Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 13/2014, úrskurður 9. apríl 2014

Mál nr. 13/2014
Eiginnafn: Cesar

 Hinn 9. apríl 2014 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 13/2014:

 Hinn 29. janúar 2014 framsendi Þjóðskrá Íslands beiðni umsækjenda um endurupptöku á úrskurði nr. 57/2013 þar sem hafnað var beiðni um eiginnafnið Cesar.

 Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa tiltekin skilyrði að vera uppfyllt svo mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá, líkt og fram kemur í úrskurði nr. 57/2013. Samkvæmt nefndu ákvæði skal nafn m.a. fullnægja því skilyrði að vera ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Ritháttur nafnsins Cesar (kk.) er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn c er ekki notaður í íslenskri stafsetningu. Á þennan rithátt nafnsins er því aðeins heimilt að fallast ef hann telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.

 Í athugasemdum með beiðni umsækjenda kemur fram að árið 2012 hafi drengur fengið nafnið Cesar. Mannanafnanefnd hefur kannað þær upplýsingar. Fyrir liggur að með þeirri nafngjöf sem nefnd er í athugasemdunum hefur Íslendingum með nafnið Cesar fjölgað um einn. Eru því þrír Íslendingar á lífi sem bera nafnið, með umbeðnum rithætti. Enn fremur bar einn Íslendingur nafnið fæddur árið 1925.

 Í vinnulagsreglum sem mannanafnanefnd hefur til hliðsjónar við mat á því hvort fallast beri á rithátt nafna sem ekki samræmist almennum ritreglum íslensks máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996 er m.a. byggt á því að nafn sé hefðað ef það er nú borið af 5-9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð að minnsta kosti 60 ára aldri annars vegar eða ef það er nú borið af 1-4 Íslendingum og það kemur þegar fyrir í manntalinu 1910.

 Mannanafnanefnd hefur umræddar vinnulagsreglur til stuðnings við mat sitt. Þær eru hins vegar ekki ráðandi um niðurstöðu mála, bendi önnur atriði engu að síður til þess að ritháttur nafns hafi hefðast. Í ljósi framangreindra upplýsinga telur nefndin að atvik málsins standi svo nærri framangreindum viðmiðum, eins og þeim er lýst í vinnulagsreglum, að ekki sé annað fært en að fallast á að rithátturinn Cesar hafi öðlast hefð í íslensku máli, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn. Ber því að fallast á eiginnafnið Cesar.

 Úrskurðarorð:

Með vísan til þessa er beiðni um eiginnafnið Cesar (kk) samþykkt. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum