafi talið nauðsynlegt að sinna ýmsu viðhaldi á sameign og vakið máls á því við gagnaðila. Í kjölfarið hafi álitsbeiðanda borist bréf frá gagnaðila, dags. 18. júní 2001, þar sem hann samþykkti framkvæmdir á sameign "að því marki að okkar hlutur - 61,5% samkvæmt hlutföllum fasteignamats - fari ekki fram úr þeim kr. 184.800, sem fram koma í nefndu bréfi." Bréfið sem gagnaðili vísi til sé bréf hans til fyrri eiganda íbúðarinnar sem álitsbeiðandi hafi keypt 2. hæðina af, dags. 4. maí 1999, þar sem gagnaðili tilkynnir honum að hann hafi staðið að tilgreindum framkvæmdum á sameign hússins og hafi kostnaðurinn numið 480.000 kr. Í bréfinu sé tekið fram að gagnaðili hafi greitt fyrir framkvæmdirnar en hlutur íbúðar 2. hæðar sé 184.800 kr. Tekið sé fram að gagnaðili sé ekki að innheimta þann kostnað hjá eiganda íbúðar 2. hæðar heldur áskilji sér rétt til að höfð verði hliðsjón af þeirri upphæð næst þegar farið verði út í framkvæmdir á sameign. Með vísan til þess virðist sem gagnaðilar telji sig eiga kröfu á álitsbeiðanda vegna framkvæmda sem hann hafi greitt fyrir og fram fóru á sameign hússins á árinu 1998 eða í tíð fyrri eigenda íbúðar 2. hæðar.

Af hálfu gagnaðila er vísað til fyrirliggjandi gagna í málinu.

 

III. Forsendur

Í málinu liggur ekki fyrir hvort ákvarðanataka vegna umræddra framkvæmda, sem fóru fram á árinu 1998, hafi verið með lögmætum hætti enda hefur það atriði ekki áhrif á úrlausn málsins hér. Greiði eigandi ekki hlutdeild sína í sameiginlegum kostaði þá eignast húsfélagið eða aðrir eigendur lögveð í eignarhluta hans til tryggingar kröfunni, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Lögveðsrétturinn fellur hins vegar niður er eitt ár er liðið frá þeim degi er greiðslan var innt af hendi, sbr. 2. og 3. mgr. sömu greinar. Kærunefnd telur að krafa gagnaðila á hendur fyrri eiganda íbúðar á 2. hæð hússins veiti þeim engan sjálfstæðan rétt á hendur álitsbeiðanda nú. Með vísan til þess telur kærunefnd að gagnaðilum sé óheimilt að skilyrða greiðslu á fyrirhuguðum sameiginlegum framkvæmdum við húsið, við greiðslu á reikningi vegna framkvæmda sem fóru fram á árinu 1998.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðilar eigi ekki kröfu á hendur álitsbeiðanda vegna framkvæmda sem fram fóru á sameign hússins árið 1998 í tíð fyrri eiganda 2. hæðar.

 

 

Reykjavík, 10. desember 2001

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum