Hoppa yfir valmynd
23. maí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2002

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 11/2002

 

Ákvörðunartaka: Breiðbandið, sjónvarpsloftnet. Skaðabætur.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags 12. mars 2002, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X 14, hér eftir nefnt gagnaðili.

     Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 26. mars 2002. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

     Greinargerð stjórnar húsfélagsins X 14 fyrir hönd húsfélagsins, móttekin 5. apríl 2002, var lögð fram á fundi nefndarinnar 24. maí 2002, og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X 12-16, Reykjavík. Húsið skiptist í þrjá stigaganga og eru 9 eignarhlutar í hverjum stiagangi fyrir sig. Álitsbeiðandi er eigandi eignarhluta í stigagangi nr. 14. Ágreiningur er um tengingu örbylgjuloftnets og skaðabætur.

    

     Kröfur álitsbeiðenda eru:

     Að öll loftnet á húsinu verði tengd aftur við lagnakerfi hússins.

     Að húsfélagið greiði álitsbeiðanda skaðabætur sem nemur áskrift að Fjölvarpi frá þeim degi er loftnetin voru aftengd þar til lagnakerfin komist aftur í lag.

 

     Í álitsbeiðni kemur fram að er álitsbeiðandi keypti íbúði í húsinu hafi verið þar FM- útvarpsloftnet, VHF-sjónvarpsloftnet og örbylgjuloftnet fyrir sjónvarp. Hafi loftnetin verið tengd við sameiginlegt lagnakerfi hússins. Telur álitsbeiðandi að hann hafi keypt jafnan hlut í þessum búnaði á við aðra eigendur hússins. Í álitsbeiðni segir enn fremur að á fundi í húsfélaginu þann 5. júní 2001 hafi verið samþykkt að kaupa nýjan magnara fyrir sjónvarpskerfi hússins svo íbúar gætu tengst breiðbandinu. Í kjölfar þessa eða í júlí 2001 hafi stjórnarmaður í húsfélaginu skipt um magnara og aftengt önnur loftnet hússins. Frá þeim tíma hafi álitsbeiðandi ekki getað horft á Fjölvarpið sem hann hafði verið áskrifandi að síðan 14. maí 1998.

     Í álitsbeiðni segir enn fremur að á fundi í húsfélaginu sem boðaður hafi verið sérstaklega vegna þessara mála hafi verið samþykkt að að tengja öll loftnetin aftur, en það hafi ekki verið ritað í fundargerð.

     Álitsbeiðandi heldur því fram að hann hafi haldið áfram að greiða áskrift af Fjölvarpinu þrátt fyrir að hann næði ekki útsendingum þess. Þetta hafi hann meðal annars gert til að halda þeim afslætti sem fylgir heilsársáskrift af Fjölvarpinu, svokallaðri M-12 áskrift.

     Máli sínu til stuðnings vísar álitsbeiðandi til 19. og 34. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, en skaðabótakröfu sína styður álitsbeiðandi við 52. gr. sömu laga.

     Í greinargerð gagnaðila kemur fram að óumdeilt sé að álitsbeiðandi hafi keypt hlut í umræddum sjónvarpsbúnaði. Hins vegar bendir gagnaðili á að umræddur búnaður sé úreltur og hafi hann verið leystur af hólmi af breiðbandinu. Sá magnari sem keyptur hafi verið gefi einnig möguleika á fjölþættari notum en aðeins sjónvarpi, því einnig sé hægt að nota hann sem háhraða internettengingu. Gagnaðili bendir á í þessu sambandi að gegnum breiðbandið sé hægt að ná skýru merki frá um 40 útvarpsrásum, öllum íslenskum sjónvarpssendingum auk um 25 erlendra sjónvarpsrása.

     Gagnaðili heldur því fram að örbylgjuloftnetið á þaki hafi verið orðið lélegt. Haustið 2001 þegar húsfélagið hafi verið að skoða örbylgjuloftnetsmál hafi Íslenska útvarpsfélagið samið við Landsímann um dreifingu á sjónvarpsefni sínu og hafi gagnaðili þá talið málið úr sögunni, þar sem í kjölfar þessara samninga hafi verið ódýrast og einfaldast að leysa málið fyrir íbúana með því að taka dagskrá Íslenskra sjónvarpsfélagsins af breiðbandinu. Hafi stjórn húsfélagsins því ekki aðhafst meira í málinu. Enn fremur benda gagnaðilar á að það hafi verið álit fagmanna, sem hafi yfirfarið kerfið í húsinu og stillt hinn nýja loftnetsmagnara, að eðlilegast og einfaldast væri að aftengja allt sem á þakinu væri og nýta einvörðungu hina nýju ljósleiðaratækni enda hægt að ná allri dagskrá sem er í boði í landinu þar í gegn. Álitsbeiðandi hafi hins vegar talið öruggara að hafa líka loftnet.

     Gagnaðilar benda að lokum á að kröfur álitsbeiðanda um endurgreiðslur á áskrift af Fjölvarpinu hafi aldrei verið tekið upp á vettvangi húsfélagsins.

 

III. Forsendur

Samkvæmt 7. tölul. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús falla allar lagnir, svo sem fyrir heitt vatn, kalt vatn, skolp, rafmagn, síma, dyrasíma, sjónvarpsloftnet og útvarpsloftnet, sem þjóna sameiginlegum þörfum og þörfum heildarinnar, án tillits til þess hvar þær liggja í húsinu, undir sameign fjöleignarhúss. Samkvæmt 8. tölul. 8. gr. laga nr. 26/1994 fellur allur búnaður, kerfi og þess háttar, án tillits til staðsetningar, bæði innan húss og utan, svo sem lyftur, rafkerfi, hitakerfi, vatnskerfi, símakerfi, dyrasímakerfi, sjónvarpsloftnet og útvarpsloftnet, leiktæki o.fl., sem þjóna þörfum heildarinnar, en þó að undanskildum tækjum og búnaði, sem tengd eru við kerfin inni í hverjum séreignarhluta, undir sameign fjöleignarhúss. Allir hlutaðeigandi eigendur fjöleignarhúsa eiga óskoraðan rétt á að taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss og utan, sbr. 39. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

     Samkvæmt 39. gr. laga nr. 26/1994 skulu allar ákvarðanir er lúta að sameign hússins, þ.m.t. lagnakerfi þess, teknar á húsfundi. Af gögnum málsins má sjá að þegar sjónvarps- og útvarpsloftnet hússins voru aftengd í kjölfar kaupa á magnara hafi sjónvarpsrásir Íslenska útvarpsfélagsins, þ.m.t. Fjölvarpið, ekki verið aðgengilegar á breiðbandinu. Það er álit kærunefndar að stjórn húsfélagsins hafi verið óheimilt að skerða með þessum hætti aðgengi eigenda hússins að sjónvarpsefni án þess að ákvörðun um slíkt hafi verið tekin á húsfundi, sbr. 39. gr. laga nr. 26/1994.

     Ákvörðun um kaup á magnara og tenging við breiðbandið var tekin á húsfundi 5. júní 2001. Að mati kærunefndar fólst í þeirri ákvörðun samþykki íbúa fjöleignarhússins að tengjast breiðbandinu, að því leiti sem sjónvarpsefni var þá aðgengilegt í kerfinu. Er álitsbeiðandi bundinn af þeirri ákvörðun. Samkvæmt upplýsingum kærunefndar er dagskrá Fjölvarps Íslenska útvarpsfélagsins ekki aðgengileg á breiðbandskerfi Landsímans. Í ljósi þeirrar staðreyndar og þess sem áður hefur verið rakið telur kærunefnd að tengja beri aftur loftnet álitsbeiðanda á kostnað húsfélagsins.

     Í málinu hefur ekki verið sýnt fram á nein skilyrði skaðabótsskyldu húsfélags.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að tengja beri öll loftnet hússins aftur við lagnakerfi þess á kostnað húsfélagsins.

     Það er álit kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrði skaðabótaskyldu séu fyrir hendi.

 

 

Reykjavík, 23. maí 2002

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum