Hoppa yfir valmynd
17. maí 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2004: Úrskurður frá 17. maí 2004

Ár 2004, mánudaginn 17. maí, var í Félagsdómi í málinu nr.  2/2004.                                                       

Starfsmannafélag ríkisstofnana vegna

Ragnhildar Jónsdóttur,

Kristjáns Hlöðverssonar,

Árna Tómasar Valgeirssonar,

Ágústu Björgu Kristjánsdóttur,

Ingólfs Helgasonar,

Ívars Valgarðssonar,

Guðmundar Guðjónssonar,

Hrafns Þórðarsonar,

Hildar Fjólu Antonsdóttur,

Atla Más Pálssonar,

Arnars Bergþórssonar,

Elíasar S. Sveinbjörnssonar,

Auðar Eiðsdóttur,

Svövu Gísladóttur,

Hönnu Ruthar Ólafsdóttur,

Karólínu Jóhannesdóttur,

Samúels Orra Samúelssonar,

Sigmars Ægis Bjarnasonar,

Ólafs Birgis Georgssonar,

Sverris Þórðarsonar,

Gríms Thors Bollasonar,

Hilmars Thors Bjarnasonar,

Ellýjar Kratsch,

Hauks Einarssonar,

Ólafs Lárussonar,

Róberts K. Péturssonar,

Vilhelms Páls Sævarssonar,

Sigurðar B. Kolbeinssonar,

Tryggva Baldurssonar,

Viktoriu Ottósdóttur,

Dagnýjar Erlu Gunnarsdóttur,

Arnórs Geirs Jónssonar,

Ólafs Ingólfssonar,

Hinriks Elvars Finnssonar,

Brynjólfs E. Reynissonar,

Andrésar Inga Jónssonar,

Guðjóns Arnars Guðmundssonar,

Óskars Hallgrímssonar,

Aðalsteins Thorarensen,

Sigrúnar Jóhannesdóttur,

Berglindar Þráinsdóttur,

Baldurs Vignis Karlssonar,

Þóreyjar Viðarsdóttur,

Kristínar Kristjánsdóttur og

Helga Sæmundar Helgasonar

(Gísli G. Hall hdl.)

gegn

íslenska ríkinu og

(Óskar Thorarensen hrl.)

Eflingu-stéttarfélagi

(Karl Ó. Karlsson hdl.)

kveðinn upp svofelldur

 

ú r s k u r ð u r:

 

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda Eflingar-stéttarfélags 19. apríl sl.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Guðni Á. Haraldsson og Kristján Torfason.

 

Stefnandi er Starfsmannafélag ríkisstofnana, kt. 620269-3449, Grettisgötu 89, Reykjavík, vegna Ragnhildar Jónsdóttur, kt. 060755-3619, Kristjáns Hlöðverssonar, kt. 261063-3449, Árna Tómasar Valgeirssonar, kt. 090577-4259, Ágústu Björgu Kristjánsdóttur, kt. 090667-4409, Ingólfs Helgasonar, kt. 010357-4389, Ívars Valgarðssonar, kt. 091054-3299, Guðmundar Guðjónssonar, kt. 020749-2969, Hrafns Þórðarsonar, kt. 200653-5809, Hildar Fjólu Antonsdóttur, kt. 100475-5969, Atla Más Pálssonar, kt. 080279-3539, Arnars Bergþórssonar, kt. 130373-5549, Elíasar S. Sveinbjörnssonar, kt. 200143-2729, Auðar Eiðsdóttur, kt. 150954-4529, Svövu Gísladóttur, kt. 210236-4069, Hönnu Ruthar Ólafsdóttur, kt. 130179-5179, Karólínu Jóhannesdóttur, kt. 020580-5349, Samúels Orra Samúelssonar, kt. 021079-3839, Sigmars Ægis Bjarnasonar, kt. 140648-2569, Ólafs Birgis Georgssonar, kt. 201076-5449, Sverris Þórðarsonar, kt. 230575-3639, Gríms Thors Bollasonar, kt. 120677-4549, Hilmars Thors Bjarnasonar, kt. 090761-4559, Ellýjar Kratsch, kt. 190546-2929, Hauks Einarssonar, kt. 090553-2409, Ólafs Lárussonar, kt. 110855-5679, Róberts K. Péturssonar, kt. 180861-4759, Vilhelms Páls Sævarssonar, kt. 191177-5769, Sigurðar B. Kolbeinssonar, kt. 030166-4349, Tryggva Baldurssonar, kt. 040380-5669, Viktoriu Ottósdóttur, kt. 130265-4569, Dagnýjar Erlu Gunnarsdóttur, kt. 161071-4399, Arnórs Geirs Jónssonar, kt. 301076-4019, Ólafs Ingólfssonar, kt. 280845-3889, Hinriks Elvars Finnssonar, kt. 310176-5409, Brynjólfs E. Reynissonar, kt. 141073-5169, Andrésar Inga Jónssonar, kt. 160879-3519, Guðjóns Arnars Guðmundssonar, kt. 120570-5369,  Óskars Hallgrímssonar, kt. 210982-4939, Aðalsteins Thorarensen, kt. 240566-4009, Sigrúnar Jóhannesdóttur, kt. 070562-4999, Berglindar Þráinsdóttur, kt. 171276-3149, Baldurs Vignis Karlssonar, kt. 150479-3209, Þóreyjar Viðarsdóttur, kt. 210377-4769, Kristínar Kristjánsdóttur, kt. 121179-4079 og Helga Sæmundar Helgasonar, kt. 270575-3159.

 

Stefndu eru íslenska ríkið, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík og Efling-stéttarfélag, kt. 701298-2259, Sætúni 1, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda    

  1. Stefnandi krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að Starfsmannafélag ríkisstofnana fari með samningsaðild fyrir þá við gerð kjarasamninga vegna starfa þeirra hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
  2. Að viðurkennt verði að kjarasamningur Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs, dags. 21. mars 2001, gildi um laun og kjör stefnenda frá og með 1. janúar 2004.
  3. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum samkvæmt mati Félagsdóms og að við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu stefnenda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

 

Dómkröfur stefnda íslenska ríkisins 

Stefndi gerir þær dómkröfur að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Einnig er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

 

Dómkröfur stefnda Eflingar stéttarfélags 

Þess er aðallega krafist að málinu verði vísað frá Félagsdómi, en til vara er gerð krafa um að sýknað verði af dómkröfum stefnanda.

Að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati Félagsdóms, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hver sem úrslit málsins verða.

 

Málavextir

Stefnandi lýsir atvikum svo:

Um áratugaskeið hafi almennir starfsmenn á geðdeildum ríkisspítalanna ýmist verið félagsmenn í stéttarfélagi opinberra starfsmanna, nú Starfsmannafélagi ríkisstofnana (SFR), eða átt aðild að almennu stéttarfélagi, áður Sókn, en nú Eflingu.  Störf þessa fólks hafi verið hin sömu en starfsheitin hafi verið gæslumenn innan SFR en starfsstúlka og síðar starfsmaður innan Eflingar (sjá hér HRD 1982 bls. 437).  Íslenska ríkið hafi ávallt gert kjarasamning annars vegar við SFR og hins vegar við Eflingu um störfin.  Í gildandi stofnanasamningi milli Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) og SFR um röðun starfa komi röðun gæslumanns til launaflokks fram.  Ágreiningur hafi verið milli SFR og stefndu um réttaráhrif þess að stefnendur hafi gengið úr Eflingu og gerst félagsmenn í SFR og falið því félagi kjarasamningsfyrirsvar sitt. Af hálfu SFR hafi því verið haldið fram að kjarasamningur Eflingar hafi verið bindandi um kaup og kjör stefnenda til 31.12.2003, þar til hann rann út.  Frá og með þeim tíma geti þeir hins vegar krafist kjara samkvæmt samningi þess stéttarfélags sem þeir nú tilheyra, enda hafi það gildan kjarasamning við vinnuveitandann um þau störf sem um ræðir.

Stefnendur eigi það sammerkt að vera ófaglærðir starfsmenn á geðdeildum  LSH.  Spítalinn sé ríkisstofnun og starfsmenn hans ríkisstarfsmenn, sem m.a. njóti réttinda og beri skyldur samkvæmt lögum nr. 70/1996.  Starfsmennirnir voru félagsmenn í Eflingu-stéttarfélagi (Eflingu) allt til 1. október 2003.  Með framlögðum yfirlýsingum þeirra, dags. 29. september 2003, sem tilkynntar voru stefndu, sögðu þeir sig úr félaginu og gengu í SFR frá og með 1. október 2003.         

Með bréfi LSH til starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, dags. 13. október 2003, var skrifstofunni tilkynnt um framangreinda breytingu á stéttarfélagsaðild starfsmannanna og óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til hennar.  Fram kom í bréfinu að stefnendur vænti þessi að LSH muni um áramótin 2003/2004 breyta stéttarfélagsaðild þeirra í launabókhaldi og að launa- og starfskjörum þeirra verði breytt til samræmis við kjara- og stofnanasamning SFR.

Með bréfi SFR til LSH, dags. 17. desember 2003, er einnig tilkynnt um hina breyttu félagsaðild stefnenda og að tilgreindir starfsmenn hafi falið SFR kjarasamningsfyrirsvar fyrir sig, sbr. 4. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Samkvæmt því eigi þeir rétt á að fá greidd laun samkvæmt kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs frá og með 1. janúar 2004.

Í bréfi LSH til starfsmanna, dags. 19. desember 2003, en því fylgdi umsögn starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um málið, dags. 22. október 2003, kemur fram sú afstaða að bréf starfsmanna til Eflingar og SFR með ósk um breytta félagsaðild, breyti ekki forsendum ráðningarsamninga þeirra við LSH. Á meðan svo sé verði ráðningarkjör þeirra áfram miðuð við kjarasamning Eflingar, eins og verið hafi.  Meðal þess sem fram komi í bréfinu sé að vinna sé hafin við endurskoðun / endurnýjun á starfslýsingum á geðdeildum.  Afstaða LSH sé nánar tiltekið rökstudd þannig, orðrétt:

Eins og fram kemur í bréfinu er það afstaða ráðuneytisins að greina verði milli þeirrar ákvörðunar starfsmanna að tiltaka hvaða stéttarfélagi þeir vilja tilheyra og þess hvaða forsendur liggja til grundvallar ráðningu þeirra til starfa.  Það er afstaða ráðuneytisins og jafnramt LSH að þó svo að starfsmenn segi sig úr einu stéttarfélagi og sæki um aðild að öðru þá leiði það ekki eitt og sér til þess að þær forsendur sem þeir voru ráðnir út frá breytist.  Gengið var út frá því við ráðningu þeirra starfsmanna, sem um er að ræða, að um laun og önnur ráðningarkjör færi samkvæmt kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags.  Um þetta eru skýr ákvæði í ráðningarsamningum aðila.

 

Sama afstaða og rökstuðningur komi fram í svarbréf LSH til SFR, dags. 22. desember 2003.        

Stefnendur sætta sig ekki við þessa afstöðu LSH og telja hana ólögmæta.  Er mál þetta höfðað af því tilefni vegna hlutaðeigandi starfsmanna, sem nú eru félagsmenn í SFR.

 

Dómsvald Félagsdóms og aðild stefndu

Stefnendur kveða mál þetta lúta dómsvaldi Félagsdóms á grundvelli 1. tl. 1. mgr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Samkvæmt því heyri það undir dómsvald Félagsdóms m.a. að dæma um ágreining er lúti að samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nái.

Um aðild íslenska ríkisins til varnar vísa stefnendur til þess að LSH sé ríkisstofnun og starfsmenn, sem kröfugerðin taki til, séu ríkisstarfsmenn.  Framlagður kjarasamningur SFR og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs taki til starfa þeirra.

Eflingu sé einnig stefnt, þannig að félagið verði bundið af málsúrslitum.

 

Málsástæður stefnanda

Stefnendur byggja á eftirtöldum málsástæðum og lagarökum:

Stefndu sé óheimilt að hafa afskipti af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna.  Í því felist að stefnendur verði ekki þvingaðir til þátttöku í öðru stéttarfélagi en þeir kjósi sjálfir.  Þessi regla verði leidd af félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hafi beint lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 62/1994.  Einnig er vísað til meginreglunnar um samningsfrelsi.  Starfsmaður verði ekki þvingaður til að fá stéttarfélagi, sem hann hafi sagt sig úr og vilji ekki vera í, umboð til að gera kjarasamninga fyrir sig, án skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar, sbr. forsendur Félagsdóms í máli nr. 9/1999.  Þess háttar lagaheimild sé ekki fyrir hendi.      

SFR sé stéttarfélag opinberra starfsmanna í skilningi laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  SFR fari með samningsaðild fyrir félagsmenn sína samkvæmt ákvæðum 4.-6. gr. laganna.  Meðal félagsmanna séu nú þeir starfsmenn sem mál þetta sé höfðað fyrir.  Vakin er athygli á að samkvæmt þessum lagaákvæðum eigi stéttarfélög opinberra starfsmanna rétt til samningsaðildar fyrir félagsmenn sína.  Í reglunni felist að ríki og sveitarfélögum sé skylt að gera kjarasamninga við félögin vegna félagsmanna þeirra sem hjá þeim starfa, að uppfylltum almennum skilyrðum.  Í gildi sé og hafi verið kjarasamningur milli SFR og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs sem m.a. taki til starfsmannanna sem þetta mál sé höfðað fyrir.

Efling sé stéttarfélag, sem starfi samkvæmt lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.  Kjarasamningur félagsins við íslenska ríkið hafi runnið út 31. desember 2003.  Í 2. málsgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 felist m.a. að vinnuveitandi sé ekki bundinn af því að semja við sama stéttarfélag sem starfi samkvæmt lögunum nema út samningstíma (sjá dóm Félagsdóms í máli nr. 9/1999).  Starfsmennirnir, sem mál þetta snúist um, höfðu sagt sig úr Eflingu með gildum hætti áður en kjarasamningurinn rann út.  Með því að samningurinn rann út hætti hann að vera skuldbindandi fyrir starfsmennina samkvæmt þessu ákvæði.

Stefnendur mótmæla afstöðu íslenska ríkisins og LSH til málsins, sem gerð hafi verið grein fyrir.  Því er mótmælt að það hafi verið forsenda eða skilyrði ráðninga starfsmannanna, sem um ræðir, að þeir myndu vera í Eflingu um ókomna tíð og þannig takmarka frelsi sitt til að kjósa sér stéttarfélag og fela því kjarasamningsfyrirsvar.  Stefnendur telja að stefndi beri sönnunarbyrði um þetta, auk þess sem honum beri þá að sýna fram á að starfsmennirnir hafi undirgengist þess háttar afarkosti og verið kunnugt um forsenduna.  Bent er á að það tíðkist í ráðningarsamningum almennt að tilgreina stéttarfélag og eftir hverjum kjarasamningi skuli farið. Í reglum nr. 351/1996, settum af fjármálaráðherra, um form ráðningar- samninga og skyldu til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör, settum með heimild í 42. gr. laga nr. 70/1996, komi m.a. fram að ráðningarsamningur skuli vera skriflegur m.a. um stéttarfélag.  Í stöðluðum ráðningarsamningi ríkisstarfsmanna, sem sé að finna á heimasíðu fjármálaráðuneytisins sé afmarkaður reitur fyrir tilgreiningu á stéttarfélagi.  Stefnendur telja að tilgreining á þessum atriðum í ráðningarsamningum beri að túlka þröngt og starfsmanni í hag og þar með ekki þannig að í þeim felist takmörkun á rétti starfsmannsins til að kjósa nýtt stéttarfélag síðar með þeim réttaráhrifum, sem lög kveði á um.

Fari svo að stefnda takist með einhverjum hætti að sýna fram á að starfsmennirnir, einn eða fleiri, hafi lýst yfir takmörkun á frelsi sínu til að skipta um stéttarfélag og fela nýju félagi kjarasamningsfyrirsvar fyrir sig, er því loks haldið fram að líta bæri fram hjá þess háttar yfirlýsingu.  Hún teldist andstæð ófrávíkjanlegum ákvæðum laga nr. 94/1986 og 80/1938, sem vísað hafi verið til.  Þá stæðist hún ekki jafnræðisreglu stjórnsýluréttar, þar sem fyrir er í SFR fjöldi félagsmanna, sem vinna sömu störf og margumræddir starfsmenn, m.a. hjá LSH, án þess að ríkið eða LSH hafi áskilið sér við ráðningu þeirra að stéttarfélagsaðild þeirra og kjarasamningsfyrirsvar yrðu óbreytanleg þaðan í frá.

Krafa um að viðurkennt verði að núgildandi kjarasamningur SFR og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs gildi um laun og kjör stefnenda frá og með 1. janúar 2004 byggist á sömu málsástæðum og lagarökum og fyrstnefnda krafan.  Stefnendur hafi tilkynnt úrsögn sína úr Eflingu og inngöngu í SFR með gildum hætti áður en kjarasamningur fyrrnefnda félagsins varð laus 1. janúar 2004.  Kjarasamningur SFR, sem vísað er til í kröfugerðinni, sé í gildi.  Um lagastoð fyrir kröfunni er vísað til grunnreglu 2. málsgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sem einnig eigi sér stoð í 4. málsgr. 6. gr. laga nr. 94/1986.  Einnig er vísað til dóma Félagsdóms í málum nr. 18/1998 og 9/2001.  

Málskostnaðarkrafa styðst við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeildur.

Stefndi er ósammála stefnanda um að störf starfsfólks í Eflingu annars vegar og hjá SFR hins vegar séu þau sömu. 

 

Málsástæður stefnda Eflingar stéttarfélags vegna frávísunarkröfu

Til stuðnings frávísunarkröfu stefnda er á því byggt að aðild málsins sé haldin þeim annmörkum að vísa beri málinu frá Félagsdómi. Stefndu í máli þessu sé íslenska ríkið og Efling-stéttarfélag. Samkvæmt 1. gr. laga Eflingar-stéttarfélags sé félagið aðili að Starfsgreinasambandi Íslands sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, skulu sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekendafélaga reka fyrir hönd meðlima sinna mál fyrir Félagsdómi. Sé hér um að ræða lögboðna aðildarreglu sem ekki verði hvikað frá, nema í þeim undantekningartilvikum sem getið sé um í 2. mgr. 45. gr. laganna. Með því að aðildarreglunni sé ekki fullnægt sé gerð krafa um að málinu verði vísað frá Félagsdómi. Í þessu sambandi er vísað til dóms Félagsdóms í málinu nr. 6/1944 og úrskurðar Félagsdóms í málinu nr. 4/2001. Vísa verði málinu frá í heild sinni þar sem efnisdómur verði ekki felldur í málinu í því sakarefni sem stefnandi hafi lagt fyrir Félagsdóm án aðildar ASÍ f.h. Starfsgreinasambands Íslands og Eflingar-stéttarfélags. Vísað er hér um til úrskurðar Félagsdóms í málinu nr. 9/1998. Í þessu sambandi sé af hálfu stefnda Eflingar-stéttarfélags lögð sérstök áhersla á að mál þetta varði nefnd heildarsamtök launþega miklu og þá sér í lagi Starfsgreinasamband Íslands, þar sem sambandið standi í kjarasamningsviðræðum við ríkið um heildstæðan kjarasamning fyrir landið allt vegna heilbrigðisstofnana, þ.á m. um starfsemi félagsmanna stefnda Eflingar-stéttarfélags á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi.

Í stefnu komi fram að stefnandi málsins sé Starfsmannafélag ríkisstofnanna f.h. 45 nafngreindra einstaklinga. Í málinu liggi ekkert fyrir um að stefnandi reki málið í skjóli umboðs frá þeim 45 einstaklingum sem krafist sé samningsréttar fyrir. Ljóst sé að a.m.k. einn af þessum einstaklingum, Óskar Hallgrímsson, kt. 210982-4939, hafi dregið úrsögn sína úr Eflingu-stéttarfélagi til baka  og það löngu áður en mál þetta var höfðað. Sé þannig vandséð að umboð liggi fyrir frá þeim einstaklingi til málshöfðunarinnar. Ætla verði að eins kunni að vera ástatt um fleiri af þeim aðilum sem nafngreindir séu sem stefnendur málsins. Stefnandi þurfi því að leggja fram málsóknarumboð eða leiða starfsmennina fyrir dóm til sönnunar á því hverjir standi að baki málsókninni. Að auki sé ljóst að Starfsmannafélag ríkisstofnana hafi kosið að höfða ekki mál fyrir hönd allra þeirra starfsmanna á geðdeildum Landspítala Háskólasjúkrahúss sem sögðu sig úr Eflingu-stéttarfélagi og óskuðu inngöngu í Starfsmannafélag ríkisstofnana og sé sú afstaða óútskýrð. Verði að telja að málatilbúnaður stefnanda sé af þessum sökum haldinn slíkum annmörkum að vísa beri málinu frá dómi.

Af hálfu stefnda er sérstaklega á því byggt að því er varðar 2. tölul. í stefnukröfu að krafan sé ódómtæk og því beri að vísa henni frá dómi. Í málinu liggi fyrir að ráðningarsamningum þeirra 45 nafngreindu einstaklinga og stefnenda í málinu gagnvart ríkinu vegna starfa þeirra hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi hafi ekki verið sagt upp. Jafnframt liggur fyrir að kjarasamningar Starfsmannafélags ríkisstofnana og ríkisins séu ekki lausir. Fái það ekki staðist að þess sé krafist að gerðir kjarasamningar verði útvíkkaðir með dómi á miðju samningstímabili. Stefndi ríkið sé bundið af ráðningarsamningum sem ekki hafi verið sagt upp með formlegum hætti. Ríkið sé ennfremur bundið af samningum sínum við Eflingu-stéttarfélag, þ.m.t. forgangsrétti félagsmanna Eflingar-stéttarfélags til starfanna. Verði gengið að kröfum stefnenda feli niðurstaðan í sér að ríkinu verði gert að vanefna samninga sína við Eflingu-stéttarfélag. Störf þau sem stefnandi Starfsmannafélags ríkisstofnana krefjist nú samningsréttar um hafi verið og séu á samningssviði Eflingar-stéttarfélags. Breyting þar á verði ekki gerð með dómi, heldur kalli slíkt á gagnkvæma samninga. Í málinu liggi fyrir að stéttarfélagsaðild starfsmannanna/stefnenda sé skilgreind í ráðningar- samningi hvers og eins þeirra. Um störf þeirra fari samkvæmt kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags við ríkið.            

Af stefnu verði helst ráðið að málsókn gegn stefnda Eflingu-stéttarfélagi sé byggð á ákvæðum laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Slíkt standist ekki, enda grundvallist kjarasamningar félagsmanna Eflingar-stéttarfélags á ákvæðum laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. og ákvæði laga nr. 19/1979. Í 3. tölul. 1. mgr. 1. gr.  laga nr. 94/1986, sé sérstaklega tekið fram að ákvæði laganna taki ekki til þeirra starfsmanna ríkisins þar sem kaup og kjör fari eftir lögum 80/1938 eða 19/1979. Málsókn fyrir Félagsdómi á hendur Eflingu-stéttarfélagi verði þannig ekki byggð á ákvæðum laga nr. 94/1986. Málsókn á hendur Eflingu-stéttarfélagi verði heldur ekki grundvölluð á ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, heldur einvörðungu á ákvæðum laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. 

   

Rökstuðningur stefnanda gegn frávísunarkröfu

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda Eflingar-stéttarfélags verði hafnað. Stefnandi byggir á því að aðildarregla 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 eigi ekki við þar sem málið sé rekið á grundvelli laga nr. 94/1986.  Þá byggir stefnandi á því að ekki þurfi sérstök umboð til málshöfðunarinnar þar sem 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986 feli í sér sérstakt málssóknarumboð.  Krafa stefnanda samkvæmt 2. tl. varði efnisatriði, sem ekki geti leitt til frávísunar. 

Stefndi, íslenska ríkið, tekur undir frávísunarástæðu að því er tilgreinda einstaklinga varðar, en styður ekki málsástæður stefnda Eflingar-stéttarfélags um frávísun að öðru leyti.

   

Niðurstaða

Af hálfu stefnda, Eflingar-stéttarfélags, er þess krafist að málinu verði vísað frá Félagsdómi, í fyrsta lagi sökum þess að ekki hafi verið gætt lögboðinnar aðildarreglu 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með því að Alþýðusambandi Íslands fyrir hönd Starfsgreinasambands Íslands vegna stéttarfélagsins hafi ekki verið stefnt. Samkvæmt 1. gr. félagslaga sinna sé stéttarfélagið aðili að Starfsgreinasambandi Íslands er sé aðili að Alþýðusambandi Íslands.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 reka sambönd verkalýðsfélaga  og atvinnurekendafélaga fyrir hönd meðlima sinna mál fyrir Félagsdómi. Félög, sem ekki eru meðlimir sambandanna, reka sjálf mál sín og meðlima sinna. Ófélagsbundnir aðilar reka mál sín sjálfir. Í 2. mgr. lagagreinar þessarar er tekið fram að ef samband eða félag neitar að höfða mál fyrir meðlimi sína sé aðila heimilt að höfða málið sjálfur, en leggja skuli hann fram sönnun um synjun félags eða sambands fyrir formann Félagsdóms áður en stefna er gefin út. Í athugasemdum með 45. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 80/1938, kemur fram að hagkvæmnisrök um færri mál og betri málfærslu hafi ráðið því að aðildarregla þessi var lögfest.  Sjónarmið stefnda um mikilvægi þess að heildarsamtök stéttarfélagsins eigi aðild að málinu renna því ekki sérstökum stoðum undir aðildarregluna.     

Mál þetta varðar samningsaðild stefnanda vegna tilgreindra starfsmanna Landspítala-háskólasjúkrahúss. Starfsmenn þessir voru áður félagsmenn í stefnda Eflingu-stéttarfélagi en hafa sagt sig úr því félagi og orðið félagsmenn í stefnanda Starfsmannafélagi ríkisstofnana. Þeir eru því nú, óháð því hvaða kjarasamningur gildir um kjör þeirra, félagsmenn í stéttarfélagi, sem á undir lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Samkvæmt 1. gr. laganna gilda þau um félagsmenn slíkra félaga.  Málið á undir Félagsdóm samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, þar sem svo er mælt fyrir að Félagsdómur dæmi í málum sem rísa á milli samningsaðila um samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nær. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986 reka stéttarfélög mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi. Í lögum nr. 94/1986 er því ekki fyrir að fara hliðstæðri reglu um lögboðna aðild og greinir í 45. gr. laga nr. 80/1938. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður málinu ekki vísað frá Félagsdómi á þeim grundvelli að lögboðinnar aðildar hafi ekki verið gætt.                       

Í öðru lagi ber stefndi, Efling-stéttarfélag, því við til stuðnings frávísunarkröfu sinni að ekki liggi fyrir að stefnandi reki málið í umboði hinna 45 tilgreindu einstaklinga. Hefur stefndi, íslenska ríkið, tekið undir þá frávísunarástæðu. Með vísan til þess að 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986 felur í sér lögbundið málsóknarumboð til handa þeim stéttarfélögum sem lögin taka til verður málinu ekki heldur vísað frá á þessum grundvelli.         

Í þriðja lagi teflir hið stefnda stéttarfélag því að auki fram, að því er tekur til 2. liðar í dómkröfum stefnanda varðandi viðurkenningu á gildi tilgreinds kjarasamnings frá ákveðnu tímamarki fyrir greinda starfsmenn, að sá liður sé ódómtækur af tilgreindum ástæðum og því beri að vísa þeirri kröfu frá dómi. Verður að taka undir það með stefnanda að hér sé um að ræða atriði sem varða efnisþátt málsins. Verður þessum þætti málsins því ekki sérstaklega vísað frá dómi.

Samkvæmt framansögðu er frávísunarkröfum stefnda, Eflingar-stéttarfélags, hafnað. Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu.

  

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Frávísunarkröfu stefnda, Eflingar-stéttarfélags, er hafnað.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu. 

  

  

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Guðni Á. Haraldsson

Kristján Torfason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum