Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 1977 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 14. nóvember 1977

Ár 1977, mánudaginn 14. nóvember, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973, tekið fyrir matsmálið:

               Árni Guðjónsson hrl.
               f.h. Ísafjarðarbæjar
                  gegn
               Skipasmíðastöð
               M. Bernharðssonar h/f
               Ísafirði

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi 30. ágúst 1977 sendi eignarnemi Matsnefndinni ljósrit af bréfi félagsmálaráðuneytisins dags. 12. nóvember 1976, þar sem heimilað var eignarnám á fasteignum og mannvirkjum í eigu Skipasmíðastöðvar M. Bernharðssonar h/f á Torfnesi Ísafriði. Enn fremur fylgdi beiðni þessari útskrift úr fundargerðarbók bæjarráðs Ísafjarðar 17. ágúst 1977 þar sem fyrirsvarsmaður skipasmíðastöðvarinnar samþykkir að eignarnámsmat fari fram.

Eignir þær sem eignarnemi biður um að meta skuli, eru byggingar og mannvirki gamallar dráttarbrautar, sem eignarnámsþoli á, en nú verði að víkja vegna byggingar menntaskólahúss. Jafnframt er tekið fram að lóðarsamningar fyrir dráttarbraut þessa séu útrunnir. Því er lýst að tveir dómkvaddir menn hafi metið eignir þessar fyrir nokkrum árum, en ekki hafi náðst samkomulag um uppgjör við eignarnámsþola á þeim grundvelli. Með hliðsjón af því var leitað heimildar til eignarnáms, skv. l. nr. 11/1973, sbr. bréf félagsmálaráðuneytisins, sem fylgir málinu.

Samkvæmt mskj. nr. 2 í máli þessu, sem er bréf félagsmálaráðuneytisins, hefur það ráðuneyti samþykkt, að heimila skv. ákvæðum 27. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, sbr. l. nr. 11/1973, að bæjarstjórn Ísafjarðar taki eignarnámi fasteignir og mannvirki í eigu Skipasmíðastöðvar M. Bernharðssonar h/f á Torfnesi, Ísafirði. Er í bréfi ráðuneytisins vísað til meðmæla skipulagsstjórnar varðandi þetta mál.

Í matsgjörð hinna dómkvöddu matsmanna, sem áður eru nefndir segir svo um eignir þær, sem meta á í þessu máli:

"Undirritaðir, dómkvaddir matsmenn, hafa skoðað og metið eignir Skipabrautar Ísafjarðar, Torfunesi, Ísafirði. Mat okkar á eignum þessum er sem hér segir:

-    Spilhús
   Byggingarár 1921
   Timburskúr, sökklar hlaðnir úr grjóti, timburgólf, veggir timburgrind klædd að utan með borðvið. Þak borið uppi af timburbitum og klætt bárujárni. Húsið er óeinangrað.
   Spil stendur á steyptum sökkli.
   Stærð hússins er 4x17 = 68 m², 145 m3.
   A. Matsverð: 360.000.-
   Spilið er ekki innifalið í þessari upphæð né flutningur á því.

-   Skúrbygging áföst við spilhús.
   Byggingarár 1921 og 1945.
   Timburskúr, sökklar hlaðnir, timburgólf í eldri hluta en steypt gólf í nýrri hluta, veggir timburgrind klædd að utan með borðvið. Það borið uppi af timburbitum. Klætt bárujárni.
   Húsið er óeinangrað.
   Stærð hússins 4x25 m² = 100 m², 200m3
   B. Matsverð: 740.000.-

-   Bogabraggi á steyptum sökkli, sem nær 1 m upp úr jörð og er grafinn ca. 1 m. niður fyrir gólf, gólf er malargólf, bogar eru úr stáli klæddir bárujárni.
   Bragginn er óeinangraður.
   Stærð: 324 m², 1458 m3
   C. Matsverð: 1.670.000.-

-   Trésmiðja
   Byggingarár 1925 og 1962
   Sökklar eru steinsteyptir, gólf steypt en óhúðað. Aðalvinnusalur er einangraður með 2" plasti, múrhúðaður og málaður, þak er borið uppi af timburkraftsperrum klætt niður með trétexi, þak er annars klætt með borðviði pappa og bárujárni.
   Upphitun er lofthitun (25 kkal ketill).
   Raflýsing að mestu með einf. fluorlömpum. Nokkur raflögn er fyrir vinnuvélar. Eldri hluti hússins er innréttaður fyrir kyndingu, geymslu og V.S. Innveggir eru yfirleitt úr timbri.
   Í þaki er innréttuð kaffistofa yfir eldri hluta hússins.
   Tæki og verkfæri eru ekki innifalin í matsupphæð.
   Stærð: 240m², 960 m3
   D. Matsverð: 6.300.000.-

-   Dráttarbraut, varnargarðar og fyllingar
   Byggingarár 1921, 1946 og 1948.
   1921: Upphífingarbraut 120 m löng þar af 50 m á landi, hlaðin, brautarspor stálbrautarteinar.
   1921: Hliðargarðar 52 m langir steinsteyptir með timburbraut.
   1946: Varnargarður 20 m langur steyptur.
   1948: Hliðargarðar 48 m langir steinsteyptir með timburbraut.
   1921: Malar- og grjótfyllingar (sem næst 2000 m3).
   E. Matsverð: 3.800.000.-

Gert er ráð fyrir að eigendur taki með sér sleða úr dráttarbraut og brautarteina.
Heildarmatsupphæð er því:
A.   Spilhús   360.000.-
B.   Skúrbygging   740.000.-
C.   Bogabraggi   1.670.000.-
D.   Trésmiðja   6.300.000.-
E.   Dráttarbraut o.fl.    3.800.000.-
      Samtals   12.870.000.-"

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta föstudaginn 23. sept. 1977. Var málið tekið fyrir á Ísafirði og voru þar mættir f.h. eignarnema Árni Guðjónsson, hrl. og einnig Magnús Reynir Guðmundsson, starfandi bæjarstjóri og Gunnar Jónsson, bæjarfulltrúi, einnig mætti Jón Ólafur Þórðarson, bæjarfulltrúi. Af hálfu eignarnámsþola mættu þeir Guðmundur Ingvi Sigurðsson, hrl. og Guðmundur Marsellíusson, framkvæmdastjóri.

Matsmenn og allir ofangreindir menn gengu á vettvang og skoðuðu mannvirkin og aðstæður á staðnum. Að lokinni fyrstu vettvangsgöngu fóru matsmenn aftur á staðinn og skoðuðu öll mannvirki og alla staðhætti þarna, í rúman klukkutíma. Á þessu stigi skal þess aðeins getið, að matsmenn komust að raun um að lýsing hinna dómkvöddu matsmanna, sem áður er getið er ekki í alla staði rétt. Ekki þykir hins vegar ástæða til, á þessu stigi málsins, að gera því atriði nánari skil.

II.

Kröfur eignarnámsþola í máli þessu eru þær, að eignarnemi verði úrskurðaður til að greiða eignarnámsþola kr. 65.730.168.- ásamt kostnaði við matið skv. reikningi og þóknun til lögmanns eignarnámsþola, allt samkvæmt mati Matsnefndar.

Aðdragandi allur að máli þessu er rakinn rækilega í skýrslum aðila og skýrslum forseta bæjarstjórnar og þykir ekki ástæða til að taka það frekar upp á þessu stigi málsins.

Í greinargerð eignarnámsþola, sem er löng og ítarleg er aðallega lýst mannvirkjum og eignum þeim, sem hér á að meta og hvað eignarnámsþoli telji hæfilegt verð fyrir verðmæti þessi.

Næst var mál þetta tekið fyrir í Matsnefndinni 28. okt. sl. en þá voru aðeins lögð fram skjöl í málinu og málinu enn frestað.

Enn var málið tekið fyrir í nefndinni 4. nóv. sl. og voru þá lögð fram skjöl, þar á meðal greinargerð eignarnámsþola. Sátt var reynd í málinu en árangurslaust.

Á fundi í nefndinni föstudaginn 11. nóv. 1977 var mál þetta enn tekið fyrir. Var þá í málinu gerð svofelld bókun: "F.h. eignarnema mætir Árni Guðjónsson, hrl. Hann gerir þá kröfu með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973, að eignarnemi fái nú þegar umráð þeirra mannvirkja, ásamt lóð, sem mál þetta fjallar um.

Lögmaður eignarnámsþola mótmælir því að eignarnema verði veitt umráð eigna þessara nú. Ef fallist verði á beiðni eignarnema krefst lögmaðurinn að eignirnar verði ekki afhentar nema gegn tryggingu að mati nefndarinnar. Eignarnemi mótmælir því, að eignarnema, sem sveitarfélagið verði gert að setja tryggingu fyrir framkvæmd málsins. Lögmennirnir skýrðu þetta mál frekar munnlega fyrir nefndinni og lögðu málið í úrskurð. Atriðið tekið til úrskurðar"

Við vettvangsgöngu þá, sem áður er getið kynntu matsmenn sér rækilega mannvirki þau og land það, sem hér um ræðir. Matsmenn líta svo á, eftir þessa skoðun, og eru um það sammála, að það muni ekki á neinn hátt torvelda framkvæmd efnismats í málinu, né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþola þótt eignarnema verði veitt leyfi til þess nú, að taka umráð þeirra eigna, sem hér um ræðir og sem lýst hefir verið hér að framan. Ekki hefur heldur, að áliti matsmanna, af hálfu eignarnámsþola verið bent á nein sérstök efnisrök, sem geti mælt því í gegn að eignarnema verði veitt heimild til, með hliðsjón af 14. gr. laga nr. 11/1973, að taka nú þegar umráð þessara eigna.

Að svo vöxnu máli samþykkir Matsnefndin með samhljóða atkvæðum og með tilvísun til 14. gr. laga nr. 11/1973, að leyfa eignarnema, að taka nú þegar umráð allra þeirra mannvirkja, sem um ræðir í máli þessu, svo og tilheyrandi lóðarréttindi, allt til þerirra nota, sem eignarnemi hefur nú þegar fyrirhugað á þessum stað.

Eignarnámsþoli hefur krafist tryggingar af hálfu eignarnema vegna þessarar umráðatöku. Af því efni þykir rétt að benda á, að í 14. gr. laga nr. 11/1973 segir á þá leið, að þótt mati sé ekki lokið geti Matsnefnd heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis, sem taka eigi eignarnámi og ráðast í þær framkvæmdir, sem eru tilefni eignarnámsins. Ef krafa komi fram um það af hálfu eignarnámsþola skuli eignarnemi setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum og ákveði Matsnefndin trygginguna.

Eins og mál þetta horfir við og án þess að bera brigður á gjaldþol eignarnema til greiðslu þeirra bóta, sem kunna að verða metnar í máli þessu, telur nefndin ekki fært eins og málið horfir við, að víkja frá ákvæði lagagreinarinnar um trygginguna.

Að svo vöxnu máli voru matsmenn sammála um, að leyfa eignarnema að taka nú þegar umráð allra þeirra eigna, sem um ræðir í máli þessu, með tilvísun til 14. gr. laga nr. 11/1973 gegn 20.000.000.- króna bankatryggingu fyrir væntanlegum bótum.

Hæfilegar skaðabætur til eignarnámsþola vegna eignarnáms þess, sem hér um ræðir, verða úrskurðaðar á síðara stigi málsins. Einnig verður þá kveðið á um kostnað af málinu skv. 11. gr. laga nr. 11/1973.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar, Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Þ v í ú r s k u r ð a s t :

Eignarnema, Ísafjarðarbæ, er heimilt að taka nú þegar umráð þess lands og þeirra mannvirkja, sem um ræðir í máli þessu, eign Skipasmíðastöðvar M. Bernharðssonar h/f, allt gegn 20 milljóna króna bankatryggingu.

Skaðabætur til eignarnámsþola og kostnaður af málinu verða ákveðin síðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum