Hoppa yfir valmynd
19. desember 1977 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 19. desember 1977

Ár 1977, mánudaginn 19. desember, var í Matsnefnd eignarnámsbóta, skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

               Landeigendur Nesbæja í
               Aðaldal, S-Þingeyjarsýslu,
               Pétur Steingrímsson,
               Erlendur Sigurðsson,
               Arndís Steingrímsdóttir,
               Hermóður Guðmundsson,
               Jóhanna A. Steingrímsdóttir og
               Jón Óskarsson f.h. Hildar Jónsdóttur
                  gegn
               Vegagerð ríkisins

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 10. nóvember 1975, hafa ofangreindir landeigendur Nesbæja í Aðaldal, Suður Þingeyjarsýslu farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að framkvæmt verði mat á landspjöllum vegna vegalagningar um land Ness og Árness í Suður-Þingeyjarsýslu. Land þessara jarða vestan Láxár liggur nær eingöngu austan þjóðvegar. Tjónkröfur matsbeiðenda byggjast einkum á því, að þjóðvegurinn hafi verið færður til austurs inn í gott og fallegt ræktunarland.

Eignarnámsþoli greinir svo frá í greinargerð:

"Þegar núverandi vegur um Aðaldal var lagður í landi Nesbæja var því mótmælt af landeigendum að vegurinn væri fluttur austur í landið. Töldu landeigendur eðlilegast að vegurinn væri áfram á sama stað, bæði legu sinnar vegna og eins var búið að ganga frá nýjum landamerkjum við eigendur Hafralækjar, þar sem ákveðið var að framtíðarmerki jarðanna skyldu vera við vesturbrún gamla þjóðvegarins. Vegagerðin taldi sér ekki skylt að fara eftir tilmælum landeigenda og voru aðalrökin þau að trjálundur í landi Hafralækjar við gamla þjóðveginn ylli snjóskaflamyndun í veginum.

Þessi vegalagning fór yfir eitt besta ræktunarland Nesbæja og klauf landið að endilöngu, þannig að 6 - 7 ha. af ræktanlegu landi eru vestan þjóðvegar. Þetta land verður alltaf illnýtanlegt vegna vegarins. Vegurinn er líka farartálmi í landinu og leggur aukna girðingarskyldu á landeigendur vestan vegar og stóraukið viðhald, þ.e. girðingu báðum megin vegar í staðinn fyrir öðrum megin áður. Eins verður að taka þátt í merkjagirðingu að hálfu á móti Hafralæk, sem ekki þurfti þegar merkin voru um þjóðveginn. Ekkert vatn er í landinu vestan vegar svo það verður ekki nýtt til beitar í framtíðinni þess vegna. Eftir að girt var meðfram nýja þjóðveginum að austan hefur þessi spilda ekki nýst neitt fyrir landeigendur. Ryk frá veginum er mjög hvimleitt og til mikils ama fyrir þá sem nýta munu landið í framtíðinni. Flutningur vegarins stækkaði landið sem rykið nær til.

Landstærð í Nesi er ca. 180 ha. vestan Laxár. Áin skiptir landi Nesbæja. Landið austan ár er illnýtanlegt til túnræktar vegna fjarlægðar frá bæjunum og vegna bratta upp á heiðina. Þessir 180 ha. verða að teljast aðal nytjaland jarðanna, þ.e. til heyöflunar og beitar. Á gömlu jörðinni hafa þegar verið byggð 5 lögbýli, þar af tvö smábýli. Skipting landsins vestan ár er sem hér segir:

   Árnes   ca.    78 ha.
   Nes    -    30 -
   Laxárnes    -    30 -
   Álftanes    -     6 -
   Straumnes    -    36 - (30 ha. leiguland)

Túnstærð er eftirfarandi:

   Árnes      53 ha.
   Nes og
   Laxárnes      37 -
   Straumnes       3 -

Þess ber að geta að verulegur hluti landsins sem eftir er vestan ár er ekki hæfur til túnræktar. Það er augljóst að landrými er mjög takmarkað og það land sem tapaðist undir veginn verður ekki bætt svo vel sé með öðru landi.

Vegagerðin hefur tekið mjög umtalsvert magn af hraunmöl í landinu, og miklu meira magn en kröfur eru gerðar til að hún bæti."

Ennfremur tekur eignarnámsþoli fram, að mikil eftirspurn sé á hraunmöl, aðallega frá Húsavík, þar sem markaður sé fyrir hana á verði sem sé miklu hærra en farið var fram á í fyrstu kröfugerð til Vegagerðarinnar og óskast tillit tekið til þess af Matsnefnd.

Í greinargerðinni er krafa gerð til þess að Vegagerðin fjarlægi gamla þjóðveginn eignarnámsþolum að kostnaðarlausu og að engar bætur verði metnar Vegagerðinni fyrir gamla veginn þar sem hún hafi aldrei greitt neitt fyrir vegstæðið.

Kröfur þær, sem eignarnámsþolar, ábúendur og rétthafar um bætur vegna tjóns og landskemmda af völdum vegagerðarframkvæmda í landi Nesbæja gera eru skv. mskj. nr. 2. þessar:
"1.   Vallendismór, 1. fl. ræktunarland tekið undir
   veg, 3.45 he. á 350.000.00 hektarinn    =   1.207.500,-.
2.   Bætur vegna skemmda, óhagræðis og
   sundurskiptingu lands 6.6 he á 30.000.00 he.    =   198.000,-.
3.   Uppsetning á girðingu um sama land 800 m. óverðlagt.
4.   Jöfnun og uppgræðsla vegna töku jarðefna til
   vegagerðar óverðlagt.
5.   Malarnám, 7400 m á kr. 30/m3   =   222.000,-
6.   Leirnám, 3064 m á kr. 10/m3   =   30.640,-
         Kröfur alls kr.    1.658.140,-
(Auk girðingar samkvæmt lið nr. 3 og jöfnunar og uppgræðslu skv. lið nr. 4.)".

Samkvæmt mskj. nr. 8 er samkomulag um það hjá eignarnámsþolum, að bætur vegna vegagerðarframkvæmda í óskiptu landi Ness og Árnesjarða skiptist milli þeirra í sömu hlutföllum og eigna- og umráðaréttur á landi hlutaðeigandi jarða hafi verið á meðan það hafi verið í óskiptri sameign.

Samkvæmt veðbókarvottorði á mskj. nr. 6 er jörðin Nes í Aðaldælahreppi talin eign Arndísar Steingrímsdóttur. Samkvæmt veðbókarvottorði á mskj. nr. 7 er jörðin Árnes í Aðaldælahreppi talin eign Hermóðs Guðmundssonar.

Eignarnámsþolar hafa lagt fram í málinu bréf Magnúsar Ólafssonar, Seljavegi 25, Reykjavík, dags. 21. ágúst 1975, þar sem hann gerir kauptilboð í einn hektara lands úr landi jarðarinnar Árnesi og skuldbindur sig til þess að greiða kr. 350.000.00 fyrir landið. Tilboð þetta var tímabundið til 31/12 ´75.

Samkvæmt mælingu Stefáns Skaftasonar, ráðunauts, mskj. nr. 4. er land undir sjálfum veginum á þessum stað talið 3.45 ha. og hafi það verið ræktanlegur mór. Landið hafi verið urið á ca. 300 m. kafla. Vestan hins nýja vegar sé landspilda að stærð 6.60 ha., góður mór en nú lítt nytjanlegt. Óræktanlegt land austan vegarins er talið 1.40 ha. Malarnám telur Stefán 7400 rúmm. og leirnám 3064 rúmmetra.

Lagt er fram vottorð Ara Teitssonar, ráðunauts, þar sem hann lýsir því yfir að hann hafi yfirfarið mælingar Stefáns Skaftasonar vegna vegagerðar í landi Árness í Aðaldal og að hann telji þær réttar. Þó telur hann að þurft hefði nokkra tilfærslu í ræktarlandinu á pörtum til að úr því yrði gott tún, vegna þess hve mikið hafi verið tekið af jarðveginum í veginn, sé sú tilfærsla nú mun erfiðari en ella hefði verið.

II.

Af hálfu eignarnema Vegagerðar ríkisins eru gerðar þær kröfur í máli þessu, að landeigendum verði metnar bætur skv. 10. kafla vegalaga nr. 66/1975 sbr. 2. og 10. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

Gerir eignarnemi þá kröfu, að til grundvallar mati sínu hafi matsmenn orðsendingu nr. 5/1976 um landbætur, sbr. mskj. nr. 13, og að landeigendum verði ekki metnar hærri bætur fyrir land undir vegarstæði en þar segi, nema sérstakar og vel rökstuddar forsendur liggi þar að baki.

Eignarnemi skýrir svo frá, að Aðaldalsvegur af Norðurlandsvegi hjá Einarsstöðum á Norðausturveg hjá Tjörn hafi verið í endurbyggingu allt frá árinu 1958 og kaflinn hjá Nesbæjum hafi verið endurbyggður á árunum 1960 - 1961. Viðræður milli landeigenda og eignarnema um landbætur hafi farið fram af og til síðar en samkomulag ekki náðst og því sé stofnað til þessa síðbúna matsmáls.

Bent er á að stærð þess lands, sem undir vegsvæði hafi farið úr landi Nesbæja sé skv. mælingum Stefáns Skaftasonar ráðunauts, 3.45 ha., en auk þess telji landeigendur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna skemmda, óhagræðis og sundurskiptingar lands, þar sem 6.6 ha. lands hafi lent vestan Aðaldalsvegar við færslu vegarins. Þá hafi farið fram efnisnám í ca. 1 ha. lands austan Aðaldalsvegar á móts við og rétt norðan við Hafralækjarveg.

Eignarnemi skýrir svo frá, að allt fram á síðustu ár hafi Vegagerð ríkisins ekki greitt landeigendum bætur vegna vegagerðar utan þéttbýlis nema ræktuðu landi hafi verið spillt. Hafi samgöngubætur þótt til hagsbóta fyrir jarðir og þess vegna hafi bótakröfur sjaldan komið fram.

Á þessu hafi orðið breyting og séu landeigendur nú í vaxandi mæli farnir að gera kröfur um að land, sem nota megi til ræktunar eða beitar verði einnig bætt. Hafi þótt sjálfsagt að mæta þessum kröfum og hafi verið í því skyni leitað álits sérfróðra aðila um, hvað teldust hæfilegar bætur í þessum tilvikum. Þeir sem leitað hafi verið til hafi verið m.a. Búnaðarfélag Íslands, Landnám ríkisins, Yfirfasteignamat, fyrrv. landnámsstjóri og Yngvi Þorsteinsson magister.

Á fundi sem haldinn hafi verið á skrifstofu Vegamálastjóra 1971 með aðilum frá Búnaðarfélagi Íslands, yfirfasteignamati, samgönguráðuneyti og Vegagerð ríkisins hafi verið lagðar fram tillögur, sem myndaðar hafi verið úr umsögnum framantalinna aðila. Hafi fundarmenn orðið sammála um tillögurnar og þær verið staðfestar af stjórn Búnaðarfélags Íslands með bréfi 30. nóv. 1971. Í samræmi við niðurstöður þessar hafi verið gefin út orðsending nr. 1, 1971, um landbætur. Umræddar niðurstöður hafi síðan verið endurskoðaðar árlega fyrri hluta árs með tilliti til hækkandi verðlags og verðmætis lands og hafi ætíð verið haft samræða við stjórn Búnaðarfélags Íslands við ákvörðun verðgrundvallar. Við endurskoðunina hafi verið miðað við áætlaða vísitölu þess árs, sem var að líða þegar endurskoðun fór fram. Sú vísitala sé reiknuð eftir á, um áramót, og sé því inni í henni allar hækkanir á árinu. Síðasta endurskoðun þessa verðgrundvallar hafi farið fram í maí 1976 sbr. orðsendingu nr. 5, 1976 um landbætur.

Eignarnemi leggur sérstaka áherslu á það, að við gerð þessa verðgrundvallar hafi verið leitað til hæfustu sérfræðinga í þessum málum hér á landi og þurfi því sterk rök fyrir því, ef meta skuli land hærra verði en álit þessara aðila segi til um.

Eignarnemi tekur fram, að í þessu máli sé um að ræða 34.500 m² af ræktunarhæfu grónu landi og andvirði þess lands skv. fyrrgreindri orðsendingu á kr. 3.00 pr. m² sé kr. 103.500. Auk þess bíður eignarnemi bætur fyrir efnistöku á ca. 1 ha. af landi kr. 30.000. Eignarnemi telur að til frádráttar þessu eigi að koma gamall vegur sem skilað hafi verið til landeigenda 1150 m. að lengd og reikna eigi breidd hans 9 m., þar sem girt sé nálægt kanti að vestanverðu eða 10.350 m² sem reikna eigi á kr. 1,- pr. m² eða samtals kr. 10.350. Boðnar heildarbætur eignarnema nemi því kr. 123.150,-. Eignarnemi segir að uppsetning girðingar, jöfnun lands og uppgræðsla muni fara eftir því, sem lög standi til.

Greiðslutilboð sitt kveður eignarnemi við það miðað að ekki séu fyrir hendi sérstakar aðsæður, sem réttlætt gætu hærri bótagreiðslur og breyti kauptilboð Magnúsar Ólafssonar engu þar um. Bæði sé að kauptilboð Magnúsar hljóti að miðast við valinn stað og sé því ekki raunhæft að verðleggja allt land Árness út frá því og einnig geti persónulegar ástæður og mat tilboðsgjafa legið að baki tilboðsupphæð hans, án þess að um raunverulegt söluverðmæti landsins sé að ræða.

Þá bendir eignarnemi á að gamall vegur leggist af við tilkomu hins nýja vegar og falli til landeigenda. Sumarbústaðir séu ekki byggðir nema í góðri fjarlægt frá rykugum þjóðvegum og því sýnist staðan ekki breytast mikið þó að vegurinn sé færður til í landinu. Hluti landsins verði varla eftir sem áður nýttur, sem sumarbústaðaland vegna nálægðar við þjóðveginn. Einnig bendir eignarnemi á 10. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sem banni byggingu sumarbústaða nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum sbr. 33. gr. sömu laga, sem takmarki heimild til frjálsrar verðlagningar á landinu.

Varðandi bótakröfu landeigenda vegna skemmda og óhagræðis af sundurskiptingu landsins, bendir eignarnemi á, að svo hátti til á flestum bújörðum hér á landi að vegur eða vegir skipti þeim og hluti þær niður. Megi vel vera að oft sé þetta til óhagræðis fyrir ábúendur jarðanna og jafnvel til fjárhagslegs tjóns í sumum tilvikum, án þess að um bótaskylt tjón væri að ræða. Megi e.t.v. orða þetta svo, að óþægindi þessu séu venjuhelguð kvöð á bújarðir og óhjákvæmileg afleiðing vegagerðar, en vegagerð sé viðurkennd sem forsenda byggðar í landinu.

Þá bendir eignarnemi á til samanburðar að til séu lagafyrirmæli, sem leggi bótalaust skyldur og kvaðir á jarðeigendur beinlínis vegna vegagerðarframkvæmda í landi þeirra sbr. 7. gr. girðingalaga nr. 10/1965.

Varðandi land Nesbæja bendir eignarnemi á, að hér sé um að ræða 6,6 ha. af landi jarðanna vestan Aðaldalsvegar. Land þetta sé ræktunarhæft og óhagræðið sé því í lágmarki, ef landinu yrði bylt og breytt í tún þar sem litlu muni að sækja heyskapinn yfir Aðaldalsveg og nytjar ættu að haldast svipaðar.

Eignarnemi kveðst hafa tekið jarðefni á ca. 1 ha. af landi Nesbæja og bjóði hann fyrir það kr. 30.000 í bætur.

Mótmæli hann kröfum landeigenda um kr. 30,- pr. rúmmetra og kr. 10,- pr. rúmmetra, sem alltof háum og til muna hærri heldur en það verð, sem eignarnemi greiði fyrir jarðefni í næsta nágrenni þéttbýlisstaða, sem sé á markaðssvæðum, en þá sé greitt fyrir jarðefni á bilinu frá kr. 1,- pr. rúmm. til kr. 10,- pr. rúmm. Ekki kveður eignarnemi sýnilegan sölumarkað fyrir jarðefni úr landi Nesbæja í Aðaldal.

Eignarnemi tekur fram að fari svo mót von hans, að land Nesbæja yrði metið hærra, heldur en orðsending nr. 5/1976 um landbætur segi til um, að til samræmis yrði þá einnig að hækka verðlagningu á landi því, sem gamli vegurinn tók yfir og draga það frá bótum, sbr. 61. gr. vegalaga nr. 66/1975.

Einnig bendir eignarnemi á, með vísun til sömu greinar vegalaga að til frádráttar bótum eigi að meta hagræðingu bújarða af endurlagningu vega. Gamli Aðaldalsvegurinn, hafi verið niðurgafinn götutroðningur, sem ófær hafi orðið í fyrstu snjóum og hafi því endurlagning hans verið byggðarlaginu ómótmælanlega til mikils hagræðis og fjárhagslegs ávinnings.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt umboðsmönnum eignarnámsþola og eignarnema og skoðað landið og aðstæður á þessum stað. Hafa aðilar skýrt mál sitt fyrir nefndinni bæði munnlega og skriflega. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust. Matsnefndin hefur kynnt sér löggjöf þá, sem á einn eða annan hátt náði til vegagerðar á þeim tíma sem verkið var framkvæmt svo og breyting þeirrar löggjafar síðan. Lögin eru þessi: Vegalög, girðingarlög og jarðræktarlög.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 66/1975.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum enda komi fullar bætur fyrir . Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Auk þeirra gagna, sem málsaðilar hafa lagt fram hefur Matsnefndin aflað sér eftir föngum frekari upplýsinga um búskap og búrekstraraðstöðu á Nesbæjum.

Þá hefur nefndinni borist orðsending Vegagerðar ríkisins nr. 9/1977 um landbætur.

Matsnefndin hefur athugað aðstöðubreytingu þá, sem yrði í búrekstri Nesjarða, ef taka þyrfti til ræktunar lönd austan Láxár sem eru í, eftir vegi, um 8 km. fjarlægð frá núverandi ræktunarlandi vestan ár.

Mjög góða loftljósmynd af löndum Nesjarða, austan og vestan Laxár, fékk nefndin að láni hjá Stefáni Skaftasyni. Myndin er í stærðarhlutföllunum 1:5000 og sýnir myndin greinilega legu gamla vegarins og þess nýja á um 3ja km kafla.

Af gögnum málsins sem að framan hafa verið rakin komst Matsnefnd að eftirfarandi niðurstöðu:

1.   Tilfærsla vegarins veldur eignarnámsþolum óþægindum og leggur á þá fjárhagslegar kvaðir í framtíðinni í auknu viðhaldi girðinga, sem þeir hefðu ekki annars þörf fyrir.

2.   Tilfærsla vegarins til austurs klýfur frá öðru landi Nesjarða landspildu að stærð 8.0 ha. þar af telst gott ræktunarland mólendi 6.6 ha. og óræktanlegt land 1.4 ha. Land þetta hefur áður verið nýtt, sem beitiland en þegar það nú er fráskorið öðru landi jarðanna með girðingu verður það ekki nýtt á þann veg, þar sem engin vatnsból eru í því fyrir búpening.
   Eigi að hafa arð af landi þessu verður það, að áliti matsmanna, að nýtast sem ræktað land til fóðuröflunar.
   Þá ber ennfremur að taka tillit til þess, að nokkuð af bestu gróðurmold spildu þessarar var urin við veglagninguna en þetta hefur þau áhrif að auka þarf tilfærslu jarðvegs við jöfnun og ræktun landsins. Þá má gera ráð fyrir að auka þurfi notkun tilbúins áburðar á spilduna frá því sem annars þurfti að vera. Að þessu öllu athuguðu þykir rétt að meta til bóta hluta af kostnaði við uppbyggingu landsins til ræktunar, en gert er ráð fyrir að Vegagerðin gangi frá jöfnun og uppgræðslu annars lands og girðingum eins og lög ákveða.

   Að þessu öllu athuguðu ákvarðast bætur til eignarnámsþola þannig:

   1.   Land undir vegsvæði
      3.45 ha. á kr. 60.000,- pr. ha.......................   kr.   207.000,-
   2.   Bætur vegna endurbyggingar á
      6.6 ha. lands................................................   kr.   198.000,-
   3.   Malartekja 7400 m3   kr.   111.000,-
   4.   Leirnám 3064 m3   kr.   15.320,-
   5.   Bætur vegna óhagræðis og óþæginda.........   kr.   200.000,-
            kr.   731.320,-

      Til frádráttar kemur gamla vegstæðið
      1.035 ha. metið á kr. 15.000,- pr ha.   kr.   15.525,-
         Bætur samtals    kr.   715.795,-

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. laga nr. 11/1973 kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000,-

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson ráðunautur og Ögmundur Jónsson verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþolum, eigendum Nesbæja í Aðaldal, Suður-Þingeyjarsýslu, kr. 715.795,-

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000,-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum