Hoppa yfir valmynd
14. september 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2000: Úrskurður frá 14. september 2000.

Ár 2000, fimmtudaginn 14. september, var í Félagsdómi í málinu nr. 7/2000:

Félag íslenskra flugumferðarstjóra

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

ríkissjóði Íslands

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Mál þetta var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda að loknum munnlegum málflutningi 11. september sl.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ingólfur Friðjónsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Félag íslenskra flugumferðarstjóra, kt. 560372-0199.

Stefndi er ríkissjóður Íslands, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi gerir þá dómkröfu að viðurkennt verði að félagsmaður stefnanda, Halla B. Reynisdóttir, hafi átt rétt á dagpeningum í samræmi við reglur og ákvarðanir ferðakostnaðarnefndar á hverjum tíma er hún frá 10. október 1998 til og með 29. maí 1999 dvaldi á vegum Flugmálastjórnar Íslands fjarri starfsstöð sinni vegna námskeiðs- og þjálfunarstarfa á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli og að með því að neita að greiða henni slíka dagpeninga hafi verið brotið gegn grein 5.7.1 í kjarasamningi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og ríkissjóðs frá 1997.

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk álags sem nemur virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda

Aðallega að málinu verði vísað frá Félagsdómi og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt mati Félagsdóms.

Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms.

  

Málavextir

Málavextir eru þeir að Halla B. Reynisdóttir, kt. 170967-5189, er félagsmaður í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra. Um launakjör hennar fer samkvæmt kjarasamningi aðila sem gildir frá 1. desember 1995 og ráðningarsamningi undirrituðum 2. júní 1998. Hún hóf nám í flugumferðarstjórn í ATS-skóla Flugmálastjórnar Íslands í september 1996 og lauk bóklegum hluta grunnnáms og bóklegu námi fyrir flugturninn í Reykjavík í apríl 1997.

Framangreint nám skiptist annars vegar í grunnnám og hins vegar nám til mismunandi starfsréttinda. Þessi starfsréttindi eru í fyrsta lagi þrenns konar starfsréttindi í flugstjórnarmiðstöðinni, þ.e. innanlands sector, suður-austur sector og norður-vestur sector. Í öðru lagi er um aðflugsstjórnarréttindi að ræða og í þriðja lagi turnréttindi. Auk hins eiginlega starfsréttindanáms þarf hlutaðeigandi að fá sérþjálfun tengda hverjum vinnustað, eða svonefnda staðar-rating, sbr. reglugerð nr. 344/1990 um skírteini gefin út af flugmálastjórn með síðari breytingum, sbr. núgildandi reglugerð nr. 419/1999 um sama efni. Aðstæður á hverjum stað ráða því hvaða starfsréttinda og þjálfunar er almennt krafist, en nám til starfsréttinda fer fram í Reykjavík og í Keflavík.

Starfsréttindanám flugumferðarstjóranema er launað. Samkvæmt grein 13.1.2 í kjarasamningi aðila telst maður vera nemandi frá upphafi náms í flugumferðarstjórn þar til hann hefur staðist próf fyrir fyrstu starfsréttindi. Stefndi kveður að nemar í flugumferðarstjórn taki laun samkvæmt kjarasamningi Félags flugmálastarfsmanna ríkisins á námstímanum frá því að grunnnámi lýkur og þar til fyrstu starfsréttindum er náð en eftir það samkvæmt kjarasamningi aðila máls þessa. Þann 24. mars 1997 lagði Halla B. Reynisdóttir fram ósk um að flytjast til starfa í flugturninn á Akureyri en þar var hún og er búsett. Í apríl 1998 hafði hún lokið við og staðist öll tilskilin próf í bóklegri og verklegri flugumferðarstjórn fyrir flugturnsþjónustu í Reykjavík.

Halla var ráðin sem flugumferðarstjóri á Akureyrarflugvelli frá 8. apríl 1998 en ráðningarsamningur undirritaður 2. júní 1998. Áður en ráðningarsamningurinn var gerður voru uppi umræður um þau kjör sem Halla skyldi njóta við aðflugsnám sem var lokaþáttur starfsþjálfunar hennar og sem fram skyldi fara í Reykjavík og Keflavík. Kemur fram í bréfi framkvæmdastjóra flugumferðarþjónustu 1. júní 1998 til Höllu B. Reynisdóttur að gert sé ráð fyrir að hún komi til starfa á Reykjavíkurflugvelli í júlí og starfi þar fram til 1. september. Þann tíma muni hún fá greidda fæðispeninga og eigi möguleika á að gista í íbúð FMS í slökkvistöðinni. Einnig muni hún fá greiddar allt að fjórar ferðir til Akureyrar þann sama tíma. Eftir 1. september muni hún fara í flugturninn á Akureyrarflugvelli þar til nám hennar í aðflutningsstjórn hefst og að loknu starfsréttindanámi muni hún halda til starfa í flugturninum á Akureyri. Tekið er fram í bréfinu að á tímabili starfsréttindanáms verði hvorki greiddir dagpeningar né fæðispeningar.

Stefndi kveður að á grundvelli þess sem fram kemur í bréfinu 2. júní 1998 hafi Flugmálastjórn gert samkomulag við Höllu þessa efnis og í framhaldi þess hafi hún ritað undir ráðningarsamninginn 2. júní 1998. Samkomulagið geymi efni ráðningarsamningsins og sé hluti hans og helgist af því að á þeim tíma sem það var gert hafi Halla ekki uppfyllt skilyrði til ráðningar í starfi á Akureyri. Sérstakt fyrirkomulag skyldi því standa þar til þau skilyrði yrðu uppfyllt. Veturinn 1998 til 1999, meðan Halla stundaði nauðsynlegt nám í Reykjavík og Keflavík í aðflugsstjórn, skyldu henni ekki greiddir dagpeningar. Þetta hafi gengið eftir eins og um var samið. Samkomulagið og ráðningarsamninginn verði að skoða í ljósi ákvæða 13.1.2 um að hún hafi ekki lengur verið nemi þó svo að eiginlegu starfsréttindanámi vegna Akureyrar væri ekki lokið. Hún hafi heldur ekki uppfyllt skilyrði til þess að geta starfað í flugturninum á Akureyri. Þá hafi flugmálastjórn viljað koma til móts við óskir hennar um að vinna á Akureyrarflugvelli. Í ljósi þessa hafi samkomulagið verið háð vissum skilyrðum.

Stefndi kveður Akureyri vera í sérstöðu miðað við aðra vinnustaði flugumferðarstjóra í Keflavík, Reykjavík og Vestmannaeyjum að því leyti að bæði aðflugsstjórnun og stjórnun úr flugturni fari fram þaðan. Aðflugsstjórnarréttindi og turnréttindi flugumferðarstjóra séu hvor sín réttindin og útheimti sitt hvort starfsréttindanámið. Á Akureyri séu fjórar stöður flugumferðarstjóra, en einn á hverri vakt sem verði að hafa full réttindi þar. Áskilið sé að allir hafi bæði réttindi í aðflugsstjórn og turni. Um það leyti sem Halla B. Reynisdóttir hóf fyrsta starfsréttindanám sitt hafi verið ljóst að einn þeirra fjögurra sem á Akureyri starfaði yrði senn að láta af störfum fyrir aldurs sakir og hafi það verið kunngjört innan stofnunarinnar. Kveður stefndi að ósk Höllu um að flytjast til starfa í flugturninum á Akureyri hafi verið vel tekið af hálfu yfirstjórnar Flugmálastjórnar, en áskilið hafi verið af hálfu stofnunarinnar og óhjákvæmileg forsenda fyrir því að þessu gæti orðið að hún aflaði sér þeirra starfsréttinda sem nauðsynleg væru til að geta gengið í starf á Akureyri, þ.e.a.s. lyki því námi til turnréttinda sem hafið var, auk þess sem hún yrði að afla starfsréttinda í aðflugsstjórn. Það hafi ekki verið unnt, þar sem hún hafi að auki þurft að hafa starfsréttindi fyrir aðflug og hafa lokið nauðsynlegri þjálfun þar að lútandi. Stefnandi heldur því hins vegar fram að þar sem skortur hafi verið fyrirsjáanlegur á flugumferðarstjórum á Akureyri hafi Halla sótt um starfið fyrir áeggjan forráðamanna flugumferðarþjónustunnar. Þeir hafi hins vegar gert hvað þeir gátu til að tryggja að ekki myndi koma til greiðslna dagpeninga til Höllu meðan á hinu fyrirhugaða starfsnámi stæði. Í þessu skyni hafi þeir beitt hana þrýstingi og sett fram tillögur þess efnis í maí og júní 1998. Hafi þeir áður reynt að fá Höllu til að gera tímabundinn ráðningarsamning þar sem starfsstöðin var ákveðin í Reykjavík en sá samningur hafi aldrei verið undirritaður. Hafi verið afráðið að framtíðarstarf Höllu yrði á Akureyri og þjálfun hennar miðast eftir þetta við það.

Halla lauk tilskildum prófum til að geta starfað í flugturninum á Akureyri í júní 1999 og hélt þá til starfa á Akureyri. Sá starfsmaður sem hún leysti af hólmi lét af störfum í ágústbyrjun það sumar.

Ágreiningur aðila snýst um það hvort ákvæði greinar 5.7.1 í kjarasamningi aðila um greiðslu dagpeninga hafi verið brotið þegar Höllu B. Reynisdóttur var neitað um slíka greiðslu það tímabil er hún var í ofangreindum námskeiðs- og þjálfunarstörfum í starfsréttindanámi í Reykjavík og Keflavík, fjarri starfsstöð sinni.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að kveðið sé á um dagpeninga starfsmanna í 5. kafla kjarasamnings aðila og skuli dagpeningar vegna námskeiða, þjálfunar- og eftirlitsstarfa vera þeir sömu og hjá öðrum starfsmönnum ríkisins, sbr. grein 5.7.1

Halla B. Reynisdóttir, félagsmaður stefnanda, hafi ekki fengið greidda dagpeninga á tímabili starfsréttindanáms í Reykjavík og Keflavík eins og kjarasamningurinn geri ráð fyrir.

Stefnandi telur að umrædd framkvæmd Flugmálastjórnar feli í sér skýrt brot gegn kjarasamningi aðila. Stefnandi hafi ítrekað krafist þess að Flugmálastjórn virði kjarasamning aðila. Þá hafi stefnandi borið málið upp á fundum samstarfsnefndar aðilanna en samkvæmt fundargerð fundar samstarfsnefndar Flugmálastjórnar og FÍF sé ljóst að vilji Flugmálastjórnar til lausnar málsins sé enginn. Tilraunir til sátta hafi því reynst árangurslausar og því telur stefnandi málsókn þessa óhjákvæmilega.

Krafa stefnanda byggir á að stefnda beri að sjá til þess að kjarasamningur aðila sé efndur réttilega. Ótvírætt sé að Halla hafi verið send til námskeiðs- og þjálfunarstarfa fjarri starfsstöð sinni og beri því að fá greidda dagpeninga eins og kjarasamningurinn geri ráð fyrir. Telur stefnandi að mál þetta sé mikilvægur prófsteinn á það hvort stéttarfélögum sé unnt að tryggja að kjarasamningar sem þau geri séu haldnir, jafnvel þó að atbeini starfsmannsins sem kjarasamningsbrotið beinist að komi ekki til.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á kjarasamningi aðila og meginreglum vinnu- og samningaréttar. Þá byggir stefnandi á lögum nr. 80/1938 og 1. gr. laga um starfskjör launafólks nr. 55/1980. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, einkum til 24. gr. og 26. gr.

Stefnandi kveður kjarasamning þann sem um er deilt í málinu vera á forræði aðila máls þessa en framkvæmd hans hafi verið af hálfu stefnda falin Flugmálastjórn Íslands með bréfi dagsettu 17. febrúar 1998. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 94/1986 sé stefndi til fyrirsvars í málinu.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

  

Málsástæður og lagarök stefnda vegna frávísunarkröfu

Stefndi krefst frávísunar vegna vanreifunar og þess að kröfugerð málsins sé óglögg, ódómhæf og ekki fallin til þess að leysa úr réttarágreiningi á einn eða annan veg. Er vísað í því efni til 25. og 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Einnig er vísað til H.1997:433.

Kröfugerð stefnanda ráðgeri að Flugmálastjórn hafi neitað að greiða Höllu B. Reynisdóttur dagpeninga frá 10. október 1998 til 29. maí 1999. Þann 17. nóvember 1998 hafi verið sett fram sú krafa að Höllu yrðu greiddir dagpeningar á grundvelli greinar 5.7.1 í kjarasamningi aðila. Byggir kröfugerðin ekki á réttum staðreyndum með vísan til samkomulags þess sem í gildi var milli Flugmálastjórnar og Höllu sjálfrar. Engin málsreifun liggi fyrir af hálfu stefnanda um reglur ferðakostnaðarnefndar eða reglur nr. 39/1992 með síðari breytingum og engin grein sé gerð fyrir fjölda ferða, gistinátta eða ferðadaga. Ekki liggi heldur fyrir að hve miklu leyti sá félagsmaður stefnanda sem málið varði hafi þurft að bera kostnað sem dagpeningum sé ætlað að mæta, en engin gögn þar að lútandi hafi verið lögð fram. Alger skortur sé því á reifun málsins með tilliti til atvika og reglna um dagpeninga. Af þessum sökum sé málatilbúnaður stefnanda vanreifaður og kröfugerðin ódómhæf. Engin grein sé gerð fyrir því hvaða dagpeningar hefðu átt að koma til greiðslu, sem stoð ættu í kjarasamningi aðila og mið tækju af ákvörðunum ferðakostnaðarnefndar og reglum nr. 39/1992. Séu því enn við lýði annmarkar á reifun málsins og kröfugerð sem olli frávísun með úrskurði Félagsdóms 7. apríl síðastliðinn í málinu nr. F-3/2000, enda ekki unnt að fjalla um kröfugerð stefnanda að neinu leyti meðan reifun máls og öflun gagna sé svo ábótavant.

Stefndi byggir einnig kröfu sína um frávísun á því að kröfugerð stefnanda standi utan við gildissvið kjarasamnings aðila og engin rök séu til að fjalla um einstaklingsbundin ráðningarkjör fyrir Félagsdómi, en lögsögu hans beri að skýra þröngt. Viðurkenningarkrafan og sakarefnið þar með varði ráðningarsamning sem Halla B. Reynisdóttir gerði við Flugmálastjórn, henni til hagsbóta. Samkvæmt lögum nr. 94/1986 geti málatilbúnaður stefnanda ekki verið rekinn fyrir Félagsdómi þar eð umboði Höllu B. Reynisdóttur til stefnanda um sókn málsins sé sýnilega ekki til að dreifa. Yfirlýstur tilgangur málsóknarinnar sé að reka mál um réttindi og ráðningarkjör tiltekins starfsmanns án atbeina eða umboðs hans. Verði þannig ráðið af stefnu að umboði Höllu til málsóknarinnar sé ekki til að dreifa. Þetta sé andstætt 26. gr. og 4. og 5. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986. Þar sem málsóknin styðjist ekki við gilt málsóknarumboð að lögum beri að vísa því frá Félagsdómi, enda eigi það við svo búið ekki undir lögsögu dómsins. Verði í þessu efni að virða rétt starfsmannsins til að semja um kjör sín, sbr. 75. gr. stjórnarskrár.

Málskostnaðarkröfu sína styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 65. gr. laga nr. 80/1938.

 

Rökstuðningur stefnanda gegn frávísunarkröfu

Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað. Þá krefst hann einnig málskostnaðar í þessum þætti málsins. Telur hann kröfu sína nægilega ljósa, enda hafi verið bætt úr göllum, sem að var fundið í úrskurði Félagsdóms uppkveðnum 7. apríl sl. Ekki þurfi að sýna fram á fjárhæðir til að geta leyst úr kröfu stefnanda. Málið varði ágreining um skilning á ákvæði kjarasamnings. Þá mótmælir stefndi einnig þeirri málsástæðu stefnda að umboð Höllu hafi þurft til málsóknarinnar og málið verði því ekki rekið fyrir Félagsdómi á grundvelli 26. gr. laga nr. 94/1986. Kveður stefnandi að málið snúist ekki um Höllu B. Reynisdóttur og ráðningarsamning hennar heldur skilning á ákvæði í kjarasamningi. Það leiði af eðli stéttarfélaga og hlutverki þeirra samkvæmt lögum nr. 80/1938 og lögum nr. 94/1986 að ekki þurfi sérstakt málsóknarumboð einstakra félagsmanna þegar ágreiningur sé um túlkun og skilning á kjarasamningi.

  

Niðurstaða

Stefnandi gerir þá dómkröfu "að viðurkennt verði að félagsmaður stefnanda Halla B. Reynisdóttir hafi átt rétt á dagpeningum í samræmi við reglur og ákvarðanir ferðakostnaðarnefndar á hverjum tíma er hún frá 10. október 1998 til og með 29. maí 1999 dvaldi á vegum Flugmálastjórnar Íslands fjarri starfsstöð sinni vegna námskeiðs- og þjálfunarstarfa á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli og að með því að neita að greiða henni slíka dagpeninga hafi verið brotið gegn grein 5.7.1 í kjarasamningi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Ríkissjóðs frá 1997."

Grein 5.7.1 í kjarasamningi aðila er svohljóðandi:

"Dagpeningar vegna námskeiða, þjálfunar- og eftirlitsstarfa skulu vera þeir sömu og hjá öðrum starfsmönnum ríkisins."

Ljóst er samkvæmt gögnum málsins að ágreiningur er með samningsaðilum um skilning á framangreindu kjarasamningsákvæði. Kemur þessi ágreiningur m.a. fram í fundargerð samstarfsnefndar Flugmálastjórnar og Félags íslenskra flugumferðarstjóra frá 31. maí 1999 og bréfum fjármálaráðuneytisins, dags. 6. mars og 1. september 2000, til ríkislögmanns í tilefni af málinu. Liggur því fyrir að samningsaðilar deila um skilning á kjarasamningi og sá ágreiningur á undir lögsögu Félagsdóms samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Þá verður ekki talið að málið sé svo vanreifað að frávísun varði, enda hefur stefnandi bætt úr þeim ágöllum, sem voru á kröfugerð hans í fyrra máli, málinu nr. F-3/2000.

Þá verður að telja að stefnandi uppfylli að öðru leyti lagaskilyrði fyrir málssókninni, þ. á m. um aðild að málinu, sbr. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986, en þar segir: "Stéttarfélög reka mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi."

Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu stefnda um frávísun málsins.

Rétt þykir að stefndi greiði stefnanda 100.000 kr. í málskostnað í þessum þætti málsins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu stefnda um frávísun málsins er hafnað.

Stefndi, ríkissjóður Íslands, greiði stefnanda, Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, 100.000 kr. í málskostnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum