Hoppa yfir valmynd
16. mars 1993 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 16. mars 1993

MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA

               ÚRSKURÐUR
               uppkveðinn 16. mars 1993
               í eignarnámsmálinu nr. 1/1991:

               Landsvirkjun    
               gegn
               Magnúsi Hjaltested.
                  

I. Skipan matsnefndar.

   Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður Matsnefndar eignarnámsbóta, og matsmennirnir Stefán Tryggvason, bóndi, og Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. 2. mgr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Aðilar.

   Eignarnemi er Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, en eignarnámsþoli er Magnús Hjaltested, kt. 280341-2079, Vatnsenda, Kópavogi.

III. Matsbeiðni.

   Matsbeiðni lögmanns eignarnema er dags. 28. febrúar 1991.

IV. Andlag eignarnáms og tilefni.

   Tilefni eignarnáms er lögn nýrrar 220 kV háspennulínu, Búrfellslínu 3 B, frá Sandskeiði að aðveitustöð Landsvirkjunar við Hamranes. Andlag eignarnámsins er réttur fyrir eignarnema til að reisa 11 turnmöstur í landi Vatnsenda ásamt undirstöðustögum og leiðurum, réttur til að leggja 3,6km langan vegslóða meðfram línustæðinu og kvöð um að ekki megi byggja önnur mannvirki nær háspennulínunni en 30 metra til sitt hvorrar handar við miðju hennar og nái byggingarbann þetta til um 19,5 ha í landi Vatnsenda.

V. Eignarnámsheimild.

   Eignarnemi vísar til 18. gr. l. nr. 42/1983 um Landsvirkjun um heimild til eignarnáms. Jafnframt vísar hann til bréfs Iðnaðarráðuneytisins 31. júlí 1990 um samþykki fyrir því að Landsvirkjun reisti greinda háspennulínu með vísan til 6. og 7. gr. l. nr. 42/1983. Þá vísar eignarnemi til bréfs Iðnaðarráðuneytisins dags. 23. nóvember 1990 þar sem eignarnema var veitt almenn heimild til að taka eignarnámi landsréttindi vegna línunnar. Þá vísar eignarnemi í V. og VI. kafla vatnalaga nr. 15/1923, einkum 54. og 55. gr. laganna.

   Eignarnámsþoli gerir út af fyrir sig ekki athugasemd við eignarnámsheimild eignarnema, en eignarnámsþola var gefinn sérstakur kostur á að tjá sig um eignarnámsákvörðunina.

VI. Kröfur eignarnema.

   Kröfur eignarnema eru þær að matsnefndin meti bætur til eignarnámsþola sem eignarnema ber að greiða vegna eignarnáms á landsréttindum í landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi, svo sem nánar er gerð grein fyrir í greinargerð.

   
VII. Kröfur eignarnámsþola.

   Kröfur eignarnámsþola eru þær aðallega að eignarnámsbætur verði metnar kr. 40.162.000.- , og til vara kr. 15.233.400.- og til þrautavara kr. 8.201.700.-. Þá er þess krafist að eignarnema verði gert að taka eignarnámi 39 ha landsspildu og til tjóns eignarnámsþola teljist allt það efni, sem er í hinni eignarnumdu landsspildu. Þá er krafist bóta vegna annars tjóns, jarðrasks, óþæginda og röskunar, sem eignarnámsþoli verði fyrir vegna eignarnámsins. Að lokum er krafist málskostnaðar skv. málskostnaðarreikningi og gjaldsskrá LMFÍ.

VIII. Málsmeðferð.

   Mál þetta var fyrst tekið fyrir í matsnefndinni 15. mars 1991 og þá lagði lögmaður eignarnema fram matsbeiðni og greinargerð ásamt fylgiskjölum nr. 3-16. Lögmaður eignarnámsþola lýsti því yfir að hann teldi eignarnámsheimild vera fyrir hendi og ákvörðun um að beita henni vera löglega tekna. Matsnefndin taldi eignarnámsheimild vera fyrir hendi og taldi að löglega hefði verið staðið að ákvörðun um eignarnám og tók málið því málið fyrir sbr. 5. gr. 1. mgr. l. nr. 11/1973. Leitað var sátta með aðilum en án árangurs.

   Á þeim fundi kom fram að eignarnámsþoli féllst ekki á að eignarnemi fengi umráð þeirra landsréttinda sem að eignarskerðingin beinist að og var því ákveðið að matsnefndin mundi taka afstöðu til þess ágreiningsefnis að undangenginni vettvangsgöngu. Hinn 4. apríl 1991 gekk matsnefndin á vettvang ásamt talsmönnum aðila, en að lokinni þeirri vettvangsgöngu urðu aðilar ásáttir um að því aðeins skyldi flytja málið um ágreininginn um umráðaheimild, að þeir næðu ekki samkomulagi þar um. Því var frestað málflutningi um ágreining um umráðaheimildina og nokkru síðar tilkynntu talsmenn aðila formanni matsnefndar að samkomulag hefði tekist um að eignarnemi tæki umráð landsréttindanna og hæfi framkvæmdir.

   Málið kom síðar fyrir á fundi matsnefndar hinn 17. október 1991 og lagði lögmaður eignarnámsþola þá fram nr. 17, greinargerð og nr. 18-46 fylgiskjöl. Að auki voru lögð fram skjöl nr. 47-61.

   Í bréfi lögmanns eignarnema á skj. nr. 47 var dreginn í efa eignarréttur eignarnámsþola á landi því sem orkuflutningslínan liggur um. Er matsnefndin óskaði eftir því að eignarnemi tæki afdráttarlausa afstöðu til þess hvort hann teldi eignarnámsþola eiganda landsins eða ekki svaraði lögmaður eignarnema því þannig, að slíkur vafi væri talinn á eignarrétti að landinu að eignarnemi teldi óhjákvæmilegt að fyrir lægju sannanir um eignarréttinn. Að öðrum kosti yrði matsnefndin að gefa öðrum aðilum, sem hugsanlega ættu rétt til landsins, kost á að tjá sig um málið. Lögmaður eignarnámsþola skoraði á lögmann eignarnema að taka afstöðu til þess hvort hann teldi eignarnámsþola eiganda landsins eða ekki, en lögmaður eignarnema sagði að í því sem hann hefði áður sagt fælist nægur vafi um eignarréttinn, til þess að á því máli þyrfti að taka sérstaklega. Taldi hann það hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta að taka afstöðu til þess hvernig haga bæri málsmeðferð að svo komnu máli.

   Á fundi matsnefndar hinn 14. nóvember 1991 voru lögð fram skjöl nr. 62 og 63. Lögmenn aðila gerðu á fundinum grein fyrir gögnum um merki jarðarinnar Vatnsenda, bæði gögnum sem fram hafa verið lögð í málinu og öðrum gögnum, sem kynnt voru matsnefndinni, en ekki lögð fram.

   Á skjali nr. 63 kom fram að Kópavogskaupstaður mundi eigi gera kröfur um eignarnámsbætur vegna þess lands, sem eignarnám þetta tekur til og taldi kaupstaðurinn vera um eignarland Vatnsenda að ræða.

   Lögmenn aðila voru sammála um að aðrir hugsanlegir hagsmunaaðilar en Kópavogur gætu verið Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður.

   Matsnefnd eignarnámsbóta ákvað að rita Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstað og óska afstöðu þeirra til hugsanlegs tilkalls til landsins eða landsréttinda þeirra, sem eignarskerðingin beinist að og jafnframt að senda afrit til Kópavogskaupstaðar. Bæjarstjóra Seltjarnarness og borgarstjóranum í Reykjavík voru rituð bréf 10. janúar 1992 og skorað á þessa aðila að tjá sig um það hvort þeir gerðu tilkall til lands þess, sem háspennulínan liggur um. Meðal gagna sem þessum aðilum voru send var bréf lögfræði- og stjórnsýsludeildar Reykjavíkurborgar dags. 11. september 1991 til Hreins Loftssonar hdl., lögmanns eignarnema ásamt drögum og greinargerð um mörk afréttar Seltjarnarnesshrepps hins forna.

   Í svarbréfi bæjarstjórans á Seltjarnarnesi dags. 17. janúar 1992 segir að bæjarstjórinn taki undir greinargerð lögfræði- og stjórnsýsludeildar Reykjavíkur að því er varðar 1. og 2. lið í greinargerðinni, en þar er lýst norður og vesturmörkum afréttarins. Með bréfi dags. 7. apríl 1992 svaraði Hjörleifur B. Kvaran f.h. lögfræði- og stjórnsýsludeildar Reykjavíkur bréfi Matsnefndar eignarnámsbóta. Þar er því lýst að nokkur óvissa sé um hvar takmörk jarðanna Elliðavatns og Vatnsenda séu gagnvart afréttinum og því sé aðeins unnt að leiða líkur að því hvar þessi mörk hafi legið. Síðan er lýst túlkun á gögnum sem vitnað er til og síðan sagt eftirfarandi:

      "Reynist sú athugun á afmörkun afréttarins rétt sem hér hefur verið gerði grein fyrir er spilda sú sem eignarnámsmálið tekur til utan eignarlands Vatnsenda en innan marka afréttarins sem er þá í eigu þeirra jarða sem áður mynduðu Seltjarnarneshrepp hinn forna og er nú að mestu í eigu Reykjavíkurborgar, Kópavogs og Seltjarnarness."

   Á fundi matsnefndar gafst aðilum kostur á að tjá sig enn nánar um framangreint en fyrr áður en álitamálið var tekið til úrskurðar.

IX. Málsatvik.

   Ekki þykir ástæða til að lýsa í forsendum þessa úrskurðar málsatvikum að öðru leyti en því, sem þeir kunna að snúa að álitaefninu, sem er um eignarrétt að landsréttindum þeim sem eignarskerðingin lítur að.

   Enginn fyrirvari er gerður um eignarrétt eignarnámsþola í matsbeiðni eða öðrum frumsóknargögnum eignarnema. Það er fyrst með bréfi til Matsnefndar eignarnámsbóta dags. 16. október 1991, sem lögmaður eignarnema heldur því fram að vafi virðist leika á því " hvort um sé að ræða fullkominn eignarrétt Magnúsar á landinu eða hvort línustæði sé á afréttarlandi í eigu fleiri aðila." Telur lögmaðurinn að sér hafi nú borist gögn sem leiði til þess að óhjákvæmilegt sé að eignarnámsþoli sanni að hann eigi fullkominn eignarrétt yfir greindu landi. Að öðrum kosti séu brostnar forsendur fyrir efnislegri umfjöllun um bætur vegna eignarnámsins.

   Þá lagði eignarnemi fram framangreint bréf Hjörleifs B. Kvaran hjá lögfræði- og stjórnsýsludeild Reykjavíkur dags. 11. september 1991 ásamt greinargerð um afrétt Seltjarnarnesshrepps hins forna. Lögmaður eignarnámsþola skrifaði matsnefndinni bréf 10. október 1991 og gerði grein fyrir því sjónarmiði eignarnámsþola

      "Að Landsvirkjun getur undir engum kringumstæðum átt lagalega rétta aðild að því að bera brigður á eignarrétt umbj. að þeirri landsspildu umbj. m., sem eignarnámið tekur til."

   Með bréfi lögmanns eignarnámsþola dags. 6. nóvember 1991 óskaði hann eftir því að Matsnefnd eignarnámsbóta ritaði Reykjavíkurborg og Kópavogskaupstað bréf og skoraði á þá að taka skriflega afstöðu til tiltekinna atriða varðandi eignarrétt að landsréttindunum.

   
X. Sjónarmið eignarnema.

   Sjónarmið eignarnema eru í þessum þætti málsins þau, að vafasamt sé að skilyrði frekari málsmeðferð fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta séu uppfyllt, þar sem fram hafi komið rökstuddur vafi um eignarrétt eignarnámsþola á landi því sem háspennulínan og vegslóðinn hafi verið lögð um. Matsnefnd eignarnámsbóta beri sjálfkrafa að taka afstöðu til þess hvaða áhrif þessi vafi hafi á framgang eignarnámsmálsins.

XI. Sjónarmið eignarnámsþola.

   Lögmaður eignarnámsþola mótmælir því að eignarnemi eigi aðild að því að véfengja eignarrétt eignarnámsþola að umræddu landi. Hann er hins vegar sammála eignarnema um það, að hugsanlegir hagsmunaaðilar geti ekki verið aðrir en Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður auk Kópavogskaupstaðar, sem hefur þegar lýst því yfir að kaupstaðurinn geri ekki kröfur vegna landsins sem eignarnámið tekur til.

XII. Álit matsnefndar.

   Í matsbeiðni eignarnema frá 28. febrúar 1991 og í greinargerð hans frá sama degi er á því byggt, að þau 11 turnmöstur, sem lýst er í gögnum frá eignarnema standi á landi jarðarinnar Vatnsenda og að eignarnámsþoli, Magnús Hjaltested, sé eigandi þeirrar jarðar. Sú afstaða eignarnema var óbreytt þegar gengið var á vettvang hinn 4. apríl 1991 og einnig þegar lögmenn aðila gerðu samkomulag um umráðatöku eignarnema á landsréttindunum og upphaf framkvæmda og tilkynntu formanni matsnefndar þar um. Það er fyrst með bréfi lögmanns eignarnema frá 16. september 1991 til Matsnefndar eignarnámsbóta, að látinn er í ljós vafi um eignarrétt eignarnámsþola að landinu og látin í ljós sú skoðun, að aðrir kunni að eiga eignartilkall til landsins. Vafa þennan styður eignarnemi við gögn frá Reykjavíkurborg, en þess ber að geta, að Reykjavíkurborg er annar af aðaleigendum eignarnema, Landsvirkjunar.

   Matsnefnd eignarnámsbóta taldi á hinn bóginn, að upphafleg matsbeiðni ásamt fylgiskjölum bæri með sér og staðfesti, að eignarnámsþoli væri réttur eigandi landsins, sem eignarskerðingin beindist að, og eignarréttur hans takmarkaðist ekki af réttindum annarra aðila.

   Eignarnemi hefur hins vegar sýnt fram á það með gagnaöflun og gagnaframlagningu á síðari stigum málsins, að vafi kann að leika á mörkum lands Vatnsenda og afréttarlands Seltjarnarnesshrepps hins forna.

   Í 5. gr. 2. mgr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms segir að birta skuli opinbera tilkynningu í Lögbirtingarblaði ef ekki þyki nægilega ljóst hverjir eigi rétt til eignarnámsbóta. Þetta ákvæði þykir ekki eiga við hér, enda eru aðilar út af fyrir sig sammála um það hverjir kynnu að eiga til réttar að telja, ef upphafleg sjónarmið um eignarrétt að landinu verða ekki lögð til grundvallar. Matsnefndin telur því, að ljóst sé að framangreint ákvæði eigi ekki við, enda er fram komið, að bæði Seltjarnarneskaupstaður og Reykjavíkurborg telja til réttinda yfir greindu landssvæði, þótt sjónarmið þeirra séu ekki með öllu ljós.

   Í 10. gr. 2. mgr. l. nr. 11/1973 segir að eigi aðrir rétthafar en eigandi eignarnumins verðmætis rétt til eignarnámsbóta skuli meta og tilgreina sérstaklega þær bætur, sem hverjum þeirra ber. Matsnefndin telur ljóst, að þessu ákvæði verði heldur ekki beitt, þar sem bæði sé ágreiningur um mörk lands og að auki í hverju réttindi hvers og eins kunni að felast og hversu víðtæk þau kunni að vera.

   Matsnefndin telur því með hliðsjón af framangreindu, að óhjákvæmilegt sé, að fyrir liggi með ótvíræðum hætti hverjir eigi eignarréttindi yfir landsréttindum þeim sem eignarskerðingarnar beinast að skv. eignarnámsbeiðni eignarnema. Matsnefndin telur sér ekki kleift að halda áfram matsstörfum án þess að glöggt sé hverjir eigi þau réttindi, sem eignarnámið beinist að. Matsnefnd eignarnámsbóta frestar því meðferð máls þessa, þar til fyrir liggur með endanlegum dómi í dómsmáli eða með öðrum hætti hverjir teljist eiga réttindi yfir hinu umþrætta landi.

   Ákvörðun um málskostnað eignarnámsþola fram til þessa verður ekki tekin á þessu stigi málsins. Eignarnemi greiði ríkissjóði kostnað af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta við málið fram til þessa samtals að fjárhæð kr 240.000,-.

   MATSORР  

   Meðferð máls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta er frestað um óákveðinn tíma þar til leyst hefur verið úr ágreiningi um eignarréttindi að landi því sem eignarskerðingin beinist að skv. matsbeiðni eignarnema.

   Eignarnemi, Landsvirkjun, greiði ríkissjóði kostnað af starfi matsnefndar vegna málsins til þessa dags samtals kr. 240.000,-

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum