Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 1977 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 30.9.1977

Ár 1977, þriðjudaginn 30. ágúst, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973, tekið fyrir matsmálið:

                  Eggert Gunnarsson,
                  Guðni Kristinn Gunnarsson,
                  Guðmunda Gunnarsdóttir og
                  Gunnar M. Jónsson
                     gegn
                  Vestmannaeyjabæ

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 31. mars 1977 hefur Jón Hjaltason, hrl., f.h. Eggerts Gunnarssonar, Guðna Kristins Gunnarssonar og Guðmundu Gunnarsdóttur farið þess á leit með vísan til 6. gr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, að metnar verði lögboðnar bætur úr hendi Vestmannaeyjakaupstaðar fyrir töku kaupstaðarins á túnum þeirra við Ofanleitishamar í Vestmannaeyjum. Er svo frá skýrt, að í eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973 hafi vikri verið ekið á túnin og m.a. lagður vegur yfir fallegasta blettinn, en túnin verið öll vel ræktuð. Hafi verið farið fram á það, að vikurinn yrði fjarlægður úr túnunum, en með fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja, 7. jan. 1973 hafi því erindi verið svarað þannig: "Þar sem umrætt tún hefur verið tekið undir skipulag sbr. samþykkt bæjarstjórnar 20. júlí 1973 og eigendum tilkynnt þar um og boðnar bætur fyrir samþykkir bæjarráð að synja beiðninni." Þrátt fyrir þessa staðhæfingu hafi bætur ekki verið boðnar fyrir eignartöku þessa og standi svo enn í dag.

Eftir þetta hafi Vestmannaeyjakaupstaður án samráðs við rétthafa túnanna veitt húsbyggjendum lóðarsamninga úr túnum þessum og séu þar risin nokkur hús. Tún þau, sem hér um ræðir séu nr. 178, 180 og 201, hið fyrstnefnda merkt á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands XVC, hið næsta auðkennt á sama uppdrætti XIVC, hvort að stærð 20.000 m² og hið síðasttalda sé viðbótarspilda við framangreinda túnsamninga 3000 m² að flatarmáli. Fyrir túnum þessum öllum séu erfðafestusamningar.

Þar sem Vestmannaeyjakaupstaður hafi ekki fengist til að bæta umrædda eignartöku né til að hafa frumkvæði um eignarnámsmat, þótt bæjarfélagið hafi tekið túnin með valdi af rétthöfum, sé sú ein leið skv. 6. gr. laga um framkvæmd eignarnáms, að beiðast eignarnámsmats. Sé þá jafnframt rétt að hafa hliðsjón af 8. gr. erfðafestusamninganna og þar greind fjárhæð kr. 2.500.- fyrir hektara, er samningarnir voru gerðir 1930, reiknaðir til eðlilegs verðlags í dag. Ennfremur verði sér metin mannvirki, þ.e. steinsteypt for og mannhæðarhár grjótgarður, sem hafi verið allt í kringum túnin. Eftir töku kaupstaðarins á túnunum hafi garður þessi verið fjarlægður að hluta og öðrum stöðum eyðilagður.
Í beiðni sinni hafði umboðsmaður eignarnámsþola aðeins beðið um mat fyrir þau Eggert, Guðna Kristinn og Guðmundu en í greinargerð sinni 18. ág. 1977 bætti við kröfugerð fyrir eignarnámsþolann Gunnar M. Jónsson, sem sé einn af matsþolum, eftir þeim gögnum, sem fram hafi komið í málinu.

Bent er á í greinargerð, að ósamræmi sé milli þeirra tveggja samningseintaka að túni nr. 201, sem fram séu lagðir við matið. Þinglýsta eintakið hljóði um 3000 m², en eintak framlagt af Vestmannaeyjakaupstað hljóði upp á 3200 m². Í afsali Árna Jónssonar dags. 23. apríl 1935 sé gert ráð fyrir 3000 m² stærð á þessum túnskika og sé sú stærð þess vegna lögð til grundvallar af eignarnámsþolum.

Samkvæmt þessu segir í greinargerð, sé stærð landsins, sem eignarnámið beinist að:
Tilheyrandi Eggert, Guðna og Guðmundu, stærð    26.500   m²
"   Gunnari M. Jónssyni    "   6.500    "   
         Samtals   33.000   m²

Beiðast eignarnámsþolar þannig mats á erfðafesturéttindum til hálfs túns nr. 180, vestari hluta þess túns, alls túns nr. 178 og alls túns nr. 201.

Lögmaður eignarnámsþola heldur því fram í greinargerð sinni, að hér komi ekki til álita sjónarmið í hæstaréttardómi 23.6.1972, enda hafi í því máli farið fram bæði undirmat og yfirmat og metnar bætur verið greiddar. Í því máli, sem hér um ræðir hafi ekki verið boðnar bætur, hvað þá, að leitað hafi verið samkomulags um bótafjárhæðir, eða möt farið fram í því sambandi.

Í svokölluðu uppsagnarbréfi bæjarráðs Vestmannaeyja 12. júlí 1973 til Gunnars M. Jónssonar fyrir 1/2 ræktunarspildu, vestari hluta, merkt á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands XI-C (hefði átt að standa XIV-C) felist viljayfirlýsing kaupstaðarins til að taka þann hluta umrædds túns af matsþolum. Þrír eignarnámsþolar hafi mótmælt þessari uppsögn en þessi mótmæli hafi verið að engu höfð og túnið tekið undir mannvirki.

Án uppsagnar og undanfarandi tilkynningar hafi eignarnemi tekið undir sig túnið nr. 178 og hagnýtt sér það á sama hátt. Umferðarvegur liggi nú í gegnum túnið.

Eignarnámsþolar segja, að allar spildurnar hafi verið innan einnar steingirðingar, sem nú sé fjarlægð að hluta. Þótt viðbótarspildan við samningana nr. 180 og 178 falli að mestu leyti utan við nú hagnýtt svæði af kaupstaðnum, sé eðlilegt að krefjast nú einnig mats á þessum hluta, með hliðsjón af ákvæðum 12. gr. laga nr. 11/1973. Hér sé um lítinn skika að ræða, sem verði matsþolum að litlu eða engu gagni eftir töku aðalspildnanna.

Eignarnámsmats þessa sé beiðst þar sem hér sé um að ræða eignartöku og skv. 67. gr. stjórnarskrárinnar eigi fullt verð að koma fyrir. Skv. 2. gr. l. nr. 22/1960 skyldu þeir, sem öðlast hefðu rétt eða ítök í landi, sem um ræðir í 1. grein, en það sé allt land í Vestmannaeyjum, sem kaupstaðurinn hafi keypt af ríkinu, annað hvort með samningi eða á annan löglegan hátt, halda óskertum rétti sínum þar til samningarinr séu útrunnir, eða með öðru móti rétturinn niðurfallinn. Þó skuli bæjarstjórn Vestmannaeyja heimilt að taka eignarnámi lóðar og erfðafesturéttindi í eignarlandi kaupstaðarins, ef nauðsyn krefji vegna skipulags. Um framkvæmd eignarnámsins skuli fara eftir ákvæðum laga nr. 61/1917, nú lög nr. 11/1973.

Þar sem kaupstaðurinn hafi ekki átt frumkvæði að því að beiðast mats á landspildum þessum, en farið að ráðstafa landinu undir götur og mannvirki, sé óhjákvæmilegt að eiga frumkvæði að mati og beiðast mats skv. 6. gr. laga nr. 11/1973.

Lögmaður eignarnámsþola upplýsir frá fasteignamati ríkisins, að ræktunarland nr. 178 sé nú metið á kr. 232.000.-, ræktunarland nr. 180 sé nú metið á sömu fjárhæð og ræktunarland nr. 201 sé nú metið á kr. 34.000.-.

Matsgerðir hafi ekki farið fram á erfðafesturéttindum í Vestmannaeyjum á síðari árum nema í eitt skipti, er mat hafi verið framkvæmt af Freymóði Þorsteinssyni, bæjarfógeta og Gauki Jörundssyni, prófessor, árið 1975, er metið hafi Heiðarbæ í Vestmannaeyjum vegna töku Flugmálastjórnar ríkisins á eigninni vegna nábýlis við flugvöllinn. Erfðafesturéttindi séu þar metin rúmlega kr. 70.- pr. m², sem ætti að jafngilda nú um kr. 120.- á m², miðað við verðlagsbreytingar á tímabilinu síðan.

Jafnframt bendir lögmaðurinn á, að ákvæði erfðafestusamninganna um bætur réttindanna kr. 2.500.- á hektara miðist við verðlagið 1930. Fullyrt er af eignarnámsþolum, að túnin hafi verið í fullri rækt og girðingum og mannvirkjum viðhaldið á landinu svo sem best verði gert.

II.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnema, Vestmannaeyjakaupstað, Georg Tryggvason, bæjarlögmaður. Hefur hann lagt fram í málinu erfðafestusamninga nr. 178, dags. 17. júlí 1930, nr. 180 dags. 18. júlí 1930 og nr. 201 dags. 7. okt. 1932. Er fyrsti samningurinn um landspildu til túnræktar handa Árna Jónssyni og er spildan að stærð 20.000 m². Landið er leigt til túnræktar en ekki til annarra afnota. Byggingar má ekki gera á leigulandinu nema fengið sé sérstakt leyfi umboðsstjórnarinnar til þess. Síðar eru í samningnum skilyrði um að leigutaki skuli hafa girt leigulandið gripheldri girðingu innan ákveðins tíma og að hann skuli á hverju ári rækta til túns ekki minna en 1/5 hluta af landinu, þannig að landið sé fullræktað á næstu 5 árum eftir að útmæling hafi farið fram. Í 8. gr. samningsins er ákvæði er segir, að ef bæjarfélagið, ríkissjóður eða einstakir menn, þarfnist landsins til sérstaks atvinnurekstrar sé leigutaka skylt að láta af hendi leigurétt sinn. Fyrir það skuli hann fá greitt kr. 2500.- fyrir hvern ræktaðan hektara, en þó geti aðilar krafist mats, ef þeir vilji eigi sæta þessum kjörum. Nú séu byggingar, girðingar eða önnur slík mannvirki í þeim hluta landsins, sem umboðsstjórnin krefjist sér afhent og skuli þá greiða eigendum þeirra að auki andvirði þeirra eftir mati tveggja óvilhallra dómkvaddra manna. Landið er leigt á erfðafestu til 75 ára, eða til þess tíma, sem ákveðið verður í jarðræktarlögum.

Hinir tveir erfðafestusamningarnir hafa að geyma sömu ákvæði og fyrri samningurinn. Skv. ljósriti, sem fram er lagt í málinu af ábyrgðarbréfi eignarnema til Gunnars M. Jónssonar, sem þá var þinglesinn eigandi að vestara hluta túns nr. 180 var honum tilkynnt uppsögn leiguréttarins 12. júní 1973. Ástæða uppsagnarinnar er talin sú, að í eldgosinu það sama ár höfðu farist í Vestmannaeyjum um 400 húseignir og auk þess horfið undir hraun og vikur flest þau svæði, sem skipulögð höfðu verið og frágengin til íbúðarhúsabygginga. Þótti því nauðsyn bera til þess að hefjast handa um skipulagningu nýs byggðarhverfis og nauðsynlegar framkvæmdir á landinu svo unnt væri að hefja hið fyrsta byggingu nýs íbúðarhúsnæðis. Fyrir valinu hafi orðið svonefnt Hamarssvæði, enda vart um annað landrými að ræða, sem hentaði til þeirra nota. Þetta svæði hafi allt verið selt á leigu til erfðafestu um eða upp úr 1930 og því verið nauðsynlegt að segja upp yfir 40 slíkum samningum skv. heimild í 8. gr. þeirra. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 23. júní 1972 hafi þótt einsýnt að til staðar væru öll efnisleg skilyrði til uppsagnar og jafnframt að bætur bæri að miða við verðmæti ræktunar og hugsanlegra mannvirkja en ekki reglur eignarnámsmats. Tún nr. 178 og 180 eru bæði í jaðri þessa nýja byggingarhverfis og falla að hluta innan marka þess. Öll þessi svæði hafi verið stórspillt af öskufalli. En auk þess hafði þeim vikri, sem hreinsa þurfti úr kaupstaðnum verið ekið á þetta svæði, alls um 2.000.000 rúmmetra og hafi fjölmörg þeirra því algerlega verið komin í kaf. Við þessar aðstæður hafi þess víðast verið engin kostur að meta ræktun til peningaverðs. Hafi rétthafar því verið boðaðir til viðræðna um bótagreiðslur og ákveðið um kaupstaðurinn biðist til að greiða hverjum þeirra fasteignamatsverð spildnanna að viðbættum 20%. Hafi sú greiðsla verið tilsvarandi því mati dómkvaddra manna, sem lagt hafi verið til grundvallar í dómi Hæstaréttar frá 1972 fyrir fullræktað tún. En þess sé þá að gæta, að ræktunarspildurnar á Hamarssvæðinu hafi fæstar verið ræktaðar nema að hluta en sumar alls ekkert.

Flestir samningshafar hafi sýnt þessum aðstæðum fullan skilning og hafi á næstu mánuðum verið gengið frá uppgjöri við þá. Hins vegar hafi 5 aðilar mótmælt uppsögninni. Eitt þessara bréfa hafi verið frá matsbeiðendum í þessu máli, sem kváðust nú hafa eignast leiguréttinn frá föður sínum og mótmæltu þeir uppsögninni, sem heimildarlausri og markleysu. Í svarbréfi kaupstaðarins frá 15. ágúst 1973 hafi það verið áréttað, að hann telji efnisleg skilyrði til uppsagna vera fyrir hendi og að henni hafi réttilega verið beint til þeirra aðila, sem skv. veðmálabókum töldust þinglesnir eigendur leiguréttarins. Jafnframt hafi það verið ítrekað, að fyrra tilboð um samninga um bætur til handa hinum nýju eigendum stæði óhaggað. Upphaflega hafi stærð túnsins nr. 180 verið 20.000 m² og það leigt Sæmundi Jónssyni. Árið 1932 hafi Sæmundur afsalað vestari helming þess til Árna Jónssonar en austari helmingnum hafi Sæmundur afsalað árið 1966 til Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja.

Árni Jónsson hafi síðan afsalað árið 1935 sínum helming til Gunnars M. Jónssonar og Sighvatar Bjarnasonar og virðast þeir hafa fengið inn fjórðunginn hvor eða ca. 5000 m². Hinn 14. ágúst 1973 sé loks þinglýst afsali til matsbeiðenda frá Gunnari M. Jónssyni.

Um mannvirki á spildunni segir eignarnemi, að hún sé að hluta umlukin verðlausum grjótgarði. Á spildunni standi einnig steinsteypt "for" og sé það í algeru heimildarleysi, því nokkru fyrir árið 1970 hafi bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum auglýst að tilhlutan heilbrigðisyfirvalda bann við slíkum mannvirkjum vegna slysahættu og óþrifnaðar og lagt fyrir eigendur þeirra að jafna þau við jörðu. Hafi slík mannvirki enda ekki verið notuð um langt árabil.

Loks telur eignarnemi það spurningu, hvort matsbeiðendur hafi ekki glatað hugsanlegum bótarétti vegna aðgerðarleysis þar eð þeir svari fyrst tilboði kaupstaðarins um viðræður um bótagreiðslur dags. 15. ágúst 1973 með matsbeiðni dags. 31. mars 1977.

Jafnframt mótmælir eignarnemi sem röngum þeim staðlausu fullyrðingum í bréfi lögmanns matsbeiðenda, að ekki hafi verið boðanar bætur fyrir túnið og einnig mótmælir hann því, að það hafi verið allt í mjög góðri rækt. Að minnsta kosti helmingur þess hafi verið óræktaður og óræktanlegur með öllu, eins og raunar segi í upphaflega leigusamningnum.

Varðandi tún nr. 178 tekur eignarnemi fram, að uppsögn hafi ekki farið fram á túni þessu árið 1973 vegna þess bæði, að enginn samningur um það hafi þá verið þinglesinn í veðmálabókum, honum fyrst þinglýst í maí 1977, og eins af þeim sökum, að fyrst í stað hafi ekki verið gert ráð fyrir því að byggt yrði á því landi.

Aðeins um 1/3 hluti þessa landssvæðis hafi fallið undir íbúðarhúsabyggðina og hafi sá hluti verið óræktaður og óræktanlegur með öllu (austari hluti spildunnar).

Hins vegar liggi vegur sá, sem byggður var árið 1973 úr gjalli því, sem hreinsað var úr bænum, þvert í gegnum vestari hluta þessarar spildu. Muni hann hafa verið í sæmilegri rækt. Varðandi tún nr. 201 sé þess að geta, að þessum samningi hafi ekki verið sagt upp, enda falli hann algerlega utan byggðarinnar og hafi hann að engu leyti verið skertur af hálfu kaupstaðarins og engin slík skerðing sé fyrirhuguð. Séu því ekki efni til að krefjast eignarnámsbóta fyrir þetta tún. Að lokum áréttar eignarnemi það, að hann mótmæli framkvæmd hins umbeðna mats á þeim forsendum fyrst og fremst, að bætur fyrir umrædd leiguréttindi skuli greiða eins og í samningum sjálfum segir, skv. sérstöku mati á ræktun og mannvirkjum eða eftir samkomulagi aðilanna en ekki skv. matsreglum um eignarnám. Eignarnámsmati á túni nr. 201 sé sérstaklega mótmælt á þeirri forsendu, að engin skerðing hafi þar átt sér stað né sé fyrirsjáanleg. Þá er það áréttað, að aðeins hluti túnsins nr. 178 hafi verið skertur. Og að mestu sé það sá hluti túnsins, sem hafi verið óræktaður og óræktanlegur og án nokkurra mannvirkja og ætti því ekki að bæta skv. 8. gr. leigumálans.

III.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefndinni 10. júní 1977. Matsnefndin gekk á vettvang og skoðaði landið og aðstæður á staðnum 18. ágúst 1977. Leitað var sátta í málinu en án árangurs.

Eins og áður kemur fram, var leigurétti að ræktunarspildu eða túni nr. 180 sagt upp með bréfi dags. 12. júlí 1973. Er bréfið stílað til Gunnars. M. Jónssonar og tekið fram í því, að sagt sé upp leigurétti að hálfri spildunni eða vestari hluta hennar. Er uppsögnin reist á 8. grein leigusamningsins, en um ástæður til hennar er áður rakið. Var þess jafnframt óskað, að leigutaki hefði sem fyrst sambandi og/eða mannvirki á landinu.

Leigurétti að túni nr. 178 hefir ekki verið sagt upp, en um 1/3 hluti landsins hefir fallið undir íbúðarhúsabyggðina og auk þess liggur vegur, sem byggður var árið 1973 þvert í gegnum vestari hluta þessarar spildu.

Samningi um spildu nr. 201 hefir ekki verið sagt upp, og talið er að hún falli algjörlega utan byggðarinnar, enda hefur landið, að engu verið skert af hálfu kaupstaðarins og engin slík skerðng er fyrirhuguð.

Ræktunarspilda nr. 201 er leigð Árna Jónssyni á erfðafestu til 75 ára með leigusamningi 7. október 1932. Spilda þessi er látin með sömu skilyrðum og áður hefir verið skýrt frá. Að vísu er tekið fram í leigusamningnum eða spilda þessi sé látin til viðbótar við spildurnar XIV c og XV c á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands, en matsmenn líta svo á, að ekki séu efni til þess, samkvæmt 12. grein laga nr. 11/1973, að eignarnám það, sem hér um ræðir nái til þeirrar landspildu. Verður því ekki gerð grein fyrir henni frekar.

Ræktunarspildu nr. 180 hálfri, vestari hluta, var sagt upp, eins og áður segir, og rétthafa boðnar bætur fyrir í samræmi við 8. grein samningsins, þ.e. boðið var fasteignamatsverð að viðbættum 20%. Í 8. gr. segir, að aðiljar geti krafist mats, ef þeir vilji ekki sæta kjörum samningsins. Uppsögn þessari var að vísu mótmælt sem markleysu, og verður hér ekki tekin afstaða til þeirra mótmæla, en Matsnefnd virðist rétt að meta hæfilega upphæð bóta vegna þessarar spildu, þar sem bætur kunna að eiga rétt á sér, sbr. niðurlag 8. greinar samningsins og niðurlag 2. gr. laga nr. 22/1960, og 28. gr. laga nr. 19/1964.

Landspilda 180 er í samnningi um landið dags. 18. júlí 1930, talin að helmingi ræktanleg.

Ræktunarspildu nr. 178 hefir ekki verið sagt upp, en um 1/3 hluti spildunnar hefir verið tekin undir íbúðarhúsabyggingar og telur eignarnemi þann hluta hafa verið óræktaðan og óræktanlegan, (austasti hluti spildunnar) og því beri þeim ekki að greiða neinar bætur fyrir það, sem tekið hefir verið, og einnig mótmæla þeir því, að þeim verði gert skylt að taka alla spilduna. Í samningi um spilduna er hún talin að helmingi ræktanleg.

Matsmenn líta svo á, að þar sem tekin hefir verið 1/3 hluti þessarar spildu nú þegar undir íbúðarhúsabyggingar, og vegur, sem ekki stendur til að fjarlægja, liggur þvert í gegnum vestari hluta landsins, og sker þannig nánast í tvo álíka stóra parta þá 2/3 hluta landsins, sem eftir er, þá skerðist fasteign þessi með þeim hætti, að þeir hlutar hennar sem eftir eru, nýtast ekki á eðlilegan hátt, og því rétt, með vísan til 12. gr. laga nr. 11/1973, að ákveða, að kröfu rétthafa, að eignarnámið skuli ná til þessarar spildu allrar.

Af hálfu eignarnema er á það bent, að við mat á landinu beri að taka tillit til þess, að landið sé leigt til ákveðins tíma, og mikill tími nú liðinn af leigutímabilinu.

Matsmenn telja, að þar sem leigutímabilið sé svo langt, nái fram yfir aldamót, þá sé ekki efni til þess, að láta þetta skipta verulegu máli, þar sem leigutaki á kröfu á bótum fyrir ræktun og mannvirki á landinu, þótt leigusamningurinn sé útrunninn.

Hins vegar er landið leigt til ræktunar, en ekki til annarra afnota, samkvæmt 2. grein leigusamninganna, en samkvæmt 8. grein þeirra er gert ráð fyrir, að rétthafi kunni að eiga byggingar, girðingar eða önnur slík mannvirki á landinu og skuli þá greiða eiganda þeirra að auki andvirði þeirra eftir mati tveggja óvilhallra, dómkvaddra manna.

Land það, sem eignarnámið nær til, var upphaflega hluti af svonefndu Hrauni austan Ofanleitishamars í Vestmannaeyjum. Landinu hallar í átt til hamarsins. Yfirborðslögun landins er mishæðótt með óreglulegum hraunhæðum en inn á milli þeirra eru vel ræktaðar flatir og lautir grónar túngróðri.

Landið hefir verið grýtt og erfitt í ræktun. Grjót það sem numið hefir verið úr landinu við ræktunina hefur verið hlaðið upp í grjótgarð umhverfis löndin 178, 180 og 201. Lengd garðsins fyrir því landi, sem Matsnefnd metur til eignarnams er um 400 m., mælt á uppdrætti þeim, sem lagður er fram í málinu.

Garðurinn hefir verið notaður, sem vörslugarður og geymslustaður fyrir grjótið, sem ekki var unnt að grafa niður, og til að tryggja fullkomna vörslu landsins er svo að sjá nú af slitrum sumstaðar á garðinum, sem verið hafi ofan á honum strengjagirðing.

Steinsteypt áburðargeymsla "for" er á landinu, um 32 rúmm.

Upphlaðin aðkeyrsla er að forinni, sem auðveldar losun aðflutts efnis í hana.

Á löndin nr. 178 og 180 hefur verið ekið vikri í breitt vegsvæði, þvert yfir þessi lönd bæði.

Frá Búnaðarfélagi Íslands hefur Matsnefndin fengið eftirfarandi yfirlýsingu um útteknar jarðabætur, trúnaðarmanna Búnaðarfélags Íslands, hjá Árna Jónssyni, Odda, Vestmannaeyjum.

"Ár: 1930   tekur Páll Bjarnason, trúnaðarmaður Búnaðarfélags Íslands út eftirtaldar jarðabætur. Nýrækt bylt 4000 m².
Ár: 1931   tekur Páll út: grjótnám 408 m3
   Grjótgarður tvíhlaðinn 412 m
Ár: 1932   tekur Helgi Benónýsson, trúnaðarmaður út:
   Þakslétta   6,4 m²
   Grjótnám   557 m3
   Grjótagarð tvíhlaðinn    65 m
   Gaddavírsgirðingu   36,6

Ár: 1933   tekur Páll Bjarnason út:
   Safnþró alsteypta   32,2 m3
   Þakslétta   4750 m²
   Sáðslétta   2000 -
   Grjótnám   183 m3
Ár: 1934   úttektarmaður Páll Bjarnason
   Sáðsléttur    1800m²
   Grjótnám   90 m3
Ár: 1935   úttektarmaður Þorsteinn Þ. Víglundsson
   Grjótnám   266,12 m3
   Grjótgarðar tvíhlaðnir   208 m
Ár: 1936   Úttektarmaður Þorsteinn Þ. Víglundsson,
   Grjótnám 42,75 m3
   Tvíhlaðnir garðar 38 m
Ár: 1937   Úttektarmaður Þorsteinn Þ. Víglundsson,
   Matjurtargarður   320 m²
   Hlaðnir grjótgarðar   55 m
   Grjótnám   50 m3
Ár: 1938   Úttektarmaður Þorsteinn Þ. Víglundsson
   Nýrækt þaksl.   504 m²
   Sáðsláttur   600 -
   Hlaðnir garðar   52 m
   Grjótnám   50m3
Ár: 1940   Úttektarmaður Þorsteinn Þ. Víglundsson
   800 m² matjurtargarðar
Ár: 1941   Úttektarmaður Þorsteinn Þ. Víglundsson
   Úttekið:
   Nýrækt sáðsléttur   16.560 m²
   Gaddavírsgirðing   120 m
   Grjótnám   12m3"

Er matsmenn skoðuðu landið hafði verið gerð allmikil röskun á því, án þess að jafnframt færi fram vettvangsganga og nákvæm skoðun til undirbúnings mati. Gerir þetta matið erfiðara nú, en ekki eru tök til þess að það verði látið rýra rétt eignarnámsþola.

Að svo vöxnu máli, með hliðjsón af skoðun landsins, spjaldskrá Búnaðarfélags Íslands, verðbreytingum og öðrum, sem matsmenn telja skipta máli en þeir hafa undir höndum allmiklar upplýsingar um verð á erfðafestulöndum, þ. á m. möt á þeim, telja þeir hæfilegt og rétt að meta þannig:

Að talið verði að helmingur landsins hafi verið í fullgildri rækt, eða samtals 15.000 m², og hæfilegt verði pr. m², kr. 110.- eða samtals kr. 1.650.000.-.

Vörslugarðurinn telst hæfilega metinn á kr. 120.000.-

"Forina" telja matsmenn rétt að meta á 45.000.- kr.

Af framangreindum bótum gangi 1/6 hluti til Gunnars M. Jónssonar og 5/6 hlutar til annarra eignarnámsþola.

Framangreint verð er miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþolum kr. 100.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarenemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 207.620.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirninr Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vestmannaeyjakaupstaður, greiði eignarnámsþolum, Eggert Gunnarssyni, Guðna Kristni Gunnarssyni, Guðmundu Gunnarsdóttur og Gunnari M. Jónssyni kr. 1.815.000.- og kr. 100.000.- í málskostnað. Fjárhæðin skiptist samkvæmt því, sem segir í matinu.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 207.620.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum