Hoppa yfir valmynd
21. desember 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 20/2001: Dómur frá 21. desember 2001.

Ár 2001, föstudaginn 21. desember, var í Félagsdómi í málinu nr. 20/2001.

Alþýðusamband Íslands f.h.

Flugfreyjufélags Íslands

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h

Flugleiða hf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 10. desember sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Arngrímur Ísberg, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Grensásvegi 16a, Reykjavík, f.h. Flugfreyjufélags Íslands, kt. 550169-5099, Borgartúni 22, Reykjavík.

Stefndi er Samtök Atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Garðastræti 41, Reykjavík, f.h. Flugleiða hf., kt. 601273-0129, Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi gerir þá dómkröfu að viðurkennt verði að upphaf uppsagnarfrests 53 félagsmanna stefnanda sem sagt var upp um mánaðamótin september/október 2001 sé samkvæmt grein 03-1 í kjarasamningi aðila frá l. nóvember 2001, næstu mánaðamótum eftir að viðkomandi bárust uppsagnarbréf stefnda Flugleiða hf. dagsett 28. september 2001.

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.

   

Dómkröfur stefnda

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Krafist er málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

Málavextir

Í lok septembermánaðar síðastliðins tók stefndi, Flugleiðir hf., ákvörðun um að segja upp starfsfólki vegna samdráttar í flugi og fækka í flugáhöfnum. Alls var 53 flugfreyjum og flugþjónum og tæplega 40 flugmönnum sagt upp störfum í lok september. Þessi áform voru kynnt stefnanda, Flugfreyjufélagi Íslands, á fundi aðila 26. september sl. Annar samráðsfundur var haldinn daginn eftir og þá rætt um að stefndi myndi hringja til þeirra félagsmanna stefnanda sem hlut ættu að máli og tilkynna þeim um uppsögn þeirra. Af hálfu stefnda var lögð áhersla á að ná til þeirra allra persónulega.

Yfirflugfreyja og eftirlitsflugfreyjur hringdu í umræddar flugfreyjur og flugþjóna og óumdeilt er að allmargir félagsmenn stefnanda fengu munnlega uppsögn með skýrum hætti í nefndum samtölum.

Uppsagnarbréf dagsett 28. september voru síðan send hlutaðeigandi félagsmönnum stefnanda og bárust þeim bréfin dagana 1. og 2. október síðastliðinn. Eftirtaldir félagsmenn stefnanda fengu uppsagnarbréf:

  1. Anna Braguina kt. 111077-2079 28. Helga B. Vilhjálmsdóttir kt. 100674-2979
  2. Anna Kjartansdóttir kt. 160469-4639 29. Hildur Stefánsdóttir kt. 030676-5999
  3. Anna Margrét Kaldalóns kt. 121166-5349 30. Hrund Finnbogadóttir kt. 200976-3599
  4. Ásdís Bjarnadóttir kt. 260572-3349 31. Inga Magnea Skúladóttir kt. 030777-4419
  5. Ásdís María Rúnarsdóttir kt. 140277-4449 32. Íris Eiríksdóttir kt. 310170-5429
  6. Berglind Sigþórsdóttir kt. 310876-3649 33. Jenný Guðmundsdóttir kt. 270973-4429
  7. Bergljót Þorsteinsdóttir kt. 090274-5389 34. Jenný María Jónsdóttir kt. 190975-5339
  8. Birgitta M. Vilbergsdóttir kt. 091275-3769 35. Jóhanna S. Svavarsdóttir kt. 110172-5249
  9. Birna Bragadóttir kt. 291074-5379 36. Katrín Rós Gunnarsdóttir kt. 080375-4419
  10. Björg Guðmundsdóttir kt. 120675-5839 37. Kristján E. Möller kt. 170568-4949
  11. Björg Sæmundsdóttir kt. 081275-4679 38. Kristján G. Guðmundsson kt. 080873-3449
  12. Dagmar G. Þorleifsdóttir kt. 161071-4049 39. Lovísa Stefánsdóttir kt. 170870-4339
  13. Einar Sigurjónsson kt. 010571-3329 40. Margrét Þorleifsdóttir kt. 250574-3129
  14. Elín Ída Kristjánsdóttir kt. 020676-4189 41. María D. Steingrímsdóttir kt. 280875-4739
  15. Elísabet B. Björnsdóttir kt. 190175-4729 42. Ragnheiður B. Sigurðard. kt. 170772-3509
  16. Elísabet H. Einarsdóttir kt. 150176-5659 43. Ragnheiður E. Hjaltadóttir kt. 140972-3559
  17. Ester Jóhannsdóttir kt. 170374-3989 44. Rósa Björk Gunnarsdóttir kt. 040673-4829
  18. Fríða Kristinsdóttir kt. 250374-3649 45. Sigríður A. Ásgeirsdóttir kt. 080472-5289
  19. Guðmundur Þorvarðarson kt. 050176-3399 46. Steinunn Ragnarsdóttir kt. 290767-4909
  20. Guðríður Matthíasdóttir kt. 240771-3229 47. Steinunn Una Sigurðard. kt. 050871-3639
  21. Guðrún Ýr Sigbjörnsdóttir kt. 261174-5029 48. Stella María Óladóttir kt. 140770-5909
  22. Gunnur Magnúsdóttir kt. 060475-4909 49. Unnur G. Gunnarsdóttir kt. 250975-3929
  23. Gunnur S. Kristleifsdóttir kt. 190469-5819 50. Vilborg Ó. Sigurðardóttir kt. 280175-5879
  24. Halla Björg Björnsdóttir kt. 150572-4879 51. Þóra M. Baldvinsdóttir kt. 010371-3099
  25. Harpa Hauksdóttir kt. 240373-4839 52. Þórey Þ. Vilhjálmsdóttir kt. 061271-4499
  26. Harpa Ævarsdóttir kt. 140276-4999 53. Þórunn Geirsdóttir kt. 271272-4139
  27. Heba Brandsdóttir kt. 010371-5469

Stefnandi hefur mótmælt því með vísan til gr. 03-1 í kjarasamningi aðila að réttaráhrif uppsagna þeirra félagsmanna stefnanda, sem fengu munnlega uppsögn, geti talist frá mánaðamótunum október/nóvember 2001. Er það ágreiningsefni málsins.

Tilgreint kjarasamningsákvæði er svohljóðandi:

"Að loknum reynslutíma er uppsagnarfrestur 3 mánuðir og miðað við mánaðamót.

Allar uppsagnir og ráðningar skulu vera skriflegar."

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Málatilbúnaður stefnanda byggir á kjarasamningi aðila. Samkvæmt skýlausu orðalagi greinar 03-1 skuli uppsagnir vera skriflegar og miðast við mánaðamót. Uppsagnir séu í eðli sínu ákvaðir. Þær séu því samkvæmt almennum reglum skuldbindandi fyrir viðtakanda frá því þær berist til hans. Samkvæmt lögum nr. 19/1979 sé kveðið á um það að uppsagnir skuli vera skriflegar. Þá hafi aðilar áréttað þetta skilyrði og útfært sérstaklega í tilvitnuðu kjarasamningsákvæði.

Það skilyrði greinar 03-1 að uppsögn skuli vera skrifleg sé ekki aðeins formskilyrði heldur feli einnig í sér efnisskilyrði, kröfu um lágmarksskýrleika uppsagnar.

Eins og á stóð í umræddu tilfelli hafi uppsagnir 53 félagsmanna stefnanda borist með ábyrgðarpósti l. og 2. október og því ljóst að þær taki fyrst gildi frá næstu mánaðamótum þar eftir á að telja, þ.e. frá 1. nóvember 2001.

Stefnandi hafi gert ítrekaðar tilraunir til að fá stefnda til að fallast á þennan skilning sinn. Stefndi hafi ekki ljáð máls á því og borið við að nægjanlegt hafi verið að hringja til þeirra sem sagt hafi verið upp fyrir mánaðamót.

Stefnandi telur ekki unnt að fallast á þessa skýringu stefnda sem brjóti gegn afdráttarlausu orðalagi kjarasamnings aðila um að uppsögn skuli vera skrifleg. Þegar af þeirri ástæðu byrji uppsagnarfresturinn ekki að líða fyrr en frá 1. nóvember 2001 að telja og skipti engu í því sambandi þótt uppsögn kunni að hafa verið komið á framfæri munnlega fyrir 1. október.

Uppsögn sé íþyngjandi og verði því að gera þá kröfu að viðtakandi geti með skýrum og ótvíræðum hætti kynnt sér efni hennar. Í kjarasamningi séu umsamdar lágmarkskröfur til efnis uppsagna. Uppsagnarbréf verði að vera þannig framsett að ekki valdi misskilningi hver uppsagnarfresturinn sé og hvenær ráðningarslitum sé ætlað að verða. Símtöl þau sem stefndi telur nægjanleg uppfylli engan veginn framangreind skilyrði.

Nokkrum starfsmönnum stefnda hafi verið falið að hringja í þá 53 félagsmenn stefnanda sem sagt skyldi upp. Fyrir liggi að samtöl þessara aðila hafi verið mjög mismunandi og það hversu skýrlega uppsögn hafi verið komið á framfæri í einstökum samtölum afar misjafnt. Það væri algjörlega óþolandi að grípa þyrfti til vitnaleiðslna til að fá upplýst um það sem fram hafi farið í einstökum samtölum til að upplýsa um hvort uppsögn hafi farið fram með nægjanlega skýrum hætti. Þá sé óhjákvæmilegt að benda á að um hafi verið að ræða samtöl tveggja manna sem fram fóru símleiðis fyrir alllöngu síðan og því allsendis óvíst að unnt sé að upplýsa efni þeirra nú. Það sé og beinlínis tilgangur kjarasamningsákvæðisins að ekki þurfi að koma upp vafi af þessu tagi.

Á þessari handvömm við framkvæmd uppsagna félagsmanna stefnanda um mánaðamótin september og október 2001 verði stefndi að bera ábyrgð enda hafi honum verið í lófa lagið að fullnægja ákvæði kjarasamnings aðila og standa að uppsögnum eins og þar sé um samið.

Málatilbúnaður stefnanda byggist á kjarasamningi milli Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf. Enn fremur er vísað um skýringar til laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms og slysaforfalla þar sem kveðið sé á um lámarksréttindi launþega. Málið sé höfðað fyrir dóminum samkvæmt heimild í 44. gr. laga nr. 80/1938. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. 1aga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 80/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

  

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfur sínar á því að ákvæði gr. 03-1 í kjarasamningi aðila um að allar ráðningar og uppsagnir skuli vera skriflegar sé ekki gildisskilyrði heldur formkrafa til að tryggja sönnun þess að uppsögn hafi átt sér stað. Formgalli leiði ekki til ógildis uppsagnar heldur hafi áhrif á sönnunarbyrði um hvort atvik hafi átt sér stað eða ekki.

Munnleg uppsögn sé því fullgild enda geti sá aðili sem segir ráðningarsamningnum upp sýnt fram á að uppsögn hafi átt sér stað og verið nægilega skýr til að viðtakanda hafi mátt vera ljóst efni hennar og hvenær henni var ætlað að koma til framkvæmda. Viðurkennt sé að það skilyrði sé uppfyllt að minnsta kosti að því er varðar allmarga þeirra félagsmanna stefnanda sem um ræðir. Uppsagnarfrestur þeirra hafi því byrjað að líða þegar þann 1. október sl.

Samkvæmt orðalagi gr. 03-1 sé upphaf réttaráhrifa uppsagnar tengt því hvenær uppsögn fari fram en ekki skriflegri staðfestingu hennar. Enginn áskilnaður sé gerður í ákvæðinu um að uppsögn geti því aðeins verið gild að hún sé skrifleg. Hafi það verið ætlun samningsaðila hefði verið skrifað í kjarasamninginn að uppsögn tæki ekki gildi fyrr en frá afhendingu skriflegs uppsagnarbréfs.

Þá bendir stefndi á að sömu reglur gildi að þessu leyti um ráðningarsamninga og uppsagnir. Gildi ráðningarsamninga hafi ekki verið dregið í efa þótt láðst hafi að ganga frá skriflegum ráðningarsamningi. Munnlegir ráðningarsamningar séu jafn skuldbindandi og skriflegir milli aðila hafi þeir sannanlega stofnast.

Ákvæði gr. 03-1 í kjarasamningum aðila eigi sér hliðstæðu í 1. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests, áður laga nr. 16/1958, sem aftur eigi sér rætur í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Efnislega samhljóða ákvæði sé að finna í kjarasamningum Vinnuveitendasambands Íslands og Verkamannafélagsins Dagsbrúnar frá árinu 1949, Verslunarmannafélags Reykjavíkur frá 1957 og fleiri samningum.

Ákvæði þessi hafi aldrei verið skilin þannig að uppsögn gæti því aðeins haft réttaráhrif að hún væri skrifleg. Ekkert komi heldur fram í skýringum með lögum nr. 19/1979, fyrri lögum nr. 16/1958 eða öðrum lögskýringargögnum að ákvæði þeirra fælu í sér breytta skipan hvað þetta varðar. Grein 03-1 í kjarasamningi aðila verði að skýra með tilliti til þessa.

Laga- og kjarasamningsákvæði um uppsagnir hafi aldrei verið skilin eða framkvæmd með þeim hætti að skrifleg uppsögn sé gildisskilyrði þeirra. Um það hafi ekki áður verið ágreiningur. Uppsagnarfrestur sé gagnkvæmur samkvæmt íslenskum rétti og uppsagnir þurfi almennt ekki að rökstyðja eða réttlæta. Verði kröfugerð stefnanda viðurkennd þá teljist uppsögn launþega ekki heldur gild nema launþeginn hafi afhent skriflegt uppsagnarbréf til atvinnurekanda síns. Með því væri gerð grundvallarbreyting á þeim venjum sem viðgengist hafa á íslenskum vinnumarkaði.

Stefnandi byggir einkum á gr. 03-1 í kjarasamningi aðila, 1. gr. laga nr. 19/1979 áður lög nr. 16/1958 og lögum nr. 63/2000 um hópuppsagnir. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr.

  

Niðurstaða

Í máli þessu gerir stefnandi þá dómkröfu "að viðurkennt verði að upphaf uppsagnarfrests 53 félagsmanna stefnanda sem sagt var upp um mánaðamótin september/október 2001 sé samkvæmt grein 03-1 í kjarasamningi aðila frá 1. nóvember 2001, næstu mánaðamótum eftir að viðkomandi bárust uppsagnarbréf stefnda Flugleiða hf. dagsett 28. september 2001."

Í lok september 2001 tók stefndi ákvörðun um að segja upp 53 félagsmönnum stefnanda ásamt tæplega 40 flugmönnum í tengslum við endurskoðun flugáætlana sem sögð var stafa af miklum samdrætti í flugi. Stefndi gerði stefnanda grein fyrir þessari ákvörðun á tveimur samráðsfundum aðilanna þann 26. og 27. september. Á síðari fundinum var rætt um að stefndi myndi hringja til þeirra félagsmanna stefnanda, sem segja átti upp, og tilkynna þeim um uppsögnina. Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að símtöl þessi áttu sér stað í kjölfar síðari fundarins eða fyrir mánaðamótin september/október.

Óumdeilt er með aðilum að allmörgum þeirra 53 félagsmanna stefnanda, sem fengu umrætt uppsagnarbréf frá stefnda, var sagt upp með skýrum hætti í nefndum símtölum. Á sama hátt er ljóst að einhverjir félagsmannanna fengu ekki vitneskju um uppsögnina fyrr en þeir fengu uppsagnarbréfið í hendur eftir mánaðamótin september/október 2001. Í málinu liggur ekkert fyrir um það hversu margir eru í hvorum hópi.

Í 5. málsl. l. mgr. greinar 03-1 í gildandi kjarasamningi aðila segir að allar ráðningar og uppsagnir skuli vera skriflegar. Byggir stefnandi kröfu sína á því að það skilyrði greinar 03-1 að uppsögn skuli vera skrifleg sé ekki aðeins formskilyrði heldur feli einnig í sér efnisskilyrði, kröfu um lágmarksskýrleika uppsagnar. Hinar skriflegu uppsagnir félagsmanna stefnanda hafi borist með ábyrgðarpósti 1. og 2. október og því taki þær fyrst gildi frá næstu mánaðamótum þar á eftir, eða frá 1. nóvember 2001. Stefndi byggir sýknukröfu sína á hinn bóginn á því að fyrrgreint ákvæði greinar 03-1 sé ekki gildisskilyrði heldur formkrafa til að tryggja sönnun þess að uppsögn hafi átt sér stað. Munnleg uppsögn sé því fullgild. Samkvæmt orðalagi greinar 03-1 sé upphaf réttaráhrifa uppsagnar tengt því hvenær uppsögn fari fram en ekki skriflegri staðfestingu hennar.

Ágreiningsefni aðila snýst í raun um það hvort munnlegar uppsagnir sem bárust ótilteknum fjölda félagsmanna stefnanda með símtölum fyrir lok september 2001 teljist gildar þannig að upphaf uppsagnarfrests þessara félagsmanna eigi að miðast við 1. október 2001.

Ákvæði 03-1 í kjarasamningi aðila um skriflegar uppsagnir verður ekki túlkað þannig að ótvíræð og viðurkennd munnleg uppsögn geti ekki haft efnisleg réttaráhrif.

Ágreiningslaust er að allmörgum félagsmönnum stefnanda var sagt upp munnlega fyrir 1. október sl., en öðrum skriflega eftir þann dag. Viðurkenningarkrafan í málinu tekur hins vegar til allra þeirra félagsmanna stefnanda sem sagt var upp án tillits til þess hvort um skriflega eða munnlega uppsögn var að ræða. Þar sem ekki er eins ástatt um alla félagsmenn stefnanda að þessu leyti er ekki unnt að taka dómkröfu stefnanda til greina, eins og hún liggur fyrir og ber því sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

  

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Samtök Atvinnulífsins f.h. Flugleiða hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h. Flugfreyjufélags Íslands, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum