Hoppa yfir valmynd
7. mars 1977 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 7. mars 1977.

Ár 1977, mánudaginn 7. mars, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

             Dánarbú Leifs Helgasonar
               Eskifirði
                  gegn
               Eskifjarðarkaupstað

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 12. ágúst 1976 hefur Níels Ingvarsson f.h. db. Leifs Helgasonar og frú Helgu Pálsdóttur, Strandgötu 7 a, Eskifirði en hún er ekkja Leifs Helgasonar og situr í óskiptu búi, krafist eignarnámsmats á lóðinni nr. 27 við Bleiksárhlíð, Eskifirði, en stærð lóðarinnar er talin 702 m² og er lóðin merkt á uppdrætti, sem liggur frammi í málinu.

Eignarnámsþoli sem byggir kröfu sína á 6. gr. l. nr. 11/1973 kveður málsatvik þau, að þann 28. maí 1972 hafi Eskifjarðarkaupstaður leigt lóð þessa gegn mótmælum Helgu Pálsdóttur. En vegna þess að þá hafi verið rekið vettvangsmál fyrir dómi um eignarheimild að lóðinni þá hafi fyrirsvarsmaður dánarbúsins ekki talið tímabært að fylgja mótmælum sínum eftir með fógetagerð af ótta við að því máli kynni að verða vísað frá. En þar sem nú sé genginn dómur í nefndu vettvangsmáli sé ekkert því til fyrirstöðu, að leita fullra bóta fyrir lóðina, en mat á henni sé nauðsynlegur undanfari þeirrar bótakröfu.

Þá krefst eignarnámsþoli, að Eskifjarðarkaupstaður greiði allan kostnað við mat þetta, svo og málskostnað og annan kostnað eftir reikningi, sem af matsmálinu leiði.

Eignarnámsþoli hefur lagt fram í máli þessu, mskj. nr. 2, ljósrit af grunnleigusamningi dags. 28. maí 1972, þar sem sveitarstjóri Eskifjarðarhrepps f.h. hreppsins leigir Skúla Magnússyni lóðina nr. 27 við Bleiksárhlíð á Eskifirði og er lóðin talin í samningnum 702 m² að stærð. Leigutíminn er 25 ár en leigutaki á rétt á að fá framlengingu samningsins að þeim tíma liðnum.

Eignarnámsþolinn í þessu máli, Helga Pálsdóttir, Fögruhlíð, Eskifirði situr í óskiptu búi eftir látinn eiginmann sinn Leif Helgason, er síðast bjó að Fögruhlíð.

Fram er lagt í matsmáli þessu endurrit af dómi uppkv. 5. ágúst 1976 í vettvangsmálinu: Einar J. Snædal gegn Helgu Pálsdóttur persónulega og f.h. db. Leifs Helgasonar og til réttargæslu Eskifjarðarkaupstað. Í máli þessu gerði Einar J. Snædal m.a. þær dómkröfur, að viðurkenndur verði eignarréttur hans að landspildu að grunnfleti 7019 m² og er spilda þessi í því máli auðkennd sem "kúahaginn". Stefnda í máli þessu Helga Pálsdóttir fyrir sína hönd og db. Leifs Helgasonar krafðist þess aðallega, að viðurkenndur yrði eignarréttur stefnda að spildu þeirrar er dómkrafa stefnanda tæki til en til vara, var krafist sýknu af öllum kröfum sóknaraðila. Ekki er ástæða til í þessu matsmáli, að rekja nánar hinar löngu forsendur þessa undirréttardóms en niðurstaða hans var sú, að stefnda Helga Pálsdóttir átti að vera sýkn af dómkröfum stefnandans Einars J. Snædal í málinu. Jafnframt var stefnanda Einari J. Snædal gert að greiða Helgu Pálsdóttur kr. 130.000.- í málskostnað.

Dóm þennan kvað upp Már Pétursson, héraðsdómari og meðdómsmennirnir Böðvar Bragason og Árni Jónsson.

Hinn 20. júní 1975 var í Matsnefnd eignarnámsbóta kveðinn upp úrskurður í matsmálinu: Sveitarstjórn Eskifjarðarhrepps gegn db. Leifs Helgasonar, Eskifirði, en í því máli krafðist eignarnemi eignarnámsmats á 4062 m² lands, er hann taldi sig þurfa að taka eignarnámi vegna skipulagsframkvæmda. Skipulagsuppdráttur hafði þá verið gerður af Eskifjarðarkauptúni og skipulagið staðfest svo sem skipulagslög nr. 19/1964 mæla fyrir. Eignarnámsheimild sína í því matsmáli byggði eignarnemi á 28. gr. l. nr. 19/1964. Miklar deilur risu milli aðilanna í þessu matsmáli en Matsnefndarmenn töldu ekki rök fyrir því, að framkvæma eignarnámsmat á stærra landi en því, sem eignarnemi hafði beðið um eignarnámsmat á, eða 4062 m² lands. Nánari upplýsingar um málefni þetta koma fram í forsendum umrædds úrskurðar Matsnefndar eignarnámsbóta, svo og í forsendum áðurgreinds vettvangsdóms frá 5. ágúst 1976 og þykir rétt að vísa til þess, sem þar greinir.

Eignarnámsþoli skýrir svo frá, að eignarnemi hafi ekki enn greitt bætur þær, er úrskurðaðar hafi verið með matsgerð Matsnefndarinnar dags. 20. júní 1975 fyrir nefnda landspildu að stærð 4062 m². F.h. bæjarsjóðs Eskifjarðar hefur Guðmundur Ingvi Sigurðsson, hrl. flutt mál þetta fyrir Matsnefndinni. Kröfur varnaraðila í málinu eru aðallega, að máli þessu verði vísað frá Matsnefndinni en til vara, að varnaraðili verði sýknaður. Hver sem úrslit málsins verða fyrir nefndinni krefst varnaraðili, að sóknaraðila verði gert að greiða óskipt varnaraðila málskostnað eftir mati Matsnefndarinnar. Lögmaður Eskifjarðarbæjar tekur fram, að eins og grunnleigusamningurinn beri með sér þá telji bæjarsjóður sig eiga umrædda lóð. Eignarheimild sína byggi bæjarsjóður á afsali dags. 21.12.1944, sem lagt er fram í máli þessu, sem mskj. nr. 7. Um sjónarmið bæjarsjóðs Eskifjarðar varðandi eignarrétt hans að landinu vísar lögmaðurinn að öðru leyti til dómsforsendanna í vettvangsmálinu. Kveður hann að niðurstaða dóms vettvangsdóms Eskifjarðar hafi verið sú, að krafa Helgu Pálsdóttur um viðurkenningu á eignarrétti hennar hafi ekki verið tekin til greina. Telur lögmaður varnaraðila í málinu það algert skilyrði til þess að aðili geti snúið sér til Matsnefndar eignarnámsbóta með beiðni um mat, að hann eigi þá eign, sem taka eigi, eða tekin hafi verið eignarnámi og að ekki leiki minnsti vafi á um eignarréttinn, þ.e. að aðili sé raunverulegur eignarnámsþoli, en eignarnámsþoli sé skv. skilgreiningu 1. gr. l. nr. 11/1973 sá sem sé eigandi verðmætis, sem eignarnám beinist að. Sóknaraðilar í þessu máli séu þannig engir aðilar og geti ekki verið aðilar í eignarnámsmáli varðandi þessa lóð, þar eð þeir hafi ekki sannað eignarrétt sinn til lóðarinnar. Jafnframt tekur lögmaður varnaraðila það fram, að það sé ekki hlutverk Matsnefndarinnar að skera úr um ágreining um eignarrétt að landi. Matsnefndin færi út fyrir valdsvið sitt ef hún gerði það. Málið eigi því að sæta frávísun þar eð það heyri ekki undir valdsvið Matsnefndarinnar. Í 68. gr. einkamálalaga nr. 85/1936 segi, að dómari eigi að vísa máli frá, ef hann telji málið eiga að sæta úrlausn annars dómstóls. Kveðst hann byggja frávísunarkröfu sína á þessum sjónarmiðum. Varakröfu sína kveðst lögmaður varnaraðila hins vegar byggja á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 45. gr. l. nr. 85/1936. Sóknaraðilar geti ekki verið aðilar máls fyrir Matsnefndinni nema þeir eigi þau verðmæti, sem taka skuli eða tekin hafi verið eignarnámi. Á fundi Matsnefndarinnar 19. nóv. 1976 óskaði lögmaður sóknaraðila að eftirfarandi yrði bókað: "Með tilliti til þess að lóðin nr. 27 við Bleiksárhlíð, sem beðið hefur verið um mat á lítur sömu eignarheimild og sá hluti "Kúhagans" sem tekin var eignarnámi með úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta dags. 20. júní 1975 þykir mér fullar sönnur á það færðar, að umbj. m. geti átt rétt til eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 fyrir lóðina nr. 27 við Bleiksárhlíð."

Sýknukröfu varnaraðila mótmælir umboðsmaður sóknaraðila sérstaklega með tilliti til sameiginlegs álits málsaðilanna um að nefndin eigi ekki að skera úr eignarrétti að landi, svo og vegna þess, að bótakrafa sé ekki komin fram og verði lögð fyrir annan dómstól. Of snemmt sé að krefjast sýknu af kröfu, sem ekki sé komin fram. Kröfu varnaraðila um málskostnað mótmælir hann algerlega og vísar í því efni til 11. gr. laga nr. 11/1973 og þeirrar staðreyndar, að varnaraðili gerði engar kröfur um eignarrétt á lóðinni í vattvangsmálinu, sem nefnt hefur verið hér að framan. Umboðsmaður sóknaraðila kveður eignarheimild til umbjóðenda sinna fyrir lóðinni nr. 27 við Bleiksárhlíð, svo og fyrir þeim hluta kúahagans, sem tekin hafi verið eignarnámi 20/6 ´75 vera eftirfarandi:

   1) Leigusamning dags. 7. febr. 1940
   2) Afsal dags. 22. mars 1945 og
   3) 36 ára gamla hefð.

Land það, sem tekið hafi verið eignarnámi 20. júní 1975 hafi verið úr Kúahaganum og að mati nefndarinnar kr. 44.000.- til 45.000.- króna virði.

Varðandi verð lóða á þessum slóðum nú, sé þess að gæta, að verð hafi hækkað mjög á síðustu árum og fari stöðugt hækkandi. Þá hafi sóknaraðilar, ekki haft nein not eða afrakstur lóðarinnar frá 28. maí 1972. Lóðin sé í miðju túni og hafi ekki verið girt, en mikill kostnaður muni verða við það að girða lóðina. Að lokum leggur sóknaraðili áherslu á, að mat á lóðinni verði hátt og telur hann að kr. 250.- á fermetra svari til eldri verðákvarðana.

II.

Matsnefndin hefir áður metið 6 lóðir á þessu svæði. Hefir nefndin einnig farið á vettvang og skoðað það land, sem hér ræðir um, og er nefndinni því kunnugt um gæði þess og legu. Sátt var reynd í málinu en árangurslaust.

Samkvæmt framangreindu hefir Eskifjarðarbær ráðstafað landi því, sem hér um ræðir, 702 m² hinn 28. maí 1972. Með hliðsjón af því, verður að telja sóknaraðila heimilt, að beiðast mats á landspildu þessari, skv. 6. gr. laga nr. 11/1973. Ágreiningur er hins vegar um eignarrétt að landinu, eins og rakið hefir verið, en með hliðsjón af málavöxtum og upplýsingum þeim, sem fyrir hendi eru, telur Matsnefndin að téður ágreiningur sé ekki því til fyrir stöðu, að mat verði nú ákveðið á landspildunni. Verður frávísunarkrafa varnaraðila því ekki tekin til greina.

Land þetta er gróið tún. Kaupstaðurinn er skipulagsskyldur og skipulag verið staðfest fyrir hann, lögum samkvæmt.

Eins og áður segir, hefir Matsnefndin áður metið 6 lóðir í kaupstaðnum, og því kynnt sér eftir föngum þau atriði, sem áhrif hafa á verðmæti lóða á þessum stað.

Nefndin telur, að girðingar um lóðina eigi að fara eftir 4. gr. girðingalaga frá 25/3 1965 og byggingarsamþykkt kaupstaðarins og verður því ekki í þessu máli metin kostnaður við girðingu um landið.

Lóðin nr. 27 er á fallegum stað og verður hér metin sem byggingarlóð. Þegar tekið er tillit til verðs á nálægum lóðum, svo og verðbreytinga þeirra, sem orðið hafa undanfarin ár, og annars sem nefndin telur máli skipta, telja matsmenn hæfilegt verð á landi þessu kr. 200.- fyrir hvern fermetra, eða samtals kr. 140.400.- og er þá miðað við staðgreiðslu.

Samkvæmt meginreglu 67. gr. stjórnarskrárinnar sbr. 11. gr. laga nr. 11/1973, þykir rétt, að Eskifjarðarkaupstaður greiði sóknaraðila kr. 20.000.- í málskostnað.

Þá er rétt að Eskifjarðarkaupstaður greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. l. nr. 11/1973 kostnað af starfi Matsnefndar eignarnámsbóta kr. 60.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson hrl. formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Verð lóðarinnar nr. 27 við Bleiksárhlíð, 702 m², telst hæfilega metið á kr. 140.400.-

Eskifjarðarkaupstaður greiði dánarbúi Leifs Helgasonar kr. 20.000.- í málskostnað.

Eskifjarðarkaupstaður greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndar kr. 60.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum