Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 1979 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 7. nóvember 1979

Ár 1979, miðvikudaginn 7. nóvember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Hólmavíkurhreppur
                  gegn
                  Kristjáni Eyjólfssyni
                  Hólmavík o.fl.

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 2. júní 1977 hefur sveitarstjóri Hólmavíkurhrepps, Jón Kr. Kristinsson, farið þess á leit við Matsnefndina, að metnar verði eignarnámsbætur fyrir spildu úr landi Kálfaness í Hólmavíkurhreppi, skv. uppdrætti er fylgdi með beiðninni.

Segir í matsbeiðninni, að eignarnema sé nauðsyn að eignast þetta land til skipulagningar fyrir íbúðarbyggð og að eignarnámsheimildin sé byggð á 27. gr. skipulagslaga nr. 19 frá 1964.

Með beiðninni um matið fylgdi samþykki félagsmálaráðuneytisins til eignarnámsins. Segir í matsbeiðninni að öll spildan sé ca. 15 ha. og að þar af sé talið samkvæmt tillögu starfsmanns skipulags ríkisins, að byggingaland gæti verið ca. 6 ha. Þá fylgdi einnig beiðninni skrá yfir stærð ræktaðs lands og eigendur ræktunar og girðinga. Einnig fylgdi veðbókarvottorð ásamt uppdrætti af landinu.

Í bréfi félagsmálaráðuneytisins dags. 11. maí 1977 segir á þessa leið: "Ráðuneytið hefur fjallað um erindi yðar í bréfi dags. 2. mars 1977 varðandi eignarnám á spildu úr landi jarðarinnar Kálfaness, þ.e. sunnan þjóðvegarins frá Kálfaneslæk að læk milli húsanna Hafnarbraut 2 og 4 Hólmavík.

Að fenginni jákvæðri umsögn skipulagsstjórnar ríkisins tilkynnist yður hér með hr. sveitarstjóri, að ráðuneytið fellst á tilmæli yðar sbr. 27. gr. laga nr. 19/1964, þar sem sveitarfélaginu er nauðsynlegt að eignast land þetta, vegna fyrirsjáanlegrar og eðlilegrar þróunar sveitarfélagsins."

Nokkur vafi hefur komið fram í málinu um eignarrétt að hluta af landi því, sem hér er óskað eignarnámsmats á og jafnvel hefur veðbókarvottorð um eignir þessar verið dregið í efa, mskj. nr. 4, en á mskj. nr. 40 eru skýringar á uppdrætti á loftmynd af landsvæði því, er eignarnemi hefur fengið eignarnámsheimild félagsmálaráðuneytisins á og er landsvæði þessu þar skipt þannig:

    A:   Svæði innan "gömlu verslunarlóðar".
    1.   Lóð undir sýslumannsbústað, leigulóð.
    2.   Ræktað land sameign landeigenda þ.e. ræktun.
    3.   Ræktað land sameign landeigenda þ.e. ræktun.

    B:   Svæði tilheyrandi Kálfaneslandi:
    1.   Ræktað land og girðing talin séreign erfingja Ingibjargar Finnsdóttur.
    2.   Ræktun og girðing talin eign Bjarna Halldórssonar, vísað til samnings.
    3.   Ræktun talin eign Kristjáns Eyjólfssonar.
    4.   Leigulóð, lóðarhafi Orkubú Vestfjarða.
    5.   Ræktun, land og girðing, talin séreign erfingja Benedikts Finnssonar. Landsvæði þetta er talið að flatarmáli 13260 m² og er það talið að hluta til ræktað.
6-7.   Ræktun og girðingar ásamt landi talin eign Hólmavíkurhrepps.
    8.   Ræktun og girðing, talin eign Guðmundar J. Arngrímssonar en raunverulegur eigandi sé Kristján Eyjólfsson sbr. samning.
    9.   Ræktun og girðing talin eign Þorsteins Jónssonar.
10.   Ræktun og girðing ásamt mannvirkjum talin eign Kristjáns Eyjólfssonar.

Þriðjudaginn 15. maí 1979 var fundur í Matsnefnd eignarnámsbóta haldinn á Hólmavík.

Á þessum fundi var bókað eftirfarandi:

"F.h. eignarnema er mættur Halldór Sigurjónsson, sveitarstjóri. Lögmönnum aðila var kunnugt um, að nefndin myndi fara til Hólmavíkur í vettvangsgöngu og höfðu þeir ekkert við það að athuga, en þeir höfðu báðir áður ásamt fleiri aðilum gengið á vettvang með nefndinni.

Nefndin leggur fram sem mskj 51, skrá Sigurðar Þorsteinssonar byggingarfulltrúa og Brynjólfs Sæmundssonar, héraðsráðunauts yfir byggingar og girðingar á landinu, svohlj. ###

Nefndin kom á sýsluskrifstofuna og ræddi við Hans Magnússon ftr. Var honum tjáð að nefndin myndi líta á svokallaðan hænsnaskúr og girðingar. Sýslumaður var staddur í Reykjavík.

Brynjólfur Sæmundsson fylgdist með nefndarmönnum við vettvangsgönguna og veitti upplýsingar.

Matsnefndin gekk síðan á vettvang og skoðaði hús og girðingar og landið.

Þá eru mætt hjá nefndinni frú Arndís Benediktsdóttir og eiginmaður hennar séra Andrés Ólafsson.

Einnig er mættur Kristján Eyjólfsson.

Aðilar eru sammála um eftirfarandi:

1)   Að land nr. 6-7 sé eign Hólmavíkurhrepps og þeim óviðkomandi.

2)   Þau telja varðandi land nr. 8, sem talið er eign Guðmundar J. Arngrímssonar, að ræktun og girðingar tilheyrandi þessu landi séu nú eign sameigendanna að landinu, svo og landið sjálft, eins og segir hér á eftir. Þau telja að öll réttindi Guðmundar séu nú úr sögunni.

3)   Það er sameiginlegt álit þeirra, að land nr. 5 sé séreign barna Benedikts Finnssonar, ásamt ræktun og girðingum.

4)   Að land nr. 1 (BI) mskj. 38, ræktunin og girðingin líka, sé séreign erfingja Ingibjargar Finnsdóttur.

5)   Að allt annað land, en það sem tekið er undan hér að framan svo og að undanteknu gömlu verslunarlóðinni, sem sameiginleg óskipt eign 1) Að 1/3 hluta Kristjáns Eyjólfssonar, 2) Að 1/3 hluta eign erfingja Benedikts Finnssonar (Arndísar, Finns, Ingimundar og Guðrúnar), 3) Og að 1/3 hluta sé eign erfingja Tómasar Brandssonar (Kristínar, Valgerðar, Brands og Elsu).

Aðilar eru sammála um, varðandi tl. nr. 6 á mskj. 51 sbr. tl. 2 á mskj. 40, að Bjarni Halldórsson sé ekki eigandi að ræktun og girðingu skv. samningi hans um landið, sbr. mskj. 36.

Það sem talið sé eign Bjarna sé sameign hinna 3ja hópa, sbr. tl. 5 hér að framan.

                  Upplesið. Staðfest.

                  Arndís Benediktsd.
                  Kristján Eyjólfsson
                  Andrés Ólafsson   "

Eigendur að þeim hluta "gömlu verslunarlóðarinnar" sem kemur inn í þetta mál eru ágreiningslaust eftirtaldir aðilar: Kristján Jónsson að 2/5 hlutum, erfingjar Ingibjargar Finnsdóttur að 1/5 hluta, Arndís, Finnur, Ingimundur og Guðrún Benediktsbörn að 2/5 hlutum:

Á mskj. nr. 51 er fjallað um hús og girðingar á landinu og eigendur þessara mannvirkja, og er skýrslan sem hér segir:

"Þann 26. apríl 1979 skoðuðum og mældum við undirritaðir, samkvæmt beiðni sveitarstjórans á Hólmavík mannvirki, hús og girðingar á landi því sem Hólmavíkurhreppur hefur óskað eftir eignarnámi á og Matsnefnd eignarnámsbóta hefur óskað eftir upplýsingum um.

Mannvirki þau sem hér um ræðir eru sem hér segir:

A.   Hús:

1)   Hlaða, eign Kristjáns Eyjólfssonar, að stærð 10,65 x 3,70 x 2,85 = 112,3 m3.

2)   Fjárhús, eign sama, að stærð 12,35 x 5,00 x 2,30 = 142,0 m3.

3)   Fjárhús, eign sama, að stærð 8,85 x 2,25 x 1,60 =31,9 m3.

4)   Vélarskúr, eign sama, að stærð 3,9 x 3,7 x 2,35 = 33,9 m3.
   Húsi þessi eru öll byggð upp af bárujárnsklæddri trégrind, á fótstykkjum úr timbri, grunnur ósteyptur. Í fasteignamati eru þau sögð byggð 1958 og metin á kr. 556.000.-.

5)   Skúr, notaður sem hlaða, eign Þorsteins Jónssonar, að stærð 6,60 x 3,45 x 2,50 = 56,9 m3. Skúr þessi er að mestu úr bárujárnsklæddri trégrind á ósteyptum grunni. Hann er ekki metinn í fasteignamati og óvíst um aldur.

6)   Geymsluhús, eign Orkubús Vestfjarða, að stærð 8,60 x 5,05 x 2,40 = 104,2 m3. Grunnur steyptur, timburgrind, timburklætt og járnvarið. Vel við haldið.

7)   Vélarhús, eign Orkubús Vestfjarða, að stærð 12,20 x 6,15 x 3,55 = 266,4 m3. Grunnur steyptur, timburgrind, múrhúðað innan, járnvarið utan.

8)   Skúr, eign Andrésar Ólafssonar, að stærð 2,70 x 2,10 x 1,90 = 10,8 m3. Skúr þessi er gamall, á ósteyptum grunni, timburklæddur, með járnþaki.

9)   Reykkofi, ætlaður eign Kára Sumarliðasonar, að stærð 2,10 x 2,10 x 2,10 = 9,3 m3. Stendur á s.k. Nátthögum, er færanlegur, úr járnklæddri timburgrind, gamall og af sér genginn.

10)   Hænsnaskúr, eign sýslumannssetursins, að stærð 3,00 x 2,10 x 2,10 = 13,2 m3. Gamall, en óvíst um aldur.

Auk framangreindra bygginga er bárujárnskofi sem stendur á eignarlandi Hólmavíkurhrepps, en er ekki talinn til verðmæta.

B.   Girðingar:

1)   Eign Kristjáns Eyjólfssonar. Lengd 642 m. Girðingar þessar eru flestar gamlar og lélegar.

2)   Eign Þorsteins Jónssonar. Lengd 284 m. Meirihluti þessara girðinga er vel gripheldur, en annað eldra og lakara.

3)   Eign Andrésar Ólafssonar. Lengd 340 m. Meirihlutinn vel gripheldur.

4)   Eign Hólmavíkurhrepps. Lengd 523 m. Gamlar og ástand lélegt.

5)   Eign Orkubús Vestfjarða. Lengd 40 m. Ásigkomulag gott.

6)   Eign Bjarna Halldórssonar. Lengd ca. 210 m. Girðing þessi var að mestu rifin 1977, en var gömul og léleg.

7)   Eign erfingja Ingibjargar Finnsdóttur. Lengd ca. 80 m. Girðing þessi var að mestu rifin 1977, en var gömul og léleg, að hluta til gamalt garðlag.

8)   Eign Kristjáns Jónssonar. Lengd ca. 316 m. Hluti þessara girðinga var rifinn 1978, en þær voru gamlar og mjög lélegar, að hluta gömul grjóthleðsla.

9)   Eign sýslumannssetursins. Lengd 360 m. Þessar girðingar eru að meirihluta nýlegar og í góðu ásigkomulagi.

                  Hólmavík, 26. apríl 1979

      Sigurður Þorsteinsson,   Brynjólfur Sæmundsson
      byggingafulltrúi.   héraðsráðunautur.      "

Mál þetta var fyrst tekið fyrir á Hólmavík 24. ágúst 1977. Fór þá fram fyrsta vettvangsskoðun að viðstöddum þeim aðilum og umboðsmönnum aðila, sem mættir voru, en þeir skýrðu sjónarmið sín fyrir matsmönnum.

Þar sem ekki náðist samkomulag með aðilum á staðnum var að lokinni vettvangsgöngu færð til matsbókar svofelld bókun:

"Lögmaður eignarnema óskaði nú þess fyrir umbj. sinn, að sveitarstjórnin fái nú þegar umráð þess, sem hér um ræðir, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnámsþolar kveða sig geta samþykkt að hreppsnefndin fái nú þegar umráð landsins, enda setji hreppsnefndin tryggingu fyrir væntanlegum bótum.

Matsmenn voru sammála um, að leyfa eignarnema að taka nú þegar umráð þess lands, sem hér um ræðir, með tilvísun til 14. gr. laga nr. 11/1973 gegn átta milljón króna bankatryggingu fyrir væntanlegum bótum.

Samkomulag var um að fresta málinu til greinargerða og gagnasöfnunar um óákveðinn tíma, og verður málið næst tekið fyrir að Ingólfsstræti 10, Rvk."

II.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnema, Skúli Pálmason, hrl. Í greinargerð sinni rekur hann nokkuð eigendur að landi þessu og eigendaskipti, sem fram hafa farið. Einnig ræðir hann um stærð landsins, staðhætti og nýtingarmöguleika landsins sem byggingarlands. Heldur hann því fram, að stór hluti lands þessa sé óhæfur til bygginga.

Fyrst í þessu efni nefnir eignarnemi klapparholtin, sem trauðla verði nýtt til bygginga sökum þess kostnaðar, sem því sé samfara, bæði fyrir byggjandann sjálfan og ekki síður fyrir sveitarfélagið. Einnig muni kostnaður við gerð gatna og holræsa verða óheyrilegur. Þá sé ekki síður erfiðleikum bundið að nýta til húsbygginga hvamma og lautir, sem liggja milli klapparholtanna. Hver hvammur og laut yrði að vera sjálfstæð eining, slitin að mestu úr tengslum við aðra byggð. Þar þyrfti m.a. að vera sjálfstætt holræsakerfi til sjávar, því erfitt yrði að leggja holræsi milli klapparholtanna og tengja holræsin saman á svæðinu.

Þá telur eignarnemi, að gatnagerð milli holtanna verði kostnaðarsöm svo og gerð annarra veitukerfa s.s. síma og rafmagns. Þá sé einnig líklegt, að snjór setjist í lægðir á vetrum og valdi erfiðleikum.

Til frekari upplýsinga um byggingarhæfni landsins vísar eignarnemi til bréfs Hrafns Hallgrímssonar, arkitekts, hjá Skipulagi ríkisins, mskj. nr. 27, en af því skjali megi ráða, að nýtanlegt land sé einungis 6 ha. af 15 ha., eða um 40% alls landsins.

Þá segir eignarnemi, að landið í heild sé fremur magurt til ræktunar og sundurslitið. Ræktunarmöguleikar séu því litlir á því svæði, sem ekki hafi þegar verið brotið til ræktunar.

Eignarnemi kveður erfiðleikum bundið að ákvarða landverð, því þar komi til álita ýmis samverkandi atriði. Verðlag lands og lóða sé mjög breytilegt eftir því hvort landið sé í þéttbýli eða nágrenni þess eða í strjálbýli. Auk þess sé landverð með ólíkum hætti jafnvel í nágrenni þéttbýlis, eftir því hvar sé á landinu. Hann telur að ráðandi þáttur í þessu efni sé íbúafjöldi viðkomandi byggðar og fólksfjölgun svæðisins. Því fleiri íbúar þeim mun hærra verð.

Þá kveður eignarnemi að atvinnuástand, félagsleg aðstaða s.s. læknisþjónusta og skólafyrirkomulag, ástand húsnæðismála, gatnagerðar og fleira skipti miklu máli í þessu sambandi.

Eignarnemi telur það rétt, að tilgangur eignarnámsbóta sé sá að tryggja eignarnámsþola fullt verð fyrir eign sína í samræmi við 67. gr. stjórnarskrárinnar, en hvorki meira né minna.

Eignarnemi hefur ekki upplýst um frjálsa sölu lands í nágrenni hins eignarnumda lands í þessu máli, enda munu slíkar sölur fátíðar á þessum stað. Hins vegar gerir lögmaður eignarnema í málinu ítarlega grein fyrir landa- og lóðasölum í Bolungarvík, Eyrarbakka, Borgarnesi, í Grundarfjarðarhreppi, á Akranesi og víðar.

Eignarnemi bendir á, að hann hafi fyrir um tveimur árum fest kaup á tveim landspildum, sem falli innan marka eignarnámslandsins og verð á m² hafi í þeim kaupum verið kr. 15.-. Hér sé um að ræða eitthvert besta byggingarlandið á svæðinu og innifalið í þessu verði séu bæði ræktun og girðingar. Þá hafi eignarnemi á fyrri hluta árs 1974 samið um kaup á ca. 10 ha. landspildu á skipulögðu svæði fyrir kr. 3.250.000.- og skyldi helmingur greiddur út en eftirstöðvarnar greiddar með 5 jöfnum árlegum afborgunum með 11% ársvöxtum. Telur eignarnemi að verð á landinu hafi í þessu tilfelli verið ca. kr. 24.38 pr. m².

Ekki hafi að vísu orðið úr þessum kaupum, þó að undirritaður samningur um þau hafi legið fyrir, þar sem eignarnemi hafi ekki átt þess kost að afla samþykkis sýslunefndar Strandasýslu áður en frestur seljanda rann út.

Þá bendir eignarnemi á, að á árinu 1977 hafi Hvolhreppur í Rangárvallasýslu keypt jörðina Stórólfshvol fyrir kr. 18.000.000.- og skyldu kr. 8.000.000.- greiðast út við afsal en 10.000.000.- hafi verið lánaðar til 8 ára með 12% ársvöxtum. Telur eignarnemi að verð á fermetra lands í þessu tilfelli hafi verið ca. kr. 10.50, sé litið framhjá verðmæti útihúsa og hagstæðum greiðslukjörum. Land þessarar jarðar liggi umhverfis kauptúnið Hvolsvöll og sé að hluta í skipulögðu svæði.

Þá hafi Bolungarvíkurkaupstaður keypt jörðina Hól í Bolungarvík í nóvembermánuði 1977 fyrir kr. 25.000.000.- en þar af hafi hús verið brunavirt á kr. 13.483.000.-.

Þá bendir eignarnemi á kaup ríkissjóðs á landspildu úr landi jarðarinnar Klafastaða til afnota fyrir járnblendiverksmiðju. Ríkissjóður hafi þarna keypt ca. 80 ha. lands og söluverð verið kr. 7.200.000.- fyrir landið en hafnaraðstaðan við Grundartanga hafi verið keypt fyrir kr. 6.000.000.-.

Eignarnemi gerir þær kröfur varðandi mat á eignarnámsbótum í þessu máli, að Matsnefnd eignarnámsbóta meti sérstaklega:

1.   Grunnverð landsins.
2.   Ræktun þar sem það á við.
3.   Mannvirki á lóðum og lendum, undanskilið embættisbústað sýslumanns.
4.   Erfðafesturéttindi Dómsmálaráðuneytisins á sýslumannslóðinni.

Varðandi síðasttalda atriðið óskar eignarnemi þess, að Matsnefnd meti sérstaklega grunnverð landsins á umræddri lóð, þegar tekið sé tillit til þeirrar kvaðar sem erfðafesturéttindin hafi í för með sér fyrir landeigendur.

III.

Mál þetta hefur flutt fyrir eigendur "gömlu verslunarlóðarinnar" Jón G. Kristjánsson, hdl., en eigendur "gömlu verslunarlóðarinnar" eru eftirfarandi aðilar: Kristján Jónsson að 2/5 hlutum, erfingjar Ingibjargar Finnsdóttur að 1/5 hluta og Arndís, Finnur, Ingimundur og Guðrún Benediktsbörn að 2/5 hlutum.

Lögmaður eignarnámsþola gerir þær kröfur í málinu, að kröfum eignarnema um eignarnámsmat á hinni svonefndu verslunarlóð verði vísað frá Matsnefndinni. Til vara, verði Matsnefndin ekki við framangreindri kröfu, þá komi fullt verð fyrir verslunarlóðina og verði stærð og verð þess lands sérgreint í matinu. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi eignarnema.

Lögmaður ofangreindra aðila hefur gengið á vettvang í málinu ásamt Matsnefndinni og nokkrum eignarnámsþolum.

Þá hefur lögmaðurinn skrifað ítarlega greinargerð í málinu og fylgst með rekstri þess allt þar til það var tekið til úrskurðar.

Þær ástæður sem þessi lögmaður ber fyrir frávísunarkröfu sinni varða aðallega, að ekki sé tilgreind nægilega heildarstærð landsins og lega, afstaða og stærð landspildna einstakra matsþola og uppdrátt vanti, sem matsbeiðandi hafi lofað að leggja fram í málinu.

Þá heldur hann því fram, að Matsnefndinni sé skylt, þegar málum eins og þessum sé steypt svona saman, að kveða upp sjálfstætt mat um hverja einstaka eignarspildu, nefna stærð hennar og verð.

Eins og síðar verður rakið í málinu hefur verið bætt úr þeim atriðum, sem lögmaðurinn telur vera ábótavant undir rekstri málsins og telur Matsnefndin, að er málflutningi hafi verið lokið hafi þessum atriðum verið fullnægt nægilega og ekki séu efni til þess í málinu að frávísa því frá Matsnefndinni af þeim ástæðum, sem lögmaður eigenda "gömlu verslunarlóðarinnar" fer fram á.

Lögmaðurinn telur, að verslunarlóðin hafi sérstöðu þar sem m.a. gildi um hana staðfest skipulag. Telur hann að eðlilegra hefði verið að öll verslunarlóðin hefði verið metin í einu og sama málinu.

Matsnefndin telur ekki að þessar ástæður eigi að valda frávísun málsins, enda sá hluti verslunarlóðarinnar, sem um er fjallað í þessu máli skýrt afmarkaður á uppdráttum og mældur af verkfræðistofunni Forverk h.f.

Að því er varðar verðmæti landsins segir lögmaðurinn, að það sé mun verðmeira en lögmaður eignarnema haldi fram. Í þessu sambandi mótmælir hann því, að stór hluti landsins sé óhæfur til bygginga. Hann bendir á að í 29. gr. vegalaga segi, að í kaupstöðum skuli götur og vegir lagðir þar sem ákveðið sé í skipulagsuppdrætti og ákveði sveitarstjórn um gerð gatna og vega. Í 69. gr. sömu laga segi, að þar sem þjóðvegur liggi um skipulagt svæði skuli fjarlægð bygginga frá vegi ákveðin í samræmi við skipulag. Það sé því augljóst, að það sé sveitarfélag sem ráði alfarið um fjarlægð bygginga frá miðlínu götu og tilvitnun eignarnema í 69. gr. vegalaga um 15-20 m. fjarlægð frá miðlínu götu eigi alls ekki við í þessu máli. Lögmaður þessara matsþola heldur því fram, að hið eignarnumda land liggi á einum fallegasta og besta staðnum í þorpinu til að reisa þar íbúðarbyggð og kostnaður við að gera það byggingarhæft sé ekki meiri en verið hafi hjá hreppnum til þessa í gömlu Hólmavík. Lögmaðurinn bendir á, að innan marka verslunarlóðarinnar, sem eignarnám sé krafist á, séu lóðir undir húsunum Hafnarbraut 1 og 2 og fasteignamat þeirra lóða sé kr. 625.- pr. m². Telur hann að rétt sé að hafa þetta verð í huga hvað varði verslunarlóðina.

Lögmaðurinn bendir á, að það hafi komið fram í greinargerð nokkurra matsþola, sbr. mskj. nr. 32, að eignarnemi taki í ár kr. 16.00 pr. ferm í lóðarleigu af nýjum lóðum. Samkvæmt þeirri leigu, sem eignarnemi hafi þannig einhliða ákveðið, þá virðist hann meta höfuðstólsverð landsins á ca. kr. 400.- pr. m².

Sé margfeldisstuðull 15, en þá sé sá stuðull, sem skattayfirvöld noti til að ákvarða afgjaldskvaðarverðmæti lóðar, væri höfuðstólsandvirði landsins kr. 240.- pr. m².

IV.

Einn hluti af því landi, sem Hólmavíkurhreppur óskar eignarnámsmats á í málinu er landspilda, sem Dómsmálaráðuneytið hefur á erfðafestu og sem bústaður og embættisskrifstofur sýslumannsins er reistur á og gengur í þessu máli undir nafninu sýslumannslóðin. Erfðaleigusamningur var gerður um lóð þessa 25. febr. 1940 við þáverandi sýslumann Jóhann Salberg Guðmundsson en hann hefur síðar afsalað Dómsmálaráðuneytinu þessum réttindum sínum.

Formaður Matsnefndarinnar hafði samband við ráðuneytisstjóra Dómsmálaráðuneytisins strax þegar mál þetta kom fyrir en ráðuneytið skrifaði sýslumanni 23. okt. 1978 og bað hann um að gæta hagsmuna ríkissjóðs í máli þessu, sem rétthafa lóðar embættisbústaðar sýslumanns.

F.h. þessa matsþola hefur fyrrverandi sýslumaður, Rúnar Guðjónsson, flutt mál þetta.

F.h. umbj. síns gerir hann eftirfarandi kröfur: Aðallega: Að kröfu eignarnema um eignarnámsmat á sýslumannslóðinni verði vísað frá Matsnefndinni. Til vara: að kröfu hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps um eignarnámsmat á sýslumannslóð verði hrundið. Til þrautavara: Verði Matsnefndin ekki við framangreindum kröfum, þá komi fullt verð fyrir réttindi ríkissjóðs, að mati Matsnefndarinnar. Í öllum tilvikum er krafist greiðslu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi eignarnema.

Hefur umboðsmaður ráðuneytisins skrifað langa greinargerð í málinu. Sýslumaðurinn heldur því fram, að nú þegar sé búið að rýra þessa lóð með ólögmætum hætti og í heimildarleysi, þar sem þegar hafi verið úthlutað sneið af lóðinni undir byggingar. Heldur hann því fram, að það sé eindregin skoðun umbj. síns, að slík skerðing á sýslumannslóðinni, eins og fyrirhuguð sé, sé mjög til þess fallin að spilla fögru umhverfi bústaðarins og rýra lóðina til óþæginda. Auk þessa liggi í hlutarins eðli, að nægilegt landrými sé fyrir hendi til húsbygginga í Hólmavík og því alls ekki þörf fyrir að ryðjast inn á byggðar lóðir. Þá telur sýslumaðurinn, að sér hafi ekki verið gert nægilega aðvart þegar Matsnefndin skoðaði vettvang. Hafi nefndin ekki, að hans áliti, haft nægilegar upplýsingar um landið.

Vegna ummæla í greinargerð sýslumannsins tekur Matsnefndin fram, að sýslumanni hafi alla tíð verið kunnugt um eignarnám þetta. Matsnefndin hafi haft samband við hann eins og aðra, hann hafi skrifað ýtarlega greinargerð í málinu og á þann hátt getað komið öllum sínum sjónarmiðum fram. Hann hafi sjálfur að vísu ekki getað verið viðstaddur þegar fyrsta vettvangsskoðun fór fram en lögmaður eigenda verslunarlóðarinnar, sem land sýslumannsins er hluti af, var viðstaddur vettvangsskoðunina og hefur sá lögmaður skrifað mjög langa greinargerð í málinu, þar sem hann setur fram sínar kröfur og sín sjónarmið. Þá var sýslumaður viðstaddur síðari skoðun á landinu. Réttindi þessa matsþola, sem meta á í málinu eru eingöngu afnotaréttindi hans sem erfðaleiguhafa að landinu. Land þetta er samkvæmt samningi um það talið nánast 4785 m². Í erfðaleigusamningnum segir, að landið sé selt á erfðaleigu óuppsegjanlega, en landið sé tún það úr eignarlandi eigenda verslunarlóðar Hólmavíkur, sem sé fyrir sunnan aðalkauptúnið, þar sem þjóðvegurinn beygir upp og vestur með svonefndum Höfða, sunnan við íbúðarhúsið Litlu-Hellu. Túnið takmarkist að norðan af þjóðveginum, að vestan af túni sem Brynjólfur Brynjólfsson nytji, að sunnan af túni er Magnús Halldórsson hafi til afnota og að austan af sjávarströndinni. Þá segir að tún þetta sé allt girt með grjóti og gaddavír, nema blettur norður af horni þess, sem leigður verði með til viðbótar með sama rétti og sjálft túnið, en bletturinn sé að stærð 187 m².

Þá segir að hinu leigða landi fylgi fjara, eins og lengd landsins meðfram sjó segi til, og réttindi á sjó út, eins og landslög heimili. Leiguréttindi þessi séu óuppsegjanleg og gangi að erfðum og megi framselja þau, veðsetja og leggja á þau önnur eignarbönd. Árlegt gjald fyrir hið leigða land er kr. 75.- og greiðir erðaleigutaki það 1. júní ár hvert.

Réttindi þessa matsþola af landinu eru því eingöngu afnotaréttindi skv. erfðaleigusamningi. Þar sem Matsnefndin hefur rækilega skoðað landið að viðstöddum lögmanni eigenda landsins og síðar sýslumanni sjálfum þykja mótbárur sýslumanns ekki vera þess eðlis, að frávísa beri málinu að því er þessa landspildu varðar, enda sýslumaður átt þess allan kost að koma fram sínum sjónarmiðum og kröfum.

Að því er varðar varakröfu sýslumanns þá rökstyður hann hana með því að einsýnt sé, að nefndin eigi að hafna kröfu eignarnema um eignarnámsmat á lóðinni, þar sem skilyrði fyrir eignarnámi hennar í þeim tilgangi, sem hér um ræðir séu ekki fyrir hendi, þar sem þar skorti algerlega þá "brýnu nauðsyn" sem sé óhjákvæmilegt lagaskilyrði fyrir eignarnámi og varið í stjórnarskránni. Þar sem Matsnefndin telur að fullnægt sé skilyrðum um eignarnám á landi þessu verður þessari kröfu sýslumannsins synjað.

Varðandi þrautavarakröfu matsþola tekur umboðsmaður hans fram, að ef aðal- og varakröfu hans verði neitað hafi umbj. hans í sjálfu sér lítilla hagsmuna að gæta varðandi verðlagningu á réttindum hans, ef eignarnámsmatið nái fram að ganga. Þetta sé m.ö.o. ekki fjárhagslegt atriði fyrir ríkissjóð. Hins vegar telur hann einsýnt að umbj. hans eigi að fá réttmætar og sanngjarnar bætur fyrir erfðaleiguréttindi hans.

V.

Aðrir eignarnámsþolar í máli þessu hafa gætt réttar síns sjálfir. Systkinin Valgerður Tómasdóttir og Brandur Tómasson, svo og Kristín Tómasdóttir og Elsa Tómasdóttir hafa sumpart mætt í málinu og sumpart skrifað nefndinni ítarleg bréf og auk þess upplýst hjá nefndinni fjöldamörg atriði varðandi eigendur og eigendaskipti svo og skiptingu á Kálfanesjörðinni. Þessir eignarnámsþolar mótmæla því, sem þau telja hina "nöturlegu" lýsingu lögmanns eignarnema á landinu. Þau halda því fram að Hrafn Hallgrímsson arkitekt hafi tjáð Valgerði Tómasdóttur, að mikið af Höfðanum væri of fagurt og dýrmætt land sem útivistarsvæði, til að skipuleggja það sem byggingar- eða iðnaðarlóðir. Þau benda á að hann telji samt að þarna megi vera 70 einbýlishús og raðhús og lóðir fyrir 20 íbúðir í fjölbýli. Þau segja að eignarnemi eigi tvær nærliggjandi jarðir auk Stakkamýrar og Stóru-Grundar, sem skipt hafi verið úr Kálfaneslandi árið 1928. Þá eigi eignarnemi Kálfanesflóa og fleiri ítök í Kálfaneslandi. Engin neyð hafi því rekið hreppinn til þess að ágirnast þessa "illnýtanlegu" landspildu.

Matsþolar segja það ekki rétt í greinargerð lögmanns eignarnema, að það komi ekki skýrt fram í skiptalýsingu föður þeirra, að um eignaskipti sé að ræða. Þau telja að dæmi þau sem lögmaðurinn taki um verðlag á lóðum í nágrenni þorpa séu öll valin þar sem söluverð sé mjög lágt, en ekki sé minnst á verð þar sem það sé hátt eða bara hæfilegt. Einnig ber að taka tillit til þess hvernig allt land hafi hækkað í verði síðastliðin ár vegna verðbólgunnar.

Matsþolar segja, að atvinnuskilyrði Hólmvíkinga í framtíðinni séu svipuð til hvers konar iðnaðar og flestir aðrir þorpsbúar á landinu hafi og betri til fisk- og lagmetisiðnaðar. Óþarfi sé að hafa einhverja bölsýnisspádóma í dæminu. Hvað yrði t.d. um Keflavík ef allur fiskur hyrfi og herinn færi burt?

Þá hafa þessi matsþolar bent á, að landamerki við þjóðveg eigi að miðast við gamla þjóðveginn en ekki þann nýja. Þá mótmæla þau eindregið eignarnámi þess lands, sem ekki sé talið hæft til byggingarlóða. Þau telji það verðmesta landið sem liggi að sjó, t.d. Sandskerið sem sé upplagt hafnarstæði, einnig sé lækjarósinn tilvalinn til fiskeldis. Þarna í Hvömmunum milli holtanna hafi þau lengi hugsað sér að byggja sumarbústaði.

Þá hefur verið lögð fram í málinu nokkuð löng greinargerð frá Kristjáni Eyjólfssyni, Arndísi, Ingimundi, Guðrúnu og Finni Benediktsbörnum og vegna barna Magnúsar Halldórssonar, þ.e. erfingja Ingibjargar Finnsdóttur.

Í upphafi þessarar greinargerðar er gerð talsverð grein fyrir eignaskiptum þeim, sem farið hafi fram á milli eigenda Kálfaness. Eru talsverðar upplýsingar með greinargerðinni varðandi þessi eignaskipti. Þau véfengja algerlega skýrslu Kristjáns Jónssonar, er var oddviti Hólmavíkurhrepps 1952, og telja að þar sé farið með staðleysur.

Aðilar mótmæla algerlega þeim skoðunum lögmanns eignarnema, að landið sem verið sé að taka eignarnámi sé næsta lítils virði til nokkurra hluta. Það fái ekki staðist að verið sé að taka land þetta eignarnámi, ef það væri lítt nothæft. Aðilar benda á, að í umsögn Hrafns Hallgrímssonar hjá Skipulagi ríkisins sé gert ráð fyrir óbyggðu svæði meðfram strandlengjunni 40-70 m. frá sjó. Það komi hvergi fram í umsögn Hrafns, að þetta sé fyrirhugað sökum þess að landið sé ónothæft til bygginga, enda sé þetta eitt fegursta byggingarsvæðið af allri landspildunni. Þarna séu sjávarlóðir, hallandi mót suðri og vestri. Á frjálsum markaði myndu þessar lóðir vera dýrustu og eftirsóttustu byggingalóðirnar.
Matsþolar telja rétt að benda Matsnefnd eignarnámsbóta á, að sú hugmynd sé gömul, að gera höfn innan víkurinnar, sem Sandsker myndar við land. Þessi hugmynd hafi lengi verið uppi, enda sé þarna hið ákjósanlegasta hafnarstæði og mun betra en núverandi höfn bjóði upp á. Dýpi sé mikið við klettana innan Sandskers, auk þess sem skerið og land myndi hinn ákjósanlegasta varnargarð á þrjá vegu. Hvort þessi gamla hugmynd verði einhvern tímann að veruleika sé ekki unnt að fullyrða neitt um í dag. Þetta fari eftir vexti og viðgangi Hólmavíkur en möguleikinn sé fyrir hendi. Eigi Hólmavík framtíð fyrir sér verði núverandi bátahöfn fljótt of lítil og þá komi vart aðrir stækkunarmöguleikar til greina en ný höfn við Sandsker. Aðilar telja að þetta sé ástæðan fyrir því, að Skipulag ríkisins telji æskilegt að halda eftir 40-70 m. breiðri landræmu meðfram sjónum við Sandsker. Þar mætti hæglega koma fyrir góðri aðflutningsleið til væntanlegrar hafnar.

Þessi matsþolar benda á, að eignarnámslandinu fylgi þau hlunnindi að frá ómunatíð hafi verið góð silungsveiði fyrir þessu landi og hafi eigendur landsins hver fram af öðrum nytjað þau hlunnindi. Það hafi núverandi eigendur einnig gert. Þessi hlunnindi séu eftirsóknarverð og verðmæt.

Aðilar segja að þá séu ótaldir þeir möguleikar sem Kálfaneslækur og ós hans hafi upp á að bjóða til uppeldis bleikju. Nú þegar sé þar nokkuð bleikjuuppeldi af náttúrunnar hendi. Þá sé það ótalið að til skamms tíma hafi verið ofurlítið æðavarp í Sandskeri en sökum ágangs frá þorpinu hafi tekið fyrir það. Án efa mætti koma því til á ný. Af því sem rakið hefur verið telja aðilar mega sjá það, að það séu ekki einungis ókostir sem land þetta hafi upp á að bjóða heldur ýmsa góða kosti ef vilji sé fyrir hendi til þess að sjá þá og nýta.

Þessir matsþolar mótmæla þeirri fullyrðingu eignarnema, að landið sé lítt fallið til bygginga nema hinir ræktuðu blettir. Víða í þéttbýli séu holtin og óræktaðir ásar dýrustu byggingarlóðirnar sökum útsýnis og benda þau í því sambandi á Laugarásinn í Reykjavík og hraunlóðirnar í Hafnarfirði. Þá sé það og misskilningur að bestu byggingarlóðirnar hljóti að vera á ræktuðu grónu landi.

Þá vekja matsþolar athygli á því, að lóðarleiga eignarnema á lóðum sem hann hafi úthlutað undanfarið hafi verið kr. 16.00 pr. m². Sé í þessum samningum tekið fram, að lóðarleigan fyrir hvern m² lóðar verði 2% af tímakaupi verkamanna í almennri verkamannavinnu eins og það sé hverju sinni miðað við 1. júlí ár hvert.

VI.

Viðfangsefni Matsnefndar í máli þessu er að meta til fébóta landspildur þær og mannvirki, sem tilgreind eru hér að framan og síðar verða nákvæmlega sundurgreind. Er þar m.a. um að ræða erfðaleiguréttindi á hinni svokölluðu sýslumannslóð, svo og grunnverð á nokkrum öðrum landspildum, ræktun þar sem að um hana er að ræða, mannvirki á lóðum, þó undanskilið embættisbústað sýslumanns.

Eignarnámsheimild Hólmavíkurhrepps er byggð á 27. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og virðist ótvíræð enda hefur eignarnemi fengið samþykki ráðherra til eignarnámsins.
Matsmenn hafa gengið á vettvang, auk þess er að framan greinir, og var Brynjólfur Sæmundsson héraðsráðunautur þá í fylgd með matsmönnum.

Sátt hefur verið reynd í málinu, árangurslaust, og var málið tekið til úrskurðar 18. september 1979.

Um sjálfa heildarlandstærðina, lögun landsins og legu, er ekki ágreiningur í málinu. Sama gildir um flatarmál ræktaðs lands, girðingar og önnur mannvirki á landinu.

Stærð landspildna, ræktunar og girðinga og annarra mannvirkja verður rakin nánar hér á eftir við ákvörðun á bótum fyrir hverja eign um sig. Þá verða og tilgreindir eigendur jafnóðum við hver eignarréttindi. Ákvæði erfðaleigusamnings um sýslumannslóðina hafa verið rakin hér að framan og verða ekki tekin upp aftur en vísað til þeirra.

Matsmenn eru sammála um, að við ákvörðun bótanna fyrir erfðaleiguréttindin beri fyrst og fremst að hafa hliðsjón af ákvæðum erfðaleigusamningsins. Við sölu landsins fylgi kvaðir erfðaleigusamningsins og réttindi með í kaupunum og að leigð lóðarnot verði því óbreytt. Að áliti matsmanna hefur eignarnámsþoli að erfðaleiguréttindunum ekki rétt til að skipta landinu niður í byggingarlóðir og selja það þannig og því koma viðmiðanir í þá átt ekki til greina.

Ágreiningur er milli eignarnámsþola og eignarnema um nýtingargildi landsins til bygginga.

Matsmenn eru sammála um að landsvæðið bjóði upp á ákjósanlega nýtingarmöguleika fyrir utan íbúðarhúsabyggingar. Ströndin, hvammarnir og klettaborgirnar geti nýtst til útiveru á fjölbreyttan hátt fyrir þorpsbúa.

Í öllu skipulagi er einnig leitast við að hafa opin svæði sem fólkvanga og beri að meta landið með tilliti til þess.

Í bréfi Skipulags ríkisins 14/7 `78 segir á þessa leið:

"Vegna óska um álit Skipulags ríkisins á byggingarhæfni lands þess sem Hólmavíkurhreppur hyggst taka eignarnámi er gefin eftirfarandi umsögn: Landspilda liggur að sjó á þrjá vegu og afmarkast af Kálfaneslæk að austan. Mörk landsins norðan til eru þjóðvegur. Gert er ráð fyrir 40-70 m breiðu óbyggðu belti með sjó. Á landsvæði þessu má koma fyrir um 70 íbúðum í einbýlis- og raðhúsum og um 20 íbúðum í fjölbýli eða samtals um 90 íbúðir. Ef reiknað er með 3.3 íbúum á íbúð yrðu þetta um 300 íbúar.

Ekki er unnt með neinum tiltækum ráðum að geta sér til um hversu langan tíma það tekur að fullbyggja svæðið, en íbúatala Hólmavíkur hefur vaxið mjög hægt."

Land það, sem meta á er sunnan "gömlu verslunarlóðarinnar" og áfast henni, enda hluti af lóðinni inni í matinu. Landið hefur undanfarið verið nýtt til búrekstrar, og ræktað í því skyni, en mannvirki önnur en sem búrekstri tilheyra aðeins sýslumannshúsið og hús Orkubús Vestfjarða.
Landið er vel í sveit sett og liggur vel við samgöngum. Nýting á stórum hluta þess er hins vegar örðug og kostnaðarsöm vegna landslagsins og klapparholta. Ljóst er að sjávarströndin hagar vel til hafnargerðar, en fólksfjölgun hefir lítil sem engin verið í sveitinni um árabil og hafnargerð ekki á valdi einstaklinga og óraunveruleg í næstu framtíð.

Landsvæði það, sem meta á er skipulagsskylt og deiliskipulagning nú þegar verið gerð á hluta þess og nokkur hús verið byggð á því. Eru ekki glöggar upplýsingar um það, hversu víðtæk deiliskipulagningin verður. Hins vegar benda líkur til þess, að verulegur hluti landsins verði með tíð og tíma notaður til þess að reisa þar hús, en annað land notað til útivistar.

Verður með vísan til almennra reglna um ákvörðun eignarnámsbóta og með hliðsjón af meginreglum 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 þessi nýting landsins lögð til grundvallar matsbótum. Hins vegar er alls óvíst hvenær og hvernig og með hvaða kjörum land þetta hefði nýtst, ef ekki hefði komið til eignarnámsins.

Þá verður almennt að hafa hliðsjón af ákvæðum 30. greinar skipulagslaga nr. 19/1964.

Lýsing bygginga sem til mats koma:

1.   Orkubú Vestfjarða byggingar staðsettar á landi nr. 4B sbr. mskj. nr. 40. Rúmmál bygginga sbr. mskj. nr. 51.

a.   Vélahús

Einstætt risbyggt stöðvar- og verkstæðishús byggt árið 1960. Byggingin er timburgrind reist á steyptum grunni, múrhúðuð í vegghæð að innan en járnvarin að utan. Í þaki eru timbursperrur klæddar borðviði, pappa og bárujárni, óeinangrað. Í norðurhluta byggingarinnar er afþiljaður klefi um 20 m² og er loft hans, sem er tekið niður í vegghæð, klætt krossviði. Til hliðar á suðurgafli eru göngudyr og fyrir miðjum gafli tvívængja hurð til inntöku kælilofts fyrir diesel rafstöð sem þar er staðsett. Á hliðum og norðurgafli eru 6 fjórrúðugluggar. Gólf steypt. Í afþiljaða hlutanum eru nokkrir rekkar við þil fyrir áhöld og varahluti. Raflagnir eru í húsinu sem er hitað upp með rafmagni og lýsing er frá 4 fluorlömpum í lofti.

Vatnslögn er í húsið. Húsið málað að utan og er vel viðhaldið. Flatarmál hússins 75.0 m², rúmmál 266.4 m3.

b.   Geymsluhús

Einstætt risbyggt geymsluhús á steyptum grunni með steyptu gólfi. Útveggir og þak eru timburgrind alklædd borðviði, pappa og bárujárni, óeinangrað. Húsið einn geymur. Tvöföld járnklædd hurð er á vesturgafli byggingar og tveir litlir gluggar eru á hliðum hennar. Raflögn með ljósastæðum og tenglum er í húsinu. Einfalt vinnuborð og nokkrir rekkar fyrir varahluti og annað efni eru í innri henda hússins og annarri hlið. Húsið vel málað að utan, vel við haldið. Flatarmál húss 43.4 m², rúmmál 104,2 m3.
2.   Andrés Ólafsson, skúr, staðsettur á landi nr. 5B sbr. mskj. nr. 40, stærðarmál skúrs sbr. mskj. nr. 51.

Skúrinn timburklædd trégrind með trégólfi, á ósteyptum grunni, með járnþaki. Skúrinn er nokkuð kominn til ára sinna, flatarmál hans er 5.67 m² og rúmmál 10.8 m3.

3.   Þorsteinn Jónsson, skúr, staðsettur á landi nr. 9B sbr. mskj. nr. 40. Stærðarmál skúrs sbr. mskj. nr. 51.

Skúrinn notaður sem hlaða, er úr trégrind á timburfótstykkjum á ósteyptum grunni. Að innan eru gaflar og hliðar klæddar asbesti og að utan að mestu klætt sléttu galvanhúðuðu járni. Skúrþakið er bárujárn á trégrind ómálað. Flatarmál skúrsins er 22.8 m², rými hans 56.9 m3.

4.   Kristján Eyjólfsson, fjárhús, hlaða og vélahús á landi nr. 10B sbr. mskj. nr. 40. Mál húsa sbr. mskj. nr. 51 og eigin athugun.

a.   Sambyggð hús, byggð í áföngum. Elsta byggingin er megin hluti fjárhússins, byggt árið 1958. Grunnur hússins er steyptur. Húsið er grindarhús með steyptum áburðarkjöllurum undir grindum, er rúmmál þeirra 13 m3. Hús þetta er sunnan, vestan og norðan byggt upp af bárujárnsklæddri trégrind, óeinangrað. Það borið uppi af sperrum, klæddum borðviði og bárujárni, óeinangrað. Þakið skúrþak, með halla í suður. Í jötu er steypt baðþró. Rennandi vatn er í húsinu. Húsið ómálað. Samkvæmt mskj. nr. 51 er fjárhúsið talið 61.8 m² að flatarmáli og 142.0 m3. Rýmisaukning verður á byggingu þessari vegna áburðarkjallaranna og verður heildarrúmmál húsanna 155 m3.

b.   Hlaða, sambyggð fyrrnefndu fjárhúsi að norðanverðu. Grunnur hlöðunnar er steyptur. Veggir og þak hlöðunnar, sem er risbyggð, borið uppi af trégrind klæddu bárujárni, ómálað. Baggagöt eru engin á hlöðunni en járnplötur eru teknar úr hliðum þegar fyllt er í eða tekið úr hlöðu. Hlaðan hólfuð í þrennt með bárujárnsplötum vegna votheysverkunar. Upprunalega hefur hlaðan verið byggð sem þurrheyshlaða. Byggingin líklega byggð árið 1960. Flatarmál hlöðu talið 39.4 m², rúmmál 112.3 m3.

c.   Fjárhús, viðbyggt upprunalega fjárhúsinu til austurs. Byggingin er áþekk upprunalegu byggingunni hvað byggingarlag og efni áhrærir að því undanskyldu, að undirveggir og kjallari húss þessa eru ekki steyptir. Ekki er veggur á milli gamla og nýrra fjárhússins sem er einn geymur. Þá er heldur ekki beint samband við hlöðu úr viðbyggingunni, sem veldur aukinni vinnu við fóðrun fjárins. Stærð viðbyggingar talin 14.2 m², rúmmál 31.9 m3.

d.   Vélarhús, byggt við vesturhlið hlöðu. Húsið er klætt bárujárni á trégrind, skúrþak. Stór hurð, járnklædd utan og innan er á húsinu. Húsið ómálað, talið byggt 1977. Stærð hússins 14.2 m², rúmmál 33.9 m3.

5.   Sýslumannslóð, skúr staðsettur á lóð 1A, notaður sem hænsnahús. Skúrinn stendur á hornstólpum úr timbri á ósteyptum grunni. Klæddur járni á trégrind að utan. Að innan er klæðning úr masonitplötum. Skúrþak. Að skúrnum liggur rafmagnskapall, sem ekki er lengur í sambandi. Inni er eitt ljósastæði. Hús þetta er ekki lengur í notkun. Stærð 3.0 x 2.10 m eða 6.3 m² að flatarmáli. Rúmmál 13.2 m3.

Kálfanesland og verslunarlóð - landstærðir

Stærð á öllu svæðinu neðan þjóðvegar er 140.413 m². Þá kemur til viðbótar fjöruland að stærð 3022 m². Frá þessu dregst ofmælt svæði að stærð 1543 m². Samtals verður því svæðið 141.892 m², sbr. mskj. nr. 38 og 52.

Stærð gömlu verslunarlóðar er sem hér segir:

Land   5114 m² fjara 1500 m²

   1A-6614 m²   6614 m²
   2A-1732 -   1732 -
   3A-3687 -   3687 -
   Fjara (2A og 3A)   1522 -
      Samtals 13555 m²

Samtals 13.555 m² sem kemur til mats.

Samkvæmt ofangreindum útreikningum Matsnefndar er því stærð Kálfaneslands frá verslunarlóðinni að Kálfaneslæk, neðan þjóðvegar: 141.892 - 13.555 = 128.337 m² samtals. Til mats koma ekki lönd Hólmavíkurhrepps 6B og 7B samtals 10666 m². Heildarlandstærð Kálfaneslands sem til mats kemur neðan þjóðvegar verður því 117.671 m², þar af er eyjan 2194 m². Séreignir á landi þessu eru 14803 m². Sameignarlöndin því 102.868 m².

Til viðbótar mati þessu kemur síðan landspilda sú, sem er á milli nýja og gamla þjóðvegarins, og er afgangur af sameign á þessum stað, og aðilar hafa orðið sammála um að komi til mats. Stærð þess lands er 2206 m².

Mat á löndum og mannvirkjum

1A   Land neðan vegar frá læk út að landi 2A fjara meðtalin, svo og ræktun sameign.
   Bætur ákveðast þannig:

   Grunnverð lands   5114 m²      716.000
   Fjara      1500 m²      45.000
   Bætur fyrir ræktun         69.000
            Samtals kr.      830.000

   Til frádráttar
   eign ríkissjóðs skv. 1C            753.000
            Sameignarhlutur kr.      77.000.

2A   Land og ræktun sameign. Landstærð 1732 m² fjara um 760 m². Áætluð ræktun 1560 m².
   Bætur ákveðast þannig:

   Grunnverð lands   1732 m²      242.480
   Fjara      760 m²      22.800
   Ræktun            33.720
            Samtals kr.      299.000.-

3A   Land, ræktun og girðing sameign. Landstærð 3687 m². Áætluð ræktun 1840 m². Girðingar 200 m, fjara um 762 m².
   Bætur ákvarðast þannig:

   Grunnverð lands   3687 m²         516.180
   Fjara      762 m²         22.860
   Bætur fyrir ræktun            40.820
   Girðingar               17.140
            Samtals kr.      597.000.-

   Verðmæti sameigna í verslunarlóð kr. 973.000.-

   Séreign ríkissjóðs vegna sýslumannsseturs. Girðingar 360 m, trjágróður og hænsnakofi 13.2 m3.
   Bætur ákveðast þannig:

   Trjágróður            kr.   300.000
   Girðingar               180.000
   Hænsnakofi            25.000
               kr.   505.000.-

1C   Virðing sýslumannslóðar skv. erfðaleigusamningi úr verslunarlóð.

   Land      4607 m²         645.000
   Fjara      1300 m²         39.000
   Ræktun               69.000
               kr.   753.000

Svæði innan Kálfaneslands neðan þjóðvegar.

1B og 11B   Séreign erfingja Ingibjargar Finnsdóttur (Magnúsarbörn). Til virðingar kemur 1303 m² lands, girðing 80l m. Bætur ákveðast þannig:

   Grunnverð lands   1303 m²      kr.   182.420
   Bætur fyrir ræktun            28.600
   Bætur fyrir girðingu            7.060
11B   228 m² lands            31.920
               kr.   250.000.-

2B   Land og ræktun sameign.
   Landstærð 5098 m². Stærð ræktaðs lands 3000 m².
   Girðing 210 lm.
   Bætur ákveðast þannig:

   Bætur fyrir ræktun         kr.   66.000
   Bætur fyrir girðingu         "   25.000
               kr.   91.000.-

3B   Sameign lands. Eigandi ræktunar Kristján Eyjólfsson.
   Landstærð 3259 m². Ræktað land 3040 m².
   Bætur ákveðast þannig:

   Bætur fyrir ræktun         kr.   57.000.-

4B   Orkubú Vestfjarða eigandi mannvirkja, leigul. Sameign lands.
   Landstærð 3677 m². Engin ræktun. Girðing 40 lm.
   Virðing mannvirkja:

   a. Stöðvarhús   266.4 m3      kr.   3.000.000
   b. Geymsluhús   104.2 m3      "   1.042.000
   c. Girðing            "   14.000
               kr.   4.056.000.-

5B   Erfingjar Benedikts Finnssonar, séreign lands og mannvirkja.
   Stærð lands 13272 m². Ræktað land 4520 m².
   Girðingar 340 lm. Skúr 10.8 m3.
   Bætur ákveðast þannig:

   Grunnverð lands   13272 m²      kr.   1.858.080
   Bætur fyrir ræktun         "   99.400
   Bætur fyrir girðingar         "   50.520
   Bætur fyrir skúr         "   8.000
               kr.   2.016.000.-

8B   Land og mannvirki sameign. Stærð lands 1960 m², allt ræktað.
   Bætur ákveðast þannig:

   Bætur fyrir ræktun         kr.   43.000.-

9B   Land sameign. Þorsteinn Jónsson eigandi mannvirkja.
   Stærð lands 9928 m². Ræktað land 7510 m². Girðingar 284 lm. Skúr 56.9 m3.
   Bætur ákveðast þannig:

   Bætur fyrir ræktun         kr.   165.000
   Bætur fyrir girðingar         "   85.000
   Bætur fyrir skúr         "   115.000
               kr.   365.000
10B   Kristján Eyjólfsson eigandi ræktunar og mannvirkja.
   Sameign lands. Stærð lands 4824 m². Ræktaður hluti 4160 m².
   Girðingar 642 lm. Fjárhús 155 m3. Hlaða 112.3 m3.
   Fjárhús sem viðbygging 31.9 m3. Vélageymsla 33.9 m3
   Bætur ákveðast þannig:

   Bætur fyrir ræktun         kr.   92.000
   Bætur fyrir girðingar         "   58.000
   Bætur fyrir fjárhús         "   575.000
   Bætur fyrir hlöðu         "   280.000
   Bætur fyrir viðbyggingu         "   95.000
   Bætur fyrir vélageymslu         "   50.000
               kr.   1.150.000.-

D   Sameign í Kálfaneslandi. Land milli vega.
   Bætur ákveðast þannig:

   Grunnverð      2206 m²      kr.   10.000.-

Kálfanesland
Sameign og mannvirki
B lönd

   Grunnverð      100674 m²      kr.   14.094.360
   Eyjan      2194 m²      "   65.640
   Sameign mannvirkja         "   134.000
   Land milli vega   2206 m²      "   10.000
            Samtals   kr.   14.304.000.-

2C   Virðing sýslumannslóðar skv. erfðaleigusamningi úr eignarlóð 11B (Magnúsarbörn) í Kálfaneslandi. Land 178 m² kr. 25.000.-.
Bætur metnar fyrir land og mannvirki í Kálfaneslandi

      Eignarhlutföll   Hluti í   Eignarhlutföll   Hluti í séreign   Heildarmat bóta
Eignaraðili   sameignar   sameign kr.   séreignar   +   kr.   -   kr.____

1.   Kristján Eyjólfsson   4/12   4.768.000      1.217.000   5.985.000
2.   Kristín Tómasdóttir   1/12   1.192.000         1.192.000
3.   Valgerður Tómasdóttir   1/12   1.192.000         1.192.000
4.   Elsa Tómasdóttir   1/12   1.192.000         1.192.000
5.   Brandur Tómasson   1/12   1.192.000         1.192.000
6.   Arndís Benediktsdóttir   1/12   1.192.000   1/4   504.000   1.696.000
7.   Guðrún Benediktsdóttir   1/12   1.192.000   1/4   504.000   1.696.000
8.   Ingimundur Benediktsson   1/12   1.192.000   1/4   504.000   1.696.000
9.   Finnur Benediktsson   1/12   1.192.000   1/4   504.000   1.696.000
10.   Sólveig Magnúsdóttir         1/5   50.000   - 5.000   45.000
11.   Ingibjörg Magnúsdóttir         1/5   50.000   - 5.000   45.000
12.   Finnur Magnússon         1/5   50.000   - 5.000   45.000
13.   Jón J. Magnússon         1/5   50.000   - 5.000   45.000
14.   Ásgeir Magnússon         1/5   50.000   - 5.000   45.000
15.   Orkubú Vestfjarða            4.056.000   4.056.000
16.   Þorsteinn Jónsson            365.000   365.000
17.   Dómsmálaráðun. v/ríkissj. (2C)         25.000   25.000
         kr. 14.304.000   +   7.929.000   - 25.000   =   22.208.000.-

   Frádráttar upphæðin kr. 25.000 er vegna erfðaleigusamnings sýslumannslóðar og skiptist jafnt með kr. 5.000 á aðila 10-14 hér að ofan og verður því nettó hlutur hvers þeirra kr. 45.000.- eins og að ofan greinir. Sjá ennfremur 2C að framan. Verðgildi erfðaleigusamnings (um kr. 300) fyrir landeigendur er það lítið að ekki tekur að reikna það út.

Bætur metnar fyrir land, og mannvirki á "Gömlu verslunarlóðinni á Hólmavík

                  
Eignaraðili   Eignarhlutfall %   Hlutur í sameign kr.   séreignarhlutar kr.   Bætur alls kr.

1.   Kristján Jónsson   40   389.200            389.200
2.   Arndís Benediktsdóttir   10   97.300         97.300
3.   Guðrún Benediktsdóttir   10   97.300         97.300
4.   Ingimundur Benediktsson   10   97.300         97.300
5.   Finnur Benediktsson   10   97.300         97.300
6.   Sólveig Magnúsdóttir   4      38.920            38.920
7.   Ingibjörg Magnúsdóttir   4      38.920            38.920
8.   Finnur Magnússon   4      38.920            38.920
9.   Jón J. Magnússon   4      38.920            38.920
10.   Ásgeir Magnússon   4      38.920            38.920
11.   Dómsmálaráðun. v/ríkissjóðs         753.000   505.000   1.258.000
         1.726.000      505.000         2.231.000

   Verðgildi erfðaleigusamnings fyrir landeigendur er það lítið að ekki tekur að reikna það út.

Heildarmat

1.   Kristján Eyjólfsson ...................................................   kr.   5.985.000
2.   Kristín Tómasdóttir ..................................................   "   1.192.000
3.   Valgerður Tómasdóttir .............................................   "   1.192.000
4.   Elsa Tómasdóttir .......................................................   "   1.192.000
5.   Brandur Tómasson ....................................................   "   1.192.000
6.   Arndís Benediktsdóttir ..............................................   "   1.793.300
7.   Guðrún Benediktsdóttir ............................................   "   1.793.300
8.   Ingimundur Benediktsson .........................................   "   1.793.300
9.   Finnur Benediktsson .................................................   "   1.793.300
10.   Sólveig Magnúsdóttir ...............................................   "   83.920
11.   Ingibjörg Magnúsdóttir .............................................   "   83.920
12.   Finnur Magnússon ....................................................   "   83.920
13.   Jón J. Magnússon ......................................................   "   83.920
14.   Ásgeir Magnússon ....................................................   "   83.920
15.   Kristján Jónsson ........................................................   "   389.200
16.   Þorsteinn Jónsson .....................................................   "   365.000
17.   Orkubú Vestfjarða ....................................................   "   4.056.000
18.   Dómsmálaráðuneytið v/ríkissjóðs ............................   "   1.283.000
      Samtals   kr.   24.439.000

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Fjara og réttindi á sjó út eru reiknuð með í mati þessu.

Rétt þykir, með vísan til 11. gr. laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði talsmannslaun til eftirtalinna aðila:

   Dómsmálaráðuneytinu   kr.   50.000.-
   Andrési Ólafssyni   "   52.370.-
   Jóni G. Kristjánssyni   "   100.000.-

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 950.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Hólmavíkurhreppur, greiði eftirtöldum eignarnámsþolum fébætur, sem hér segir:

   Kristjáni Eyjólfssyni   kr.   5.985.000
   Kristínu Tómasdóttur   "   1.192.000
   Valgerði Tómasdóttur   "   1.192.000
   Elsu Tómasdóttur   "   1.192.000
   Brandi Tómassyni   "   1.793.000
   Arndísi Benediktsdóttur   "   1.793.000
   Guðrúnu Benediktsdóttur   "   1.793.000
   Ingimundi Benediktssyni   "   1.793.000
   Finni Benediktssyni   "   1.793.000
   Sólveigu Magnúsdóttur   "   83.920
   Ingibjörgu Magnúsdóttur   "   83.920
   Finni Magnússyni   "   83.920
   Jóni J. Magnússyni   "   83.920
   Ásgeiri Magnússyni   "   83.920
   Kristjáni Jónssyni   "   389.200
   Þorsteini Jónssyni   "   365.000
   Orkubúi Vestfjarða   "   4.056.000
   Dómsmálaráðuneyti v/ríkissj.   "   1.283.000

Eignarnemi greiði Dómsmálaráðuneytinu talsmannslaun kr. 50.000.-.

Eignarnemi greiði Andrési Ólafssyni talsmannslaun kr. 52.370.-.

Eignarnemi greiði Jóni G. Kristjánssyni talsmannslaun kr. 100.000.-.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 950.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum