Hoppa yfir valmynd
20. desember 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 55/2001

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 55/2001

 

Ákvörðunartaka: Lagnir.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 25. október 2001, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 27, hér eftir nefnt gagnaðili.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 6. nóvember 2001. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Athugasemdir gagnaðila, dags. 17. nóvember 2001, voru lagðar fram á fundi nefndarinnar 21. nóvember 2001. Á fundi nefndarinnar 20. desember 2001 var málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða X nr. 27. Húsið skiptist í 14 eignarhluta. Ágreiningur er um ákvörðunartöku varðandi viðgerð á lögnum.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að álitsbeiðanda beri ekki að taka þátt í kostnaði vegna viðgerða á lögnum.

 

Í álitsbeiðni kemur fram að ekki hafi verið haldinn húsfundur um viðgerðir á lögnum eftir að álitsbeiðandi keypti íbúð í húsinu. Einungis hafi verið látinn ganga undirskriftarlisti um málið. Með vísan til þess telur álitsbeiðandi að honum beri ekki að greiða reikning að fjárhæð 72.631 kr. vegna framkvæmdanna.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að á húsfundi 4. október 1999 hafi verið samþykkt að láta gera við allar frárennslislagnir í stigaganginum. Í fundinn hafi mætt eigendur 8 eignarhluta af 14. Ákvörðun hafi því verið tekin með lögmætum hætti þó álitsbeiðandi hafi ekki setið þann fund. Framkvæmdir hafi hafist 10. dag sama mánaðar. Á tímabilinu 4. október 1999 til 6. apríl 2001 hafi verið haldnir fjórir fundir um málið og hafi álitsbeiðandi setið þrjá og hvorki hafnað greiðsluskyldu né krafist sérstakra upplýsinga um málið. Það hafi ekki verið fyrr en verkinu var lokið og byrjað var að innheimta kostnaðinn sem álitsbeiðandi hafi talið sig beittan órétti. Álitsbeiðandi hafi þrátt fyrir það greitt tvo reikninga þann 30. ágúst 2001 að fjárhæð 73.868 kr. og 49.569 kr.

Gagnaðili telur að undirskriftarlistinn frá 8. júní 1999 hafi ekkert að segja í málinu enda hafi ákvörðun um framkvæmdir verið tekin á húsfundi. Álitsbeiðandi vísi til fundar sem haldinn hafi verið áður en hann keypti íbúðina í maí 1999. Hið rétta sé að þetta mál hafi ekki verið rætt á neinum húsfundi fyrr en 4. október 1999. Hins vegar hafði fyrri stjórn húsfélagsins verið það ljóst að það þyrfti að fara út í viðgerðir á lögnum eins og fram komi í bréfi hennar til fasteignasölunnar R, dags. 2. september 1999.

 

III. Forsendur

Sú meginregla gildir samkvæmt lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, að sameiginlegar ákvarðanir ber að taka á húsfundum, sbr. 4. mgr. 39. gr. laganna. Tilgangur þess ákvæðis er að eigendum gefist kostur á að mæta og taka þátt í umræðum, ákvörðunum og atkvæðagreiðslu um sameiginleg málefni. Í málinu liggur fyrir fundargerð húsfundar sem haldinn var 4. október 1999. Þar segir orðrétt: "Var talað um skolprör og var ákveðið að klára að gera við öll rör þegar það væri búið að sækja um lán hjá Sparisjóði S fyrir viðgerð." Á fundinn mættu eigendur átta eignarhluta í húsinu. Samkvæmt þessu er ljóst að ákvörðun um að gera við frárennslislagnir hússins var tekin á húsfundi og framkvæmdir hófust í kjölfarið. Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri að taka þátt í kostnaði vegna viðgerða á lögnum enda ekkert annað fram komið í málinu en að til húsfundarins hafi verið boðað með lögmætum hætti.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri að taka þátt í kostnaði vegna viðgerða á lögnum.

 

 

Reykjavík, 20. desember 2001

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum